Hoppa yfir valmynd
29. október 2010 Forsætisráðuneytið

Allir kallaðir að borðinu

Á ríkisstjórnarfundi í morgun var samþykkt tillaga forsætisráðherra um samstarfsáætlun í atvinnu- og vinnumarkaðsmálum með aðkomu allra stjórnmálaflokka.

Tilgangur með áætluninni er að auka samráð og samvinnu allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi og hagsmunaðila og tryggja með því að náð verði sameiginlegum markmiðum um öflugt atvinnulíf og samfélag um allt land og að skapa 3 – 5% hagvöxt hér á landi árið 2011 og a.m.k. 3– 5.000 ný störf.

Gert er ráð fyrir því að settur verði á laggirnar samtarfsvettvangur stjórnmálaflokka, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB, Kennarasambands Íslands, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og Bændasamtaka Íslands.  Samráð verði jafnframt haft við nefndir Alþingis sem fjalla um atvinnumál eftir því sem tilefni er til.

Samstarfsvettvangurinn mun vinna að framgangi afmarkaðra verkefna á sviði atvinnuþróunar, atvinnuuppbyggingar og vinnumarkaðsmála.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum