Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2010 Forsætisráðuneytið

Sameining stofnana og endurskoðun á verkaskiptingu

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra lögðu til á ríkisstjórnarfundi föstudaginn 19. febrúar að haldið yrði áfram á þeirri braut sem mörkuð er í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um stjórnkerfisbreytingar. Fyrirliggjandi áform um sameiningar ráðuneyta og stofnana verði undirbúnar með hliðsjón af nokkrum megingildum og samræmdu verklagi . Verkefnisstjórn forsætis- og fjármálaráðuneytis um sameiningu ríkisstofnana verður falið að leiða til lykta og eftir atvikum koma til framkvæmda í samstarfi við viðkomandi ráðuneyti tillögum um sameiningu stofnana eða verkefna sem heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um umtalsverðar stjórnkerfisbreytingar og umbætur í því skyni að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni. Staða ríkisfjármálanna hefur áhrif á þessa vinnu og ýtir undir að ráðist verði í breytingarnar hratt og örugglega, þar sem til viðbótar við þann niðurskurð sem gert er ráð fyrir í fjárlögum 2010 er líklegt að heildarlækkun útgjalda vegna reksturs ríkisins á árinu 2011 verði einnig umtalsverð. Ljóst er að enn þarf að hagræða í rekstri á næsta ári og fyrirsjáanlega einnig á árinu 2012. Oft kemur fjárhagsleg hagræðing af kerfisbreytingum eins og sameiningum stofnana ekki fram fyrr en eftir nokkur tíma og því mikilvægt að horfa nokkur ár fram í tímann við undirbúning og framkvæmd slíkra breytinga. Hafa þarf í huga að ef fyrirhugaðar breytingar ráðuneyta á stofnanakerfi eiga að skila fjárhagslegum ávinningi árið 2011 þarf að hefjast handa við framkvæmd þeirra sem allra fyrst og undirbúa lagabreytingar þar sem þær eru nauðsynlegar.

Mikilvægt er að huga að forgangsröðun verkefna þannig að tryggja megi öfluga opinbera þjónustu til framtíðar. Í þessu samhengi er brýnt að hafa í huga að flatur niðurskurður dregur úr þjónustu til lengri tíma.

Staðan í dag

Í greinargerð með tillögu forsætis og fjármálaráðherra kemur fram að sé horft til þess að ríkisstofnanir eru í dag um 200 talsins og margar þeirra sinna svipuðum verkefnum sé ljóst að ná megi fram verulegri langtíma hagræðingu í rekstri með því að sameina stofnanir og endurskoða verkaskiptingu á milli þeirra. Það er þó ekki sama hvernig það er gert og mikilvægt að vandað sé til verka. Ráðuneytin hafa nú öll farið í gegnum ítarlegar greiningar á þeim verkefnum sem þau sinna. Sum ráðuneyti hafa þegar stigið mikilvæg skref á þessar vegferð og fengið samþykkt á Alþingi frumvörp sem gera sameiningar og endurskipulagningu stofnana og fyrirtækja mögulegar, s.s. fjármálaráðuneytið og samgönguráðuneytið. Önnur ráðuneyti eru að vinna að nánari útfærslu tillagana sinna í samráði við stofnanir og fleiri aðila, s.s. dómsmála- og mannréttindaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og umhverfisráðuneytið.

Allar forsendur eru því fyrir að hafist sé handa við að hrinda endurskipulagningaráformum í framkvæmd og horfa til uppbyggingar opinberrar þjónustu til framtíðar en samræma þarf slíka vinnu þörf á að tryggja að útgjaldamarkmiðum ríkisstjórnarinnar verði náð.

Reykjavík 23. febrúar 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum