Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2015 Forsætisráðuneytið

Breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands samþykktar

Alþingi hefur samþykkt frumvarp forsætisráðherra um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Með breytingum gefst færi á að ráðast í úrbætur á skipulagi og starfi Stjórnarráðsins ásamt því að bæta skráningu upplýsinga og upplýsingagjöf og auka samráð og samhæfingu. Skapað er  svigrúm fyrir ráðuneyti og stofnanir til að aðlagast þörfum sem uppi eru á hverjum tíma og til að hagræða í rekstri sínum þannig að þeim verði betur kleift að bregðast við úrlausnarefnum framtíðarinnar.

Meginmarkmið breytinganna er að auka sveigjanleika framkvæmdarvaldsins til að skipuleggja störf sín á sem faglegastan og hagkvæmasta hátt. Jafnframt eru gerðar nokkrar lagfæringar á lögunum sem fram höfðu komið frá því að ný heildarlög um Stjórnarráð Íslands tóku gildi í september árið 2011.

Meðal helstu atriða í þeim breytingum sem samþykktar hafa verið er aukinn sveigjanleiki við skipulagningu ráðuneyta, möguleikar á auknum hreyfanleika starfsmanna innan stjórnsýslu ríkisins auk þess sem heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana sem undir hann heyra er endurvakin. Þá er samráði og samhæfingu á sviði efnahagsmála innan Stjórnarráðs Íslands skapaður traustari grundvöllur með lögfestingu ráðherranefnda um ríkisfjármál og efnahagsmál.

Sjá nánar um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands á vef Alþingis.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum