Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2009 Forsætisráðuneytið

Önnur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur 100 daga

Önnur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur nú starfað í 100 daga, en tilkynnt var um myndun hennar á blaðamannafundi í Norræna húsinu þann 10. maí. Ríkisstjórnin gaf strax út ítarlega samstarfsyfirlýsingu auk yfirlits yfir fyrirhugaðar aðgerðir fyrstu 100 dagana og var sú áætlun birt á upplýsingasíðu stjórnvalda www.island.is.

Á 100 daga áætluninni eru 48 mál og hafa 42 þegar verið afgreidd að mestu og flest þeirra sex sem útaf standa verða afgreidd innan tíðar.

Á þessum tíma hefur ríkisstjórnin afgreitt eftirfarandi mál:

Endurskipulagning á fjármálum ríkissjóðs

Í þessum málaflokki hefur ríkisstjórnin afgreitt endurskoðaðar forsendur fjárlaga 2010 og áætlun í ríkisfjármálum til 2013, gefið út skýrslu vegna áætlunar í ríkisfjármálum 2009 og lagt fram á Alþingi áætlun til millilangs tíma, sett á fót tekjustofnanefnd sem hefur það hlutverk að vinna tillögu um breikkun og styrkingu tekjustofna sveitarfélaga, hrundið af stað sparnaðarátaki í ríkiskerfinu með þátttöku starfsmanna, stjórnenda og notenda þjónustunnar, gripið til aðgerða til að lækka hæstu laun hjá ríkinu, stofnunum og félögum á þess vegum með það að leiðarljósi að enginn verði með hærri laun en forsætisráðherra, sett nýjar reglur um nefndarþóknanir, risnu og ferðakostnað og lagt fram á Alþingi frumvarp um aðgerðir gegn skattundanskotum.

Samningar við erlend ríki

Samið hefur verið um lán til styrkingar gjaldeyrisforðanum við Norðurlandaþjóðirnar og viðræður við Rússland og Pólland eru á lokastigi. Skrifað hefur verið undir Icesave – samninga við Breta og Hollendinga með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Umsókn um aðild að ESB

Utanríkisráðherra lagði fyrir Alþingi þingsályktunartillögu þess efnis að ríkisstjórn sé falið að sækja um aðild að ESB. Tillagan samþykkt og umsókn afhent formlega í Svíþjóð 23. júlí.

Endurskipulagning og endurreisn bankakerfisins

Í þessum mikilvæga málaflokki hefur ríkisstjórnin lagt fram frumvarp um Bankasýslu ríkisins þar sem hlutur ríkisins í fjármálafyrirtækjum verður vistaður, lagt fram frumvarp um eignaumsýslufélag á vegum ríkisins til að tryggja meðferð þjóðhagslega mikilvægra fyrirtækja, lagt fram frumvarp um sparisjóði, tekið ákvörðun um erlent eignarhald á bönkunum, afgreitt samkomulag við kröfuhafa tveggja banka af þremur og lokið við endurfjármögnun Íslandsbanka og Kaupþings. Ný yfirstjórn hefur verið ráðinn í Seðlabanka og Fjármálaeftirlit, auk þess sem breytingar hafa orðið á stjórnum og stjórnendum fjármálastofnana.

Endurskoðun úrræða til aðstoðar heimilum

Endurmat og breytingar á löggjöf og reglugerðum vegna úrræða fyrir skuldsett heimili hefur farið fram, opnuð hefur verið ný starfsstöð Ráðgjafastofu heimilanna og staðið fyrir átaki í kynningu og efldri þjónustu vegna greiðsluvandaúrræða fyrir heimili í skuldavanda. Ekki er lengur krafist ábyrgðarmanna vegna lána frá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Aðgerðir til atvinnusköpunar

Ríkisstjórnin hefur eflt möguleika Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar til að bregðast við atvinnuleysi, leyft handfæraveiðar smábáta yfir sumartímann, styrkt Nýsköpunarsjóð námsmanna til að fjölga megi sumarstörfum og atvinnutækifærum fyrir ungt fólk. Úthlutunarreglur úr Lánasjóði íslenskra námsmanna hafa verið endurskoðaðar til að auðvelda aðgang að námi á erfiðleikatímum og listamenn taka nú virkan þátt í móta nýja menningarstefnu sem styrkja mun grundvöll sköpunar þeirra.

Stöðugleikasáttmáli, stóraukið samráð, mótun sóknarstefnu

Ríkisstjórnin skrifaði undir stöðugleikasáttmála ásamt aðilum vinnumarkaðarins, hóf vinnu við gerð yfirlits um stöðu og þróun lykilstærða í samfélags- og efnahagsmálum þjóðarinnar og framtíðarvalkosti, setti á fót samráðsvettvang ríkisstjórnar, sveitarfélaga, landbúnaðarins og aðila vinnumarkaðarins og byrjaði að að móta atvinnustefnu í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og háskólasamfélagið. Vinna er hafin við mótun sóknaráætlana fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar og viðræður hafnar við lífeyrissjóði og innlenda fjárfesta um að að koma að eflingu atvinnulífs með hinu opinbera.

Lýðræðis- og stjórnkerfisumbætur

Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á umbætur í lýðræðisátt og nauðsynlegar breytingar á stjórnkerfinu. Hún hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um persónukjör, lagt fram frumvarp um ráðgefandi stjórnlagaþing sem kosið verði til samhliða sveitarstjórnarkosningum 2010 og lagt fram frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur. Hafin hefur verið endurskoðun á reglum um fjármál stjórnmálaflokka, endurskoðun á upplýsingalögum í því augnamiði að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum stjórnarráðsins og boðaðar viðamiklar tilfærslur verkefna innan Stjórnarráðsins. Þá hafa tillögur ráðgjafanefndar um endurskoðun almannatryggingakerfisins verið kynntar ríkisstjórn en áfram verður unnið með hagsmunaaðilum að nánari útfærslu.

Umhverfi og auðlindir

Endurskoðun er hafin á fiskveiðstjórnunarkerfinu og settur hefur verið á fót ráðgefandi hópur útgerðarmanna og sjómanna um veiðiráðgjöf og nýtingu sjávarauðlinda og ástand lífríkis sjávar. Jafnframt er unnið að náttúruverndaráætlun til ársins 2013 og skipaður hefur verið hópur sem endurskoða á orkustefnu þjóðarinnar með það fyrir augum að móta heildstæða orkustefnu. Stefnan á að miða að því að endurnýjanlegir orkgjafar leysi innflutta orku af hólmi.

Af 100 daga áætluninni hafa neðangreind mál ekki verið afgreidd:

  • Samþykkt stjórnar AGS á 2. endurskoðuna áætlunar stjórvalda og sjóðsins (fer fyrir stjórn sjóðsins á næstu vikum, Íslendingar hafa staðið við sinn hluta samkomulagsins en afgreiðsla strandar á Icesave-samningunum).
  • Dregið úr gjaldeyrishöftum (áætlun um afnám hafta í áföngum hefur verið afgreidd í ríkisstjórn).
  • Samningar til lausnar vegna eigenda krónubréfa (ákveðið að fara aðrar leiðir til samræmis við áætlun um afnám gjaldeyrishafta).
  • Endurfjármögnun og endurskipulagning sparisjóða (Vinnan í fullum gangi og mun ljúka á næstu vikum).
  • Frumvarp um bætt umhverfi sprota og nýsköpunarfyrirtækja lagt fram á Alþingi (Tvö samhliða frumvörp bíða haustþings, annars vegar sérlög um skattaívilnanir vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og aukins framlags til rannsókna og þróunar og hins vegar breytingar á tekjuskattslögum).
  • Stöður bankastjóra ríkisbankanna auglýstar lausar til umsóknar (aðeins verður um eina stöðu að ræða, ef að líkum lætur og hún auglýst um leið og endurfjármögnun Landsbanka er í höfn).


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum