Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2008 Forsætisráðuneytið

Samkomulag næst við Evrópusambandið fyrir hönd Hollendinga og Breta - Greiðir fyrir láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF)

Mikilvægur áfangi hefur náðst til lausnar deilunnar um innstæðutryggingar vegna íslenskra bankaútibúa á Evrópska efnahagssvæðinu og stöðu sparifjáreigenda í þeim. Viðræður Íslands við nokkur Evrópusambandsríki, sem komust á fyrir tilstilli Frakklands sem nú fer með formennsku í Evrópusambandinu, leiddu til samkomulags um viðmið sem lögð verða til grundvallar frekari samningaviðræðum.

Samkomulagið felur í sér að íslensk stjórnvöld ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um til innstæðueigenda í útibúum bankanna erlendis. Endanlegur kostnaður ríkissjóðs vegna þessa mun ráðast af því hvað greiðist upp í innstæðutryggingar af eignum bankanna. Einnig er kveðið á um að Evrópusambandið, undir forystu Frakklands, taki áframhaldandi þátt í að finna lausnir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármálakerfi og efnahag.

Aðilar eru ásáttir um að hraða fjárhagslegri aðstoð við Ísland, þar með talið samþykkt lánafyrir­greiðslu sem beðið hefur samþykktar stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) undanfarnar vikur. Erindi Íslands hjá IMF verður tekið til afgreiðslu hjá sjóðnum miðvikudaginn 19. nóvember.

Umsamin viðmið

  1. Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/EB. Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í lög­gjöf­ina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahags­svæð­ið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.
  2. Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samninga­viðræðna þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóða­gjald­eyris­sjóðinn. Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.
  3. Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.

Reykjavík 16. nóvember 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum