Hoppa yfir valmynd
31. desember 2005 Forsætisráðuneytið

Áramótagrein í Morgunblaðið 2005

Eftir Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins.

I
Góðir Íslendingar.
Við áramót lítum við yfir farinn veg og hvert og eitt okkar vegur og metur hvernig árið 2005 hefur verið fyrir okkur og okkar nánustu. Fyrir suma hefur þetta verið ár vaxtar og gæfu, framfara, velmegunar og góðra minninga. Fyrir aðra ár sársauka og trega. Á árinu vorum við óvenju oft minnt á hin óblíðu náttúruöfl. Fyrir ári síðan var það hin mikla flóðbylgja sem grandaði lífi þúsunda og skildi eftir sig eyðileggingu og auðn í Asíu. Heimilislausir voru ekki færri eftir að jarðskjálftar riðu yfir í október og tugir þúsunda féllu í Pakistan. Enn er ástandið þar slæmt og kaldur vetur og harðindi bæta ekki úr skák. Við Íslendingar höfum vissulega lagt okkar af mörkum með framlögum til alþjóðlegra hjálparstofnana og annarri aðstoð en betur má ef duga skal.

Þá vorum við óþyrmilega minnt á að okkur öllum stafar ógn af níðingsverkum hryðjuverkamanna þegar tugir óbreyttra borgara féllu í sjálfsmorðsárásum í Lundúnum 7. júlí sl. Hryðjuverkamenn eira engu og kæra sig kollótta um saklaus fórnarlömbin. Baráttan gegn þessari vá hefur sameinað ríki heims en mikilvægt er að í þeirri baráttu verði hvergi vikið frá þeim grundvallarreglum um frelsi og mannréttindi sem lýðræðisþjóðfélög okkar byggja á. Meint fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar um lofthelgi og flugvelli Íslands var til umræðu eins og í flestum grannríkjum okkar. Fjarstæða er að láta í það skína að íslensk stjórnvöld líti málið ekki nógu alvarlegum augum þegar grunur leikur á að gróf mannréttindabrot hafi verið framin. Evrópuráðið vinnur nú að könnun á málinu fyrir hönd aðildarríkjanna 46 og taka íslensk stjórnvöld þátt í henni eins og stjórnvöld annarra ríkja álfunnar.

II
Efnahagslíf hér á landi stendur í miklum blóma. Hagvöxtur er hér meiri en í flestum nágrannaríkjum og staðan á vinnumarkaði einkennist frekar af skorti á vinnuafli en atvinnuleysi, öfugt við það sem er í flestum öðrum löndum. Þetta gildir ekki einungis um árið í ár heldur hefur þróunin undanfarinn áratug einkennst af stöðugt batnandi kjörum heimilanna í landinu þar sem hvert kaupmáttarmetið af öðru hefur verið slegið. Nýsköpun er sem fyrr mikilvægur þáttur atvinnulífsins og sú framtíðarsýn sem þar birtist skiptir miklu. En nýsköpun snýst ekki alltaf bara um framleiðslu hluta, heldur getur mannlegi þátturinn þar verið höfuðatriði. Þannig tók ég sérstaklega eftir verkefninu “Hugur og heilsa” sem vann fyrstu verðlaun í samkeppni á vegum Háskóla Íslands nýverið. Tilgangur þess er að þróa heildrænt kerfi sem auðveldar starfsfólki í heilbrigðis-, félags og skólageiranum að veita ungu fólki aðstoð til að koma í veg fyrir þunglyndi. Þetta er gott dæmi um nýsköpun sem bætir ekki aðeins mannlífið, heldur ennfremur atvinnulífið.

Mér finnst ástæða til að nefna sérstaklega mikilvægi þess að samkomulag tókst í þríhliða viðræðum milli ríkisstjórnarinnar, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga. Þetta samkomulag er afar mikilvægt fyrir efnahagslegan stöðugleika hér á landi. Allt síðasta ár hefur hugsanleg uppsögn kjarasamninga hangið yfir efnahagslegri umræðu. Það hefur skapað óvissu og óróa sem hefur haft óæskileg áhrif, ekki bara í stöðunni í dag heldur ekki síður á framtíðarhorfur. Með þessu samkomulagi milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins er óvissu í efnahagsmálum á næstu misserum eytt, sérstaklega hvað varðar þróun verðbólgu og kaupmátt heimilanna. Því ber að fagna.

III
Á þessu ári lauk farsællega stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar þegar íslenska ríkið seldi eftirstandandi hlut sinn í Landssíma Íslands hf. fyrir 66,7 milljarða króna. Söluferlið þótti til fyrirmyndar og hefur verið lýst sem skólabókardæmi um góða framkvæmd einkavæðingar. Gegnsæi þess og trúverðugleiki endurspeglaðist í þeim mikla áhuga sem fjárfestar sýndu fyrirtækinu. Með sölu á Símanum hefur ríkisvaldið dregið sig að öllu leyti út úr samkeppnisrekstri á fjarskiptamarkaði.

Af söluandvirði Símans verður meðal annars 18 milljörðum varið til uppbyggingar Landsspítala – háskólasjúkrahúss og 15 milljörðum til framkvæmda í vegamálum. Ber þar hæst veglegt framlag til byggingar Sundabrautar sem að mínu viti er ein nauðsynlegasta vegaframkvæmd sem við stöndum frammi fyrir. Einnig verður áður óþekktum fjármunum varið til nýsköpunar í atvinnulífi, til kaupa á fjölnota varðskipi fyrir Landhelgisgæslu Íslands, til framkvæmda í þágu fatlaðra og til stofnunar fjarskiptasjóðs. Þá voru eignir og skuldir Lánasjóðs landbúnaðarins seldar á árinu og rennur söluandvirðið til lífeyrissjóðs bænda.

IV
Nokkrar ríkisstofnanir hafa um langt skeið óskað eftir því að fá meira svigrúm til athafna en reglur um ríkisrekstur gera ráð fyrir. Vaxandi kröfur eru í samfélaginu um árangur og aðlögunarhæfni, breytingar á tækni og aðstæðum eru hraðar og samkeppni er um gott starfsfólk. Stjórnendur ríkisstofnana eru háðir meiri takmörkunum í rekstri en stjórnendur fyrirtækja með annað rekstrarform enda ber ríkið ótakmarkaða ábyrgð á rekstri sem það stendur fyrir. Þá er innra stjórnkerfi flestra eða allra ríkisstofnana bundið í lögum, reglugerðum eða háð samþykki ráðherra.

Hlutafélagsformið gefur færi á meiri sveigjanleika í fjárfestingum, rekstri og samvinnu við aðra aðila en ríkisrekstrarformið. Þetta á ekki síst við um rekstur þar sem breytingar eru mjög örar og rík áhersla er lögð á góða þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki. Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að breyta rekstrarformi nokkurra ríkisstofnana yfir í hlutafélag. Um er að ræða Ríkisútvarpið, Rafmagnsveitur ríkisins og þrjár rannsóknastofur á sviði matvæla. Jafnframt hefur ríkisstjórnin lagt til breytingu á hlutafélagalögum og bætt við sérstökum ákvæðum sem eiga að gera almenningi hægara um vik að fá upplýsingar um tiltekna starfsþætti í hlutafélögum sem eru alfarið í eigu ríkisins.

V
Við síðustu áramót varð mér tíðrætt um málefni fjölskyldunnar og sagði þá meðal annars:
“Það er bjargföst trú mín að samheldin og ástrík fjölskylda sé kjarninn í hverju þjóðfélagi. Þann kjarna þarf að styrkja og treysta og við höfum komið til móts við breyttar kröfur með fæðingarorlofi fyrir báða foreldra sem var mikið jafnréttismál. Að sama skapi höfum við lagt áherslu á að allir geti eignast sitt eigið húsnæði. En betur má ef duga skal. Ég hef því ákveðið að setja af stað vinnu við að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar.”

Sú nefnd var skipuð strax í janúar og á að starfa í ár til viðbótar. Nefndin hefur á þessum tíma unnið mikilvægt starf, meðal annars við að kortleggja hvernig málefni fjölskyldunnar hafa þróast í lögum og reglugerðum á síðustu árum og fara yfir fjölskyldustefnur fyrirtækja, fæðingarorlofsmál og daggæslumál svo dæmi séu tekin. Ljóst er að samráðsvettvangur á borð við fjölskyldunefndina er nauðsynlegur og vænti ég mikils af störfum nefndarinnar á komandi ári. Jafnframt hófst í ársbyrjun samstarf forsætisráðuneytisins, Þjóðkirkjunnar, Umboðsmanns barna, Velferðarsjóðs barna og Heimila og skóla undir heitinu Verndum bernskuna. Átakinu er ætlað að vekja alla til umhugsunar um þau verðmæti sem falin eru í börnum þessa lands og var bæklingi með 10 heilræðum fyrir foreldra og uppalendur dreift í öll hús, málþing og ráðstefnur hafa verið haldnar, kynningar í skólum og félagsmiðstöðvum og hjá ýmsum samtökum. Ég veit að þetta átak hefur mælst vel fyrir og ég vona að það muni vekja marga uppalendur til umhugsunar um stöðu sína og stöðu fjölskyldunnar almennt.

VI
Málefni aldraðra eru mörgum ofarlega í huga sem eðlilegt er. Ríkisstjórnin hefur ávallt verið reiðubúin til að skoða hvernig bæta megi kjör aldraðra og hefur af því tilefni verið fundað reglulega með fulltrúum þeirra, nú síðast rétt fyrir jól. Okkur sem erum í blóma lífsins á að vera bæði ljúft og skylt að tryggja öldruðum örugga og góða afkomu enda eiga þeir stóran þátt í að skapa það þjóðfélag og þá velsæld sem við búum við. Mér finnst þess vegna mikilvægt að halda því til haga að sú ákvörðun ríkisstjórnar að afnema eignaskatt frá og með árinu 2005 kemur sér ekki síst vel fyrir aldraða enda hefur sá hópur greitt um þriðjung alls eignaskatts í landinu. Jafnframt vil ég ítreka þau markmið stjórnvalda og aðstandenda aldraðra um mikilvægi þess að leita leiða til að aldraðir megi dvelja sem lengst á heimili sínu og gera þeim sem fullfrískir eru kleift að vera þátttakendur í atvinnulífinu sem lengst.

VII
Góðir landsmenn,
Framundan er nýtt ár og öll bindum við vonir við að það verði landi og þjóð hagstætt og hverjum og einum gæfuríkt í sem flestu tilliti.

Um leið og ég þakka ykkur fyrir samstarfið á árinu sem er að líða, bið ég þess að árið 2006 verði ykkur ár farsældar og friðar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum