Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2012 Forsætisráðuneytið

Ísland 2020 – skýrsla um framvinduna

Ísland 2020 – sókn fyrir atvinnulíf og samfélag
Ísland 2020 – sókn fyrir atvinnulíf og samfélag

Eins og mælt var fyrir í samþykkt ríkisstjórnarinnar um Ísland 2020 hefur forsætisráðuneytið unnið stöðuskýrslu um hvernig miðar í átt að þeirri framtíðarsýn sem þar var sett fram.

Ísland færist á mörgum sviðum nær bættu samfélagi og atvinnulífi sem stefnt er að til ársins 2020.

Haustið 2011 var mælanlegum markmiðum stefnunnar komið á myndrænt form og er unnt að skoða framvindu einstakra málaflokka á vef forsætisráðuneytisins.

Einna greiðast hefur gengið að ná markmiðum um aukinn jöfnuð á Íslandi samkvæmt áætluninni og má nú heita að upprunalegu markmiði um jöfnuð árið 2020 verði náð innan tíðar.

Umrædd markmið eru á ábyrgð samráðshóps allra ráðuneytanna, en umsjón með framkvæmd stefnunnar er í höndum forsætisráðuneytisins. Þau snerta æði mismunandi þætti samfélagsins og atvinnulífsins. Nefna má atvinnustig, jöfnuð, jafnrétti, vellíðan samkvæmt viðurkenndum samanburðarmælingum, menntunarstig, framlag til vísinda, verðbólgu, umhverfismál, skuldir og vexti.

Í nýrri stöðuskýrslu Íslands 2020 er að finna yfirlit yfir framvindu 30 verkefna sem eru á ábyrgð mismunandi ráðuneyta, eins eða fleiri, en ábyrgð margra ráðuneyta í senn vísar til þeirrar viðleitni að samhæfa starfsemi Stjórnarráðsins í meira mæli en áður.  

Flest verkefnin eru vel á veg komin. Einna lengst er verkefnið Sóknaráætlun landshluta komið, en það felst meðal annars í uppstokkun og aukinni skilvirkni í samskiptum Stjórnarráðsins alls og átta landshlutasamtaka sveitarfélaganna.

Þá má nefna verkefnið Miðstöð norðurslóðamála sem er á ábyrgðarsviði utanríkisráðuneytisins, umhverfisráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Verkefnið felst meðal annars í því að auka samvinnu og samhæfa starfsemi og tengsl stofnana og annarra aðila sem fjalla um málefni norðurslóða. Þessi málaflokkur var enn á ný í sviðsljósinu í tengslum við opinbera heimsókn forsætisráðherra Kína til landsins á dögunum.

Eitt verkefnanna fjallar um stefnu varðandi erlenda fjárfestingu. Á síðastliðnu ári var undirbúin þingsályktunartillaga um þetta efni af iðnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra í sameiningu. Verkefnið felst í því að stuðla að fjölbreyttri erlendri fjárfestingu en um hana þarf að móta skýra stefnu, m.a. finna leiðir til að laða að þolinmótt fjármagn til áhættufjárfestinga á sviði þekkingar- og nýsköpunar.

Í meðfylgjandi Stöðuskýrslu Íslands 2020 er greint frá því hvar hvert þessara 30 verkefna er á vegi statt og fjallað stuttlega um mælikvarðana 20 og vísana um framvinduna sem  finna má á vef forsætisráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum