Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2014 Forsætisráðuneytið

Starfsfólk forsætisráðuneytisins og forsætisráðherra taka þátt í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins  

Lífshlaupið - Heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands
Lífshlaupið - Heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands

Starfsfólk forsætisráðuneytisins og forsætisráðherra hafa ákveðið að taka þátt í Lífshlaupinu sem haldið er á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og fleiri aðila, m.a. með aðkomu velferðarráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Landlæknisembættisins.

Forsætisráðuneytið mun því koma fram sem eitt lið í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins, sem er heilsu- og hvatningarverkefni sem ætlað er að höfða til allra aldurshópa. Með átakinu eru landsmenn hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, vinnu, skóla og við val á ferðamáta. 

Í ráðleggingum Landlæknisembættisins um hreyfingu er börnum og unglingum ráðlagt að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur á dag.

Fleiri ráðuneyti hafa skráð sig til leiks í vinnustaðakeppnina en hún stendur í þrjár vikur til 25. febrúar nk. og gengur út á að hver starfsmaður hreyfi sig í að minnsta kosti 30 mínútur á dag og skrái hreyfinguna inn á vefinn www.lifshlaupid.is

Forsætisráðherra og starfsfólk forsætisráðuneytisins skora á vinnustaði landsins að taka þátt í skemmtilegri keppni og vona að sem flestir noti tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum