Hoppa yfir valmynd
23. maí 2014 Forsætisráðuneytið

Heimilin í forgang - Vinnu við þingsályktun um skuldavanda heimilanna lokið

Í lok júní 2013 samþykkti Alþingi þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Nú tæpu ári síðar er búið að samþykkja lög eða koma málum í farveg í tengslum við öll verkefni þingsályktunarinnar.  

Alþingi hefur sett eftirfarandi sex lög í tengslum við þingsályktunina:

  1. Leiðrétting verðtryggðra fasteignalána
  2. Séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar
  3. Fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta
  4. Flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna
  5. Stimpilgjöld
  6. Upplýsingar til Hagstofunnar frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila

Nú þegar er unnt að sækja um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána og hafa á fjórða tug þúsunda nýtt sér það á fyrstu dögum umsóknarferlisins. Með aðgerðinni er verið að leiðrétta forsendubrest 70 þúsund heimila með verðtryggðar skuldir. Með lögum um séreignarsparnað er unnt að nýta séreignarsparnað skattfrjálst í því skyni að lækka höfuðstól húsnæðislána. 

Afnám verðtryggingar og framtíðarskipan húsnæðismála eru tvö umfangsmikil verkefni sem tengjast sterkum böndum. Stefnumótun liggur fyrir og verður áfram unnið að því að koma þeirri stefnumótun í framkvæmd. Þannig hefur ríkisstjórnin samþykkt áætlun um vinnu við afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum. Þá hefur félags- og húsnæðismálaráðherra kynnt ítarlegar tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála. 

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru heimilin í forgrunni. Það hafa þau svo sannarlega verið á fyrsta starfsári ríkisstjórnarinnar og verða það áfram á næstu árum. Ríkisstjórnin setur fólkið í forgang því heimilin eru undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins. 

Staða aðgerða í þingsályktun um skuldavanda heimila

1 Settur verði á fót sérfræðingahópur er útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Lokið Lög um leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána og lög um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar samþykkt á Alþingi í maí 2014.
2 Gerð verði úttekt á kostum og göllum þess að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð vegna húsnæðislána Lokið Útfærsla á skuldaleiðréttingunni krafðist ekki stofnunar leiðréttingarsjóðs.
3 Kannað verði hvernig gera megi yfirskuldsettum íbúðareigendum kleift að losna undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir án gjaldþrots. Um verði að ræða tímabundna aðgerð v/afleiðinga efnahagshrunsins. Lokið Félags- og húsnæðismálaráðherra og innanríkisráðherra hafa lagt fram tillögur í ríkisstjórn og eru frumvörp væntanleg í haust.
4 Skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Lokið Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur gert opinberar tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála.
5 Lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu. Lokið Lög um flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna samþykkt í júní 2013.
6 Settur verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Lokið Sérfræðingahópur skilaði tillögum sínum í janúar 2014. Ríkisstjórnin samþykkti tilhögun vinnu við afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum í maí 2014.
7 Kannað verði hvernig eignalausum einstaklingum verði gert kleift að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi sínu. Lokið Lög um veitingu fjárhagsaðstoðar til greiðslu tryggingar fyrir kostnað vegna gjaldþrotaskipta samþykkt í janúar 2014.
8 Sérfræðingahópur meti möguleika á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna umtalsverðra tafa á endurútreikningi lána. Lokið Niðurstaða sérfræðingahóps var að gjaldtakan væri ekki framkvæmanleg að teknu tilliti til ákvæða stjórnarskrár.
9 Stimpilgjöld af lánsskjölum verði endurskoðuð og stefnt að afnámi stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á húsnæði til eigin nota. Lokið Ný heildarlög um stimpilgjöld tóku gildi 1. janúar 2014.
10 Hagstofa Íslands fái skýrar heimildir til að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja. Lokið Lög samþykkt á Alþingi í september 2013.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum