Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2014 Forsætisráðuneytið

Northern Future Forum haldið á Íslandi árið 2015

Northern Future Forum í Helsinki
Northern Future Forum í Helsinki

Northern Future Forum fundi forsætisráðherra Bretlands, Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna lauk í Helsinki í dag. Að þessu sinni var sjónum einkum beint að nýsköpun og samkeppnishæfni í menntamálum. Í sendinefnd forsætisráðherra Íslands voru fulltrúar frá Háskóla Íslands, Gagarín, Start-up Energy Reykjavík og Kerecis.

Auk funda ráðherranna sótti hver og einn ráðherra fjölbreyttar vinnustofur og fyrirlestra og tók þátt í umræðum.

„Þetta var mjög áhugavert og þá sérstaklega að fá tækifæri til að hlusta á frábæra fyrirlestra en meðal fyrirlesara voru fulltrúar okkar frá Íslandi sem vöktu verðskuldaða athygli fyrir áhugaverð erindi og innlegg. Það er mikilvægt fyrir okkur stjórnmálamenn að heyra sjónarmið fólks úr mismunandi geirum og þá ekki síst sýn þeirra á framtíðina. Tækifærin fyrir okkur Íslendinga eru ótal mörg og við eigum frábært fólk á sviði nýsköpunar og menntunar sem ég er sannfærður um að eigi enn eftir að koma okkur á óvart og skapa ný störf á Íslandi. Það er mikilvægt að stjórnvöld styðji þennan geira, meðal annars með einföldun regluverks og auknum fjármunum til nýsköpunar eins og ríkisstjórnin hefur verið að gera. Northern Future Forum er einkar áhugaverður vettvangur til skoðanaskipta og á fundinum tilkynnti ég að Ísland hyggðist halda næstu ráðstefnu árið 2015,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,  forsætisráðherra. 

Þetta er í fjórða skipti á jafnmörgum árum sem boðað er til funda undir merkjum Northern Future Forum, en forsætisráðherrar Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Bretlands koma þar saman til skoðanaskipta og hafa sér til fulltingis fulltrúa úr atvinnulífi og háskólasamfélagi frá löndunum níu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum