Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2004 Forsætisráðuneytið

Upplýsingatækni og leiðir til að efla lýðræðið - Fjölsótt norræn ráðstefna í Reykjavík

Hvaða áhrif hefur upplýsingatækni á lýðræðið og hvernig má nýta tæknina til að styrkja það? Leitað verður svara við þessum spurningum á norrænni ráðstefnu um Lýðræðið á öld upplýsingatækni, sem haldin verður á Hótel Nordica dagana 26.- 27. ágúst.

Á annað hundrað manns sitja ráðstefnuna, sem efnt er til í tilefni af formennsku Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni, og fer hún fram samhliða árlegum fundi norrænna upplýsingatækniráðherra. Meðal ráðstefnugesta eru ráðherrar, þingmenn, sveitarstjórnarmenn, fræðimenn og embættismenn hvaðanæva að á Norðurlöndum.

Á árinu 2002 hélt Norðurlandaráð þemafund á Íslandi undir yfirskriftinni Norrænt lýðræði 2020 þar sem framtíð lýðræðis var til umræðu. Ráðstefnan um Lýðræði á öld upplýsingatækni er haldin að áskorun ráðsins, en eitt af áherslumálum Íslendinga í norrænu samstarfi er að leita leiða til að efla lýðræðið. Nefnd, sem að frumkvæði Íslendinga var sett á laggirnar í byrjun árs til að kanna stöðu lýðræðis á Norðurlöndum, mun kynna störf sín á ráðstefnunni, en ráðgert er að hún skili skýrslu í lok ársins.

Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni eru Kim Viborg Andersen prófessor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, Sirpa Sinikka Sassi prófessor við Háskólann í Helsinki, Fredrik Engelstad prófessor við Óslóarháskóla og Lars Torpe lektor við Álaborgarháskóla. Ráðstefnustjóri er Sigrún Stefánsdóttir yfirmaður upplýsingaskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs.

Fjölmiðlafólki er hér með boðið að sitja ráðstefnuna Lýðræði á öld upplýsingatækni.

Ráðstefnan hefst með panelumræðum norrænu upplýsingatækniráðherranna undir stjórn norska fræðimannsins Mortens Øgård. Hægt verður að ná tali af ráðherrum eftir umræður þeirra fimmtudaginn 26. ágúst kl. 15.00

Frekari upplýsingar veitir Guðbjörg Sigurðardóttir, forsætisráðuneyti í síma  545 8470 og 897 3270 og Sigrún Björnsdóttir Norðurlandaskrifstofu í síma 820 8895.

Dagskrá á PDF sniði (70Kb)

Í Reykjavík, 23. ágúst 2004.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum