Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2015 Forsætisráðuneytið

Ný lög um verndarsvæði í byggð

Alþingi hefur í dag samþykkt frumvarp forsætisráðherra um verndarsvæði í byggð. Með lögunum er í fyrsta sinn á Íslandi mælt með skýrum og heildstæðum hætti fyrir um í lögum um heimild til að vernda byggðarheildir og þannig lagður grundvöllur að því að menningarsögulegt og listrænt gildi einstakra bæjarhluta sé verndað um ókomin ár. Með lögunum er slíkri vernd gert hærra undir höfði en svo að vera hluti af almennri skipulagsvinnu sveitarfélaga eins og verið hefur. Skapar það grundvöll til að gildi slíkrar verndar verði meiri en ella.

Víða í nágrannalöndum Íslands er í borgum og bæjum að finna minjasvæði og hverfi sem hafa stöðu sem söguleg verndarsvæði (conservation area/historic district). Tilgangur slíkar verndar er að leggja áherslu á gildi menningarsögulegs umhverfis fyrir einstaklinga og samfélög ásamt því að tryggja að slík svæði hljóti þá umhirðu og umhyggju sem þarf til að gildi þeirra verði viðhaldið. Ljóst er að slík verndarsvæði hafa víða átt þátt í að styrkja borgir og bæi bæði efnahagslega og félagslega.

Í nágrannalöndum Íslands sýnir reynslan að slík verndarsvæði hafa mikið aðdráttarafl fyrir bæði heimamenn og gesti þeirra. Með hliðsjón af mikilvægi stefnumörkunar á sviði ferðaþjónustu skapast með uppbyggingu verndarsvæða tækifæri til að leggja aukna áherslu á áhugaverða áfangastaði í þéttbýli og þar með dreifa því álagi sem aukinn ferðamannastraumur hefur á helstu náttúruperlur landsins.

Sjá frumvarp um verndarsvæði í byggð og feril málsins á vef Alþingis

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum