Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2015 Forsætisráðuneytið

Þurfum sameiginlega að viðhalda stöðugleikanum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpaði hádegisverðarfund Félaga viðskipta- og hagfræðinga í dag. Tilefni fundarins var 25 ára afmæli Þjóðarsáttarsamninganna svokölluðu. 

Í ávarpi sínu benti forsætisráðherra á að aðstæður væru vissulega aðrar í dag en þær voru fyrir aldarfjórðungi og sagði: „Jafnvægi í hagkerfinu er meira og stoðir þjóðarbúskaparins fleiri. Íslenska hagkerfið er um það bil tvöfalt stærra nú en það var fyrir aldarfjórðungi.  Þrátt fyrir þetta eru augljósar hættur framundan svo sem sjá má á þeim launakröfum sem stéttarfélög eru að setja fram þessa dagana í aðdraganda kjarasamninga.“

Forsætisráðherra benti á að þegar litið er til launaþróunar á síðustu árum sjáist að þokkalegt jafnvægi er á milli einstakra hópa á vinnumarkaði og ekki innistæða fyrir þeim kjarnyrtu yfirlýsingum sem settar hafa verið fram að undanförnu.

Forsætisráðherra benti á að kaupmáttur launa hefði aukist um 5,5% síðastliðna tólf mánuði og sagði: „Þetta er gríðarlegur árangur. Launahækkun um 6,3% nýtist næstum að öllu leyti í kaupmátt þegar verðbólgan er undir einu prósenti. Stóran þátt í þessum árangri eiga stöðugleikasamningar sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu á síðasta ári.  Þetta hefur leitt til þess að kaupmáttur launa hefur aldrei verið hærri en nú.“

Í lok máls síns lagði forsætisráðherra áherslu á að dyr ríkisstjórnarinnar stæðu opnar og sagði: „Ég vil því nota tækifærið og hvetja aðila vinnumarkaðarins til að taka þátt í virku samtali við ríkisstjórnina þar sem færi gefst til að skiptast á skoðunum, leggja línur og veita upplýsingar. Við þurfum sameiginlega að viðhalda stöðugleikanum því hann er vísasti vegurinn til að auka kaupmátt.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum