Hoppa yfir valmynd
30. mars 2009 Forsætisráðuneytið

Skýrsla Kaarlos Jännäris um reglur og eftirlit með bankastarfsemi - niðurstöður og ábendingar

Ríkisstjórn Íslands ákvað í nóvember 2008 að biðja reyndan bankaeftirlitsmann að leggja mat á lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi og gera tillögur um nauðsynlegar úrbætur, en matið er hluti af samkomulagi stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Sérfræðingurinn var einkum beðinn um að meta regluverk varðandi lausafjárstýringu, lán til tengdra aðila, stórar stöðutökur, krosseignarhald og loks mat á hæfi eigenda og stjórnenda (e. ,,fit and proper"). Samkomulag varð um að matsskýrslan yrði gert opinber og skyldi vera tilbúin í lok mars 2009. Skýrslan hefst á yfirliti þar sem lýst er stofnanalegri umgjörð reglusetningar og eftirlits á sviði fjármálastarfsemi á Íslandi, síðan er sagt frá kreppunni og aðdraganda hennar, þar næst er lýsing á meginþáttum þeirra sviða sem matið fjallar einkum um, auk þess er hugað að fáeinum atriðum sem skipta máli í tengslum við matið. Í lokakaflanum má finna niðurstöður og helstu ráðleggingar varðandi framtíðina.

Ábendingar og tillögur

,,Ég geri ráð fyrir," segir Jännäri, ,,að íslenskt bankakerfi í framtíðinni verði mjög ólíkt því gamla. Bankarnir verða venjulegir viðskiptabankar á íslenskum innanlandsmarkaði.

Um efnahagsumhverfið á Íslandi í framtíðinni er erfitt að spá en ég tel miklar líkur á, að Ísland muni ganga í ESB og taka upp evru á næstu fimm árum eða svo. Það myndi leysa það vandamál, sem er lítill og óstöðugur gjaldmiðill. Áður en að því kemur verður þó að takast á við verðtrygginguna og hlutverk Íbúðalánasjóðs.

Með þetta í huga vil ég taka saman helstu tillögur mínar um framtíðarskipan mála svo sem hér greinir að neðan. Í skýrslunni er raunar að finna fjölda annarra en veigaminni tillögur .

  1. Fækka ber ráðuneytum, sem hafa með löggjöf á sviði fjármálamarkaðinn að gera eða tengjast honum með öðrum hætti.
  2. Sameina ber SÍ og FME eða færa stofnanirnar undir sömu yfirstjórn (eins og í Finnland og Írlandi).
  3. Auka ber valdheimildir FME og hvetja ber stofnunina til að beita sér af meiri krafti.
  4. Koma ber upp útlánaskrá (e. national credit registry) hjá FME til að draga úr útlánaáhættu í kerfinu og til að betri yfirsýn fáist yfir stórar áhættuskuldbindingar á landsvísu.
  5. Setja ber strangari reglur umstórar áhættuskuldbindingar, lán til tengdra aðila og hæfi eigenda. Jafnframt ber að herða framkvæmd slíkra reglna, eftir atvikum á grundvelli matskenndra heimilda í samræmi við heilbrigða dómgreind..
  6. Framkvæma ber fleiri vettvangskannanir hjá eftirlitsskyldum aðilum í því skyni að sannreyna veittar upplýsingar vegna eftirlits með fjármálastarfsemi og efni skýrslna, einkum að því er varðar útlánaáhættu, lausafjáráhættu og gjaldeyrisáhættu.
  7. Innstæðutryggingakerfið ber að endurskoða og bæta, í nánu samhengi við þróun mála á þessu sviði innan ESB.
  8. Virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi á sviði löggjafar og eftirlits með fjármálastarfsemi er mikilvæg, einkum innan EES og ESB.“

Ástæður hrunsins

Kaarlo Jännäri telur að hrun íslenska bankakerfisins megi rekja til fjölda þátta sem hægt væri að lýsa – eins og reyndar gert var í Noregi þegar bankakreppan þar í landi var metin – sem blöndu af lökum bankarkekstri, rangri stefnu og óheppni (e. bad banking, bad policies, bad luck). Frekari upplýsingar um þessa hlið mála er að finna í 10. kafla skýrslunnar.

Um Kaarlo Jännäri

Kaarlo Jännari er einn þekktasti bankamaður Finnlands.Hann hefur gríðarlega reynslu, var forstjóri Fjármálaeftirlitsins í 11 ár, einn af yfirmönnum finnska seðlabankans um tíma og hefur einnig reynslu af rekstri einkabanka eftir að hafa verið stjórnarformaður og framkvæmdastjóri SKOP-bankans 1991 – 1993, árin sem bankakreppan var hvað dýpst í Finnlandi.Hann hefur einnig mikla reynslu af alþjóðlegri bankastarfsemi og eftirliti með henni og hefur m.a. verið Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til ráðgjafar og sinnt nefndar og stjórnarstörfum fyrir OECD og Evrópska seðlabankann.

Skýrslan verður birt í íslenskri þýðingu á næstunni

Skýrslan í heild á ensku

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum