Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2014 Forsætisráðuneytið

Fundur með forsætisráðherra Hollands

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra átti nú síðdegis fund með Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands í Rotterdam. Á fundinum voru tvíhliða samskipti landanna rædd, þ.m.t. eftirmálar Icesave deilunnar og endurgreiðslur úr þrotabúi gamla Landsbankans. Einnig ræddu ráðherrarnir um öryggismál í Evrópu, einkum stöðu mála í Úkraínu. Þá upplýsti forsætisráðherra hollenska starfsbróður sinn um stöðu efnahagsmála á Íslandi og afstöðu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum. 

Fyrr í dag, til hliðar við alþjóðaþing frjálslyndra flokka sem haldið er í Rotterdam, tók forsætisráðherra þátt í umræðu um fríverslun ásamt Karel De Gucht, framkvæmdastjóra verslunar og viðskipta hjá Evrópusambandinu, og fleirum. Í máli sínu fór forsætisráðherra meðal annars yfir gildi fríverslunarsamninga fyrir Ísland og samstarfið við Evrópusambandið á grundvelli EES samningsins.

Á morgun mun forsætisráðherra meðal annars eiga fundi með forseta sjálfstjórnarhéraðsins Katalóníu á Spáni og þingmönnum frá Georgíu og Moldavíu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum