Hoppa yfir valmynd
22. júní 2006 Forsætisráðuneytið

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar

Fundur ríkisstjórnarinnar og fulltrúa Alþýðusambands Íslands í Ráðherrabústaðnum
Fundur ríkisstjórnarinnar og fulltrúa Alþýðusambands Íslands í Ráðherrabústaðnum

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar

til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga.

 Ríkisstjórnin tekur undir þau markmið sem Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa sett sér um hjöðnun verðbólgu á árinu 2007 og mun hafa náið samstarf við aðila til að tryggja þær efnahagslegu forsendur sem liggja til grundvallar samkomulagi þeirra, sérstaklega hvað varðar þróun verðlags. Í þessu skyni lýsir ríkisstjórnin sig reiðubúna til samstarfs um eftirfarandi aðgerðir til að stuðla að áframhaldandi stöðugleika á vinnumarkaði:


1.      Persónuafsláttur einstaklinga hækki úr 29.029 krónum í 32.150 krónur um næstu áramót. Með þessari hækkun og lækkun tekjuskatts hækka skattleysismörk einstaklinga úr 79 þús.kr. í 90 þús.kr. á mánuði, eða um 14%. Ríkisstjórnin mun jafnframt beita sér fyrir því að persónuafsláttur verði endurskoðaður árlega, í fyrsta sinn frá 1. janúar 2008, og breytist í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði.


2.      Ríkisstjórnin lýsir sig reiðubúna til að endurskoða ákvæði laga um vaxtabætur ef í ljós kemur við niðurstöðu álagningar í ágúst nk. að hækkun fasteignaverðs á árinu 2005 hefur leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum.


3.      Um næstu áramót verði teknar upp greiðslur barnabóta til 18 ára aldurs í stað 16 ára aldurs. Þessi breyting kemur til viðbótar við áður ákveðna 25% hækkun skerðingarmarka barnabóta og lækkun skerðingarhlutfalla.


4.      Vegna ofangreindra breytinga mun ríkisstjórnin beita sér fyrir að tekjuskattur einstaklinga lækki um 1% um næstu áramót í stað 2% lækkunar sem áður var fyrirhuguð, þ.e. úr 23,75% í 22,75%.


5.      Framlög til fullorðins- og starfsmenntamála verði aukin og kemur sú hækkun til framkvæmda á árinu 2007. Þessum fjármunum verður varið til námskeiðahalds og endurmenntunar einstaklinga á vinnumarkaði sem leggja stund á nám sem byggir á námskrám sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur vottað og menntamálaráðuneytið staðfest, til að efla náms- og starfsráðgjöf og raunfærnismat í samvinnu við fræðslumiðstöðvar iðnaðarins fyrir launamenn sem hafa lokið hluta náms á skipulögðum starfsmenntabrautum og til að efla starfsemi símenntunarmiðstöðvar ASÍ á höfuðborgarsvæðinu. Nánar verður kveðið á um þennan stuðning í viðauka við þjónustusamning sem í gildi er milli menntamálaráðuneytis og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Gert er ráð fyrir því að verja 120 m.kr. til framangreindra verkefna á ársgrundvelli til viðbótar því fé sem þegar er veitt í þessu skyni.


6.      Ríkisstjórnin hefur áður ákveðið að efna til samstarfs stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins þar sem farið verði yfir málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði, enda mikilvægt að fjölgun erlendra fyrirtækja og útlendinga raski ekki þeim reglum og samskiptahefðum sem hafa mótast á íslenskum vinnumarkaði. Tryggja ber að réttur sé ekki brotinn á launafólki og þau fyrirtæki sem hafa hér starfsemi virði lög og kjarasamninga. Unnið verði að því að setja ítarlegri reglur um tilkynningaskyldu þjónustuveitenda sem koma með starfsmenn sína hingað til lands og hvernig bæta megi framkvæmdina innan stjórnkerfisins í því skyni að tryggja að útlendingar dvelji og starfi hér á landi með lögmætum hætti. Ríkisstjórnin lýsir sig jafnframt reiðubúna  til að taka upp samstarf við aðila vinnumarkaðarins um átak gegn svartri atvinnustarfsemi. Megináhersla verður lögð á átak gegn hvers kyns gerviverktöku, t.d. í byggingariðnaði, þjónustutengdri mannvirkjagerð og veitingastarfsemi, aukið eftirlit með starfsemi og skattskilum erlendra þjónustuveitenda og starfsmanna þeirra og átak á sviði útboðsmála sem miði að því að koma í veg fyrir undirboð sem byggi á svonefndu kennitöluflakki eða á því að starfskjör starfsmanna viðkomandi verktaka uppfylli ekki íslensk lög og kjarasamninga. Ríkisstjórnin lýsir því yfir að fyrirliggjandi tillögur aðila vinnumarkaðarins um þessi efni verði hafðar til hliðsjónar við endurskoðun laga og reglugerða og að fjármögnun verði tryggð.


7.      Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að grunnfjárhæðir atvinnuleysisbóta hækki hinn 1. júlí 2006 um 15.000 krónur til samræmis við þær hækkanir sem felast í samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Jafnframt mun hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta hækka úr 180.000 krónum í 185.400 krónur. Tilhögun breytinga á fyrirkomulagi bótagreiðslna elli- og örorkulífeyrisþega er til umfjöllunar á öðrum vettvangi þar sem nánari útfærsla þessara mála verður ákveðin til samræmis við fyrrgreindar ákvarðanir.

 

                                                                                                      Reykjavík, 22. júní 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum