Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2013 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherrar Kína og Íslands gefa út sameiginlega yfirlýsingu

Forsætisráðherrahjónin í skoðunarferð  í Forboðnu borginni, í fylgd kínverska sendiherrans á Íslandi og eiginkonu hans, auk fylgdarliðs
Forsætisráðherrahjónin í skoðunarferð í Forboðnu borginni, í fylgd kínverska sendiherrans á Íslandi og eiginkonu hans, auk fylgdarliðs

Opinber dagskrá heimsóknar Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í boði Li Keqiangs, forsætisráðherra Kína, hófst í dag.

Móttökuathöfn fór fram á Torgi hins himneska friðar, þar sem forsætisráðherrarnir könnuðu heiðursvörð og spilaðir voru þjóðsöngvar ríkjanna.

Forsætisráðherrarnir funduðu síðan í Alþýðuhöllinni, ásamt sendinefndum sínum. Auk forsætisráðherra tóku utanríkisráðherra og embættismenn þátt í fundinum. Með kínverska forsætisráðherranum voru m.a. á fundinum utanríkisviðskiptaráðherra, aðrir ráðherrar og embættismenn.

Forsætisráðherrarnir ræddu tvíhliða samskipti ríkjanna, efnahagsleg og viðskiptaleg mál og þá sérstaklega með hliðsjón af tækifærum í fríverslun ríkjanna. Forsætisráðherrarnir ræddu mannréttindamál og alþjóðlegar skuldbindingar, svo og jafnréttismál sérstaklega og vinnumálefni, en aukið samstarf er m.a. áætlað á þeim sviðum.

Norðurslóðir og samstarf um rannsóknir á norðurslóðum voru einnig til umræðu á fundinum.

Forsætisráðherrarnir gáfu eftir fundinn út sameiginlega yfirlýsingu, þar sem lögð er áhersla á þau svið þar sem samstarf er nú þegar fyrir hendi á á grundvelli ýmissa samninga, auk þess sem gerð er grein fyrir áhuga á samstarfi á fleiri sviðum.

Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að forsætisráðherrarnir vilja, eins og orðrétt segir: „framfylgja þeim hugsjónum sem Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna og viðeigandi alþjóðlegir mannréttindasáttmálar, sem þeir hafa gerst aðilar að, fela í sér og munu áfram efla og vernda mannréttindi með virkum hætti.“

Að loknum fundi forsætisráðherranna fór fram undirritunarathöfn. Fyrst undirrituðu Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, utanríkisviðskiptaráðherra Kína, fríverslunarsamning ríkjanna tveggja.

Því næst voru undirritaðir fimm samningar íslenskra fyrirtækja við kínversk fyrirtæki og stofnanir.  Íslensku fyrirtækin sem undirrituðu samninga voru Arion banki, Marorka, Orka Energy, Promens og Össur.

  • Móttökuathöfn á Torgi hins himneska friðar
    Móttökuathöfn á Torgi hins himneska friðar
    Li Keqiang,forsætisráðherra Kína og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands

Jóhanna Sigurðardóttir er ánægð með árangur viðræðnanna og undirritun fríverslunarasamningsins. „Þetta er mjög þýðingarmikill áfangi í bættum og nánari samskiptum ríkjanna tveggja. Það er augljóst að fríverslunarsamningurinn færir íslenskum fyrirtækjum aukin tækifæri enda eru hér með í för hátt á fjórða tug fulltrúa íslenskra fyrirtækja og nokkur þessara fyrirtækja eru hér meðal annars í þeim erindagjörðum að undirrita samninga við kínversk fyrirtæki og stofnanir. Þetta er líka ánægjulegt framhald heimsóknar forsætisráðherra Kína til Íslands fyrir tæpu ári þegar undirritaður var meðal annars rammasamningur ríkisstjórna Íslands og Kína um norðurslóðasamstarf. Við gefum nú fyrirheit um aukið samstarf þjóðanna á ýmsum sviðum,“ sagði Jóhanna eftir viðræðurnar við Li Keqiang, forsætisráðherra Kína.

Að loknum fundi og undirritunarathöfn bauð Li Keqiang til kvöldverðar til heiðurs forsætisráðherrahjónum, Jóhönnu Sigurðardóttur og Jónínu Leósdóttur. Auk opinberrar sendinefndar var fulltrúum frá öllum íslensku fyrirtækjunum, sem þátt taka í heimsókninni, boðið til kvöldverðarins.

Í gær og í dag, áður en opinber móttökuathöfn hófst, hafa forsætisráðherrahjónin farið í skoðunarferðir í fylgd kínverska sendiherrans á Íslandi og eiginkonu hans, auk fylgdarliðs. Farið var að Kínamúrnum,  í Forboðnu borgina og Himnahofið heimsótt. Jafnframt fór forsætisráðherrafrú til fundar við kínverska nemendur, sem stunda nú íslenskunám í Peking.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum