Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2015 Forsætisráðuneytið

Heildarfriðlýsing Hvanneyrar

  • Markar tímamót í sögu hús- og minjaverndar á Íslandi
  • Í fyrsta skipti heildarfriðlýsing ákveðinnar byggðar
  • Friðlýsingin nær til níu bygginga og margvíslegra minja um landbúnaðarkennslu

Forsætisráðherra undirritaði í dag skjal til vitnis um heildarfriðlýsingu Hvanneyrar í Borgarbyggð og markar friðlýsingin tímamót í sögu hús- og minjaverndar á Íslandi. Er þetta í fyrsta skipti hér á landi sem heildarfriðlýsing ákveðinnar byggðar með byggingum, minjum og mannvistarleifum innan afmarkaðs svæðis á sér stað. Friðlýsinguna kynnti ráðherra á menningarhátíð Hvanneyrar sem haldin var í dag, laugardag.

Frumkvæði að friðlýsingunni kemur frá heimamönnum, sem í júní í fyrra sendu Minjastofnun Íslands ósk um að hún hefðist handa við undirbúning tillögu til forsætisráðherra um friðlýsingu Hvanneyrar. Friðlýsingin nær til níu bygginga og margvíslegra minja um landbúnaðarkennsluna allt frá því skömmu fyrir aldamótin 1900 innan afmarkaðs svæðis sem er 105 hektarar að stærð. Byggingarnar eru flestar teiknaðar af fyrstu menntuðu húsasmíðameisturunum hér á landi og mynda samstæða heild sem fellur mjög vel að umhverfi sínu, en sú elsta var byggð árið 1900.

Bændaskóli var stofnaður á Hvanneyri 1889 og var skólahúsnæði reist það sama ár, en það varð síðar eldi að bráð. Skólahús, kallaður gamli skólinn, var reist árið 1910 og bættust byggingar á Hvanneyrartorfuna sem falla undir friðlýsinguna allt til ársins 1948, þar á meðal Hjartarfjós, sem talið er byggt á árunum 1900 -1901 og Hvanneyrarkirkja sem reis á árinu 1905.

Í rökstuðningi með friðlýsingunni kemur fram:
Gamla bæjartorfan á Hvanneyri felur í sér merkilegt búsetulandslag með mikið menningarsögulegt gildi. Hún býr yfir sérstökum umhverfisgæðum sem óvíða eru til staðar í dreifbýli hér á landi, en þau felast m.a. í samspili búsetuminja og merkra bygginga við ákveðna landslagsheild. Þessi gæði eru bundin staðsetningu húsanna í umhverfinu, innbyrðis afstöðu þeirra og rýmum sem þau mynda sín á milli, auk byggingarlistar þeirra. Af níu einstökum byggingum sem friðlýsingartillagan nær til eru fimm ýmist þegar friðaðar á grundvelli aldurs eða friðlýstar. Skólastjórahúsið og Halldórsfjós eru teiknaðar af Guðjóni Samúelssyni fyrrum húsameistara ríkisins, Hvanneyrarkirkja og skólahús Bændaskólans af Rögnvaldi Ólafssyni og Leikfimihúsið af Einari Erlendssyni.

Þá kemur fram í rökstuðningi að byggingaheildin, sem og hver bygging fyrir sig, sé einstæð í byggingarlist 20. aldar hér á landi. Margvíslegar búsetu- og jarðræktarminjar eru innan þess svæðis sem friðlýsingartillagan nær til, minjar sem eru hluti af búnaðarkennslu á Hvanneyri og tengjast þeirri þróun búnaðarverkþátta sem Landbúnaðarsafn Íslands sýnir. Þá voru aðstæður í umhverfinu, landhagir og -gæði forsendur þess að búnaðarskóla Suðuramtsins var valinn staður á Hvanneyri fyrir 125 árum. Síðar voru reistir flóðgarðar, gerðar áveitur, heimtraðir og lendingaraðstaða fyrir báta við Hvítá og með öðrum hætti búið í haginn fyrir þann mikla landbúnað og landbúnaðarkennslu sem fram fór á Hvanneyri.

Við afmörkun svæðisins var þess gætt að ofangreind húsaþyrping, minjar og landslagsheildir lendi innan hins friðlýsta svæðis. Mun 22. gr. laga um menningarminjar, sem kveður á um 100 metra friðhelgun svæðis út frá ystu sýnilegu mörkum friðlýstra fornleifa, því ekki eiga við í þessu tilviki.

Friðlýsingin hefur því ekki áhrif á aðliggjandi einkalóðir. Í aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 er hluti áformaðs friðlýsingarsvæðis þegar afmarkaður sem hverfisverndarsvæði. Að auki voru Hvanneyri og nágrannajarðirnar í Andakíl friðaðar á grundvelli náttúruverndarlaga árið 2011 sem hluti af alþjóðlegu Ramsar-votlendissvæði. Ríkissjóður Íslands er eigandi allra mannvirkja og lands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum