Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2014 Forsætisráðuneytið

Málefni dómstóla, lögreglu og ákæruvalds færð undan verksviði innanríkisráðherra

Á fundi sínum í dag ákvað ríkisstjórn Íslands að tillögu innanríkisráðherra að færa málefni dómstóla lögreglu og ákæruvalds undan ábyrgðarsviði hennar sem innanríkisráðherra. Sett verður á fót nýtt embætti dómmálaráðherra í innanríkisráðuneytinu, og mun forsætisráðherra gegna því embætti samhliða störfum sínum sem forsætisráðherra, þar til annað verður ákveðið.

Nánar tiltekið munu eftirfarandi stjórnarmálefni, sbr. neðangreinda liði forsetaúrskurðar, nr. 71/2013, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, færast undir embætti dómsmálaráðherra:

·              2. og 3. tölul. 4. gr.:

2. Ákæruvald, þar á meðal:

a. Embætti ríkissaksóknara.

b. Embætti sérstaks saksóknara.

3. Dómstóla, aðra en félagsdóm, þar á meðal:

a. Dómstólaráð.

b. Dómnefnd um hæfi umsækjenda um dómarastörf.

c. Nefnd um dómarastörf.

·              a. – c. liður 4. tölul. 4. gr.:

4. Réttarfar, þar á meðal:

a. Meðferð einkamála.

b. Meðferð sakamála.

c. Endurupptökunefnd.

·              8. tölul. 4. gr.:

Lögmenn, dómtúlka og skjalaþýðendur, þ.m.t. málefni úrskurðarnefndar lögmanna.

·              12. tölul. 4. gr.:

Almannavarnir

·              14. tölul. 4. gr.:

Lögreglu og löggæslu, þar á meðal:

a. Landamæravörslu.

c. Framsal/afhendingu sakamanna.

d. Schengen.

e. Peningaþvætti.

f. Erfðaefnaskrá lögreglu.

g. Öryggisþjónustu í atvinnuskyni.

h. Lögregluskóla ríkisins.

i. Embætti ríkislögreglustjóra.

j. Lögreglustjóraembætti.

Vegna lögbundins hlutverks lögreglustjóraembætta við meðferð ákæruvalds og saksókn er talið rétt að ákæruvald og lögregla heyri undir einn og sama ráðherrann. Þannig gerir tillagan ráð fyrir að auk ríkissaksóknara og sérstaks saksóknara muni lögreglustjóraembættin og ríkislögreglustjóri heyra undir hið nýja ráðherraembætti.

Það leiðir jafnframt af framangreindum breytingum, sbr. lykilhlutverk embættis ríkislögreglustjóra á því sviði, að stjórnarmálefnið almannavarnir, sbr. lög um almannavarnir, mun heyra undir hið nýja embætti.

                                                Reykjavík 26. ágúst 2014

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum