Hoppa yfir valmynd
31. mars 2006 Forsætisráðuneytið

Ársfundur Seðlabankans 2006

Ræða Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra,
á ársfundi Seðlabanka Íslands, 31. mars 2006

English version

I

Góðir fundarmenn.

Ársfundir Seðlabanka Íslands hafa skipað sérstakan sess í okkar tiltölulega stuttu en viðburðaríku nútímahagsögu. Hvað sem líður boðskapnum sem hér er boðið upp á er óhætt að fullyrða að fáir ef nokkrir fundir hljóta meiri athygli þeirra sem láta sig efnahagsmál, og þá um leið almenna velferð okkar þjóðfélags, varða. Ég gat þess í ræðu minni á síðasta ársfundi bankans að skilaboðin héðan hafi í gegnum tíðina verið bæði súr og sæt. Þó er það svo að undanfarin ár höfum við frekar vanist jákvæðum en neikvæðum fréttum úr þessum ræðustóli. Þannig á það líka að vera þegar allt gengur vel. Ég tel reyndar fulla ástæðu til að gleðjast yfir þeirri efnahagslegu velferð sem við Íslendingar höfum notið á undanförnum árum.

Ef við horfum á þróun íslensks efnahagslífs síðustu tíu ár blasa eftirfarandi staðreyndir við:

  • Hagvöxtur frá árinu 1995 hefur verið yfir 60% sem jafngildir um 4½% hagvexti á ári hverju allt þetta tímabil. Slíkur hagvöxtur er nær einsdæmi í okkar samkeppnislöndum.
  • Kaupmáttur heimilanna hefur líka aukist um meira en 60% og óhætt að fullyrða að sambærilegar tölur þekkjast hvergi í okkar nágrannaríkjum.
  • Atvinnuleysi hefur einnig minnkað verulega en það var komið yfir 6% í ársbyrjun 1995. Nú mælist atvinnuleysið um 1½% og er hvergi minna en hér á landi. Slíkar tölur jafngilda í reynd fullri atvinnu enda höfum við þurft að flytja inn erlent vinnuafl í stórum stíl til að anna eftirspurn eftir vinnuafli.
  • Skuldir ríkissjóðs hafa ennfremur minnkað verulega og eru nú óvíða minni en hér á landi, eða sem nam um 7½% af landsframleiðslu í árslok 2005. Sambærileg tala árið 1995 var 35% af landsframleiðslu.


Þetta eru staðreyndir málsins. Allar þessar tölur eru opinberar og öllum aðgengilegar og um þær þarf ekki að deila. Þetta viðurkenna þeir sérfræðingar sem mesta þekkingu hafa á íslenskum efnahagsmálum, eins og sérfræðingar frá OECD sem voru hér í heimsókn fyrr í þessum mánuði. Sama gildir um sérfræðinga frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og helstu matsfyrirtækjum. Allir þessir aðilar hafa lofað þann árangur sem hér hefur náðst í íslenskum efnahagsmálum. Ég tel að við getum verið stolt af þessum árangri sem hefur skilað okkur í hóp þeirra þjóða sem hafa hvað besta samkeppnisstöðu í heimi.

Ef við horfum til stöðu efnahagsmála eins og hún blasir við um þessar mundir verður hún líka að teljast býsna traust. Afkoma fyrirtækja í flestum helstu atvinnugreinum er góð og fer batnandi og staða útflutnings-, samkeppnis- og hátæknigreina hefur styrkst verulega með þeirri gengisaðlögun sem orðið hefur að undanförnu.

II

Það hefur lengi legið fyrir að sá mikli og aukni hagvöxtur sem rekja má til mikillar uppbyggingar skapaði spennu í efnahagslífinu og kalla á aðhaldssamar aðgerðir í peninga- og ríkisfjármálum. Til þeirra hefur líka verið gripið með myndarlegum hætti. Engu að síður sýndu spár stjórnvalda að búast mætti við aukinni verðbólgu og miklum viðskiptahalla, sérstaklega á árunum 2005 og 2006. Það hefur þess vegna ekki komið á óvart að verðbólgan hafi aukist og viðskiptahallinn sömuleiðis.

Það sem hefur komið á óvart er hversu mikið viðskiptahallinn hefur aukist. Það má rekja til meiri einkaneyslu heimilanna. ekki síst vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á íbúðalánamarkaði og væntinga um breytingar á gengi. Með innkomu bankanna á íbúðalánamarkaðinn haustið 2004 fór í hönd samkeppni um íbúðalán heimilanna sem aftur leiddi til mikillar útlánaaukningar bankanna til húsnæðismála. Þessi útlánaaukning hefur leitt til skuldbreytinga hjá heimilunum þar sem vextir lækkuðu og útlánaþök hækkuðu. Þessi þróun er ekkert einsdæmi og víða erlendis má sjá hliðstæða þróun, t.d. í Danmörku fyrir nokkrum árum.

Sú staðreynd að bankarnir fóru að bjóða upp á hærri lán og meiri veðsetningarmöguleika en Íbúðalánasjóður auk þess sem ekki var gerð krafa um að lántakan væri bundin við íbúðakaup eingöngu ýtti óhjákvæmilega einnig undir aukin neysluútgjöld. Þjóðin fór því á mikið neyslu- og fjárfestingarflug.

Þetta á reyndar ekki bara við um heimilin í landinu því að bæði fyrirtæki og sveitarfélög hafa ráðist í miklar framkvæmdir og fjárfestingar á undanförnum tveimur árum. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að á sama tíma og þessi þróun átti sér stað hefur ríkið haldið að sér höndum og fjárfestingar ríkisins dregist mikið saman. Þetta var meðvituð ákvörðun ríkisstjórnarinnar til að halda aftur af innlendri eftirspurn eftir fremsta megni án þess að þurfa að snerta við mikilvæga þætti velferðarþjónustunnar. Slíkt kom aldrei til greina. Það er ekki hægt að búast við því að ríkið geti brugðist við óvæntri útlánaaukningu bankanna til að fjármagna einkaneyslu með samdrætti í viðkvæmu velferðarkerfi.

Óhjákvæmileg afleiðing alls þessa hefur verið meiri þensla og meiri viðskiptahalli en upphaflega var gert ráð fyrir. Það hefur vissulega reynt á þolrif íslenskrar hagstjórnar. Um það er ekki deilt. Það sem mestu skiptir er að allar spár, ekki einungis frá íslenskum stjórnvöldum heldur ekki síður frá OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum auk matsfyrirtækjanna, eru samhljóða um að viðskiptahallinn minnki verulega þegar stórframkvæmdunum lýkur.


III

Með lækkun gengisins undanfarnar vikur hefur orðið mikil breyting á helstu raunstærðum í efnahagslífinu. Áhrifin hafa þegar komið fram meðal annars í eldsneytisverði. Eins berast fréttir af því að dregið hafi úr sölu á ýmsum heimilistækjum, ferðum til útlanda o.fl. Sama gildir væntanlega um bílasölu á næstunni. Allt ber þetta að sama brunni: Að það dragi úr útgjöldum heimilanna á næstunni. Horfur um viðskiptahalla hafa því breyst og fyrirsjáanlegt að hann verður minni á þessu og næsta ári en áður var spáð og að jafnvægi í efnahagsmálum náist fyrr en áður var gert ráð fyrir. Það eru góðar fréttir.

Það er afar mikilvægt að átta sig á þessari nýju og breyttu stöðu í íslensku efnahagslífi. Það hefur út af fyrir sig alltaf legið fyrir að gengi krónunnar hækkaði á meðan framkvæmdirnar væru í hámarki og síðan gengi sú hækkun til baka. Innkoma erlendra aðila með útgáfu verðbréfa tafði fyrir þessari gengislækkun og flestir reiknuðu ekki með henni fyrr en á síðari hluta þessa árs. Sú mikla gengisaðlögun sem nú hefur orðið kemur því bæði hraðar og fyrr en búist var við.

Ennfremur hefur legið fyrir að erfitt gæti reynst að halda verðbólgunni innan þolmarka Seðlabankans á sama tíma og framkvæmdirnar væru í hámarki. Þess vegna var alltaf búist við að það reyndi mjög á peningamálastjórnina. Breytingarnar á íbúðalánamarkaði hafa ekki auðveldað það viðfangsefni.

Mér finnst þó mikilvægt að benda á tvö atriði í þessu samhengi. Í fyrsta lagi að nálægt tveir/þriðju hlutar verðbólgunnar stafa af hækkun húsnæðisverðs. Í öðru lagi að önnur verðhækkunartilefni hafa verið minni m.a. vegna áhrifa vaxtahækkana Seðlabankans á gengið til hækkunar. Á mælikvarða samræmdrar vísitölu eins og hún er reiknuð út af Evrópsku hagstofunni, en þar er litið framhjá hækkun íbúðaverðs, erum við Íslendingar með einhverja lægstu verðbólgu í Evrópu.

Það má búast við einhverju verðbólguskoti á næstunni vegna lækkunar gengisins síðustu vikur sem mun væntanlega draga úr eyðslu heimilanna. Á móti vegur að öllum líkindum lítil sem engin hækkun íbúðaverðs og sumir eru jafnvel að spá lækkun þess á næstu mánuðum.


IV

Góðir fundarmenn.

Í ljósi þeirrar jákvæðu þróunar sem orðið hefur í íslensku efnahagslífi undanfarin misseri og þeirrar öflugu uppbyggingar sem átt hefur sér stað hefur verið sérkennilegt að fylgjast með þeirri neikvæðu og villandi umræðu sem birst hefur að undanförnu í nokkrum erlendum fjölmiðlum. Oftar en ekki hefur mátt rekja þessi skrif til óvandaðrar umfjöllunar greiningardeilda erlendra banka sem eru í beinni samkeppni við íslenska banka.

Það er auðvelt að hrekja slíkan villandi málflutning með því að leiða fram staðreyndir sem byggja á opinberum og alþjóðlegum hagtölum. Enda hafa öll matsfyrirtækin og OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn staðfest sitt jákvæða mat á stöðu og horfum í íslensku efnahagslífi. Grundvöllur slíkra ákvarðana eru einmitt opinberar hagtölur og staðgóð þekking á íslensku efnahagslífi. Því miður virðist slíkri þekkingu og viðleitni ekki fyrir að fara hjá hluta þeirra sem hafa tekið sér það fyrir hendur að gefa sitt álit á íslensku efnahagslífi.

Ég verð að játa að slík umræða kemur mér ekki á óvart. Öll sókn og framþróun kallar á átök og allt sem gert er hefur sína kosti og galla. Kyrrstaða er að mínu mati aldrei kostur og sem betur fer ríkir ekkert logn í íslensku hagkerfi um þessar mundir. Í öllu þessu umróti er ríkari tilhneiging til að draga fram gallana og það neikvæða en kostina og hið jákvæða. Þrátt fyrir það verðum við að þola storminn og gera okkar ítrasta til að sannfæra aðra um að við getum haldið áfram á þeirri sóknarbraut sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf að undanförnu. Aðalatriðið er að við höfum sjálf trú á þessari stefnu. Ég hef aldrei efast um að íslenskt þjóðfélag væri á réttri braut á undanförnum árum.

Þær skipulagsbreytingar sem hér hafa orðið á síðustu árum hafa skilað sér í miklum vexti bankakerfisins. Íslensku bankarnir eru orðnir að alþjóðlegum fjármálaþjónustu-fyrirtækjum með stóran hluta af eignum sínum í alþjóðlegri starfsemi. Það hefur stuðlað að bættri áhættudreifingu í starfsemi þeirra.


V

En það eru ekki bara fjármálafyrirtækin sem hafa dafnað vel. Það er líka ánægjulegt að sjá þá miklu grósku sem einkennir önnur fyrirtæki um þessar mundir. Bæði gömul og rótgróin fyrirtæki sem mörg hver hafa gengið í gegnum miklar skipulagsbreytingar og eins hafa orðið hér til ný og öflug fyrirtæki á mörgum sviðum. Þótt sjávarútvegur sé áfram ein af okkar mikilvægustu atvinnugreinum eru stoðirnar undir efnahagslífinu orðnar miklu fjölbreyttari en áður var. Sérstaklega má nefna ferðaþjónustu sem er orðin þriðja stærsta atvinnugreinin, næst á eftir sjávarútvegi og stóriðju.

Ég nefni líka hin fjölmörgu fyrirtæki í hátækniiðnaði, svo sem líftækni- og lyfjafyrirtæki, tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki og véla- og rafeindabúnaðarfyrirtæki. Vaxandi fjölbreytni atvinnustarfseminnar styrkir íslenska hagkerfið og gerir það síður viðkvæmt fyrir sveiflum í einstökum atvinnugreinum.

Stjórnvöld hafa nýtt góða stöðu ríkisfjármála m.a. til að leggja mikilvægan grunn að nýbreytni í atvinnulífi framtíðarinnar með því að stórauka framlög til menntunar og treysta nýsköpun í landinu. Þannig hafa framlög ríkisins til háskólastigsins aukist um 80% að raungildi undanfarin 8 ár og nema í ár tæpum 17 milljörðum króna. Þá hafa árleg framlög ríkisins til vísinda- og tæknirannsókna aukist um 1 milljarð króna á undanförnum 3 árum.

Á næstu árum er nauðsynlegt að halda áfram á þessari braut með það að markmiði að treysta samkeppnisstöðu Íslands á tímum alþjóðavæðingar. Það skiptir einnig miklu máli að fyrirtækin í landinu leggi fram sinn skerf til menntunar, rannsókna og þróunarstarfs. Þær hugmyndir sem fram koma í frumvörpum iðnaðar- og viðskiptaráðherra um sameiningu nokkurra stofnana undir merkjum svokallaðrar Nýsköpunarmiðstöðvar eru enn eitt dæmið um þá áherslu sem ríkisstjórnin leggur á þennan málaflokk.

Við þurfum að horfa til allra átta þegar kemur að atvinnuuppbyggingu. Þannig eigum við að nýta þær auðlindir sem við ráðum yfir með skynsamlegum hætti. Þetta höfum við gert með góðum árangri og þær miklu framkvæmdir sem nú standa yfir hafa ótvírætt treyst atvinnu- og efnahagslífið í landinu og innan skamms sjáum við hvernig afraksturinn kemur til með að skila sér í gegnum stórauknar útflutningstekjur sem hefur jákvæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn.


VI

Góðir fundarmenn.

Þótt fortíðin sé allra góðra gjalda verð og “...að henni verði að hyggja...” eins og skáldið sagði, er það framtíðin sem skiptir sköpum. Mín lokaorð munu þess vegna snúa að framtíðinni í íslensku efnahagslífi.

Íbúðalánasjóður hefur verið mikið í umræðunni. Stjórnvöld hafa leitt þróun lánamöguleika á íbúðalánamarkaði allt þar til fyrir rúmu ári síðan að bankar og sparisjóðir komu af krafti inn á lánamarkaðinn. Ég fagna innkomu bankanna um leið og ég hef hvatt til að varfærni sé gætt í útlánum. Þessi breyting hefur jafnframt vakið spurningar um hvert hlutverk stjórnvalda eigi að vera á íbúðalánamarkaði og hvernig því hlutverki verði best sinnt. Til að svara þeirri spurningu hefur stýrihópur á vegum félagsmálaráðuneytis efnt til víðtæks samráðs um hlutverk og aðkomu stjórnvalda að íbúðalánamarkaðnum. Lögð hefur verið áhersla á það í vinnu hópsins að við þær breytingar verði í engu fórnað þeim pólitísku markmiðum sem stjórnvöld hafa gert Íbúðalánasjóði að starfa eftir. Með því er átt við hvernig hið opinbera geti áfram tryggt aðgang landsmanna allra, sem á annað borð uppfylla tiltekin lágmarksskilyrði, að íbúðalánum á hagstæðum kjörum án tillits til búsetu, líkt og verið hefur. Áfangaálit stýrihópsins liggur nú fyrir og eftir helgi verða kynnt næstu skref í málinu. Ég tel mikilvægt að víðtæk samstaða náist um fyrirhugaðar breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs og að unnið verði að nánari útfærslu á þeim á næstu mánuðum og lagafrumvarp verði lagt fram á haustþingi þannig að nýtt fyrirkomulag geti tekið gildi um næstu áramót.

Ég vil einnig leggja áherslu á mikilvægi þess að þær hugmyndir um frekari uppbyggingu stóriðju sem hafa verið í umræðunni verði að veruleika á næstu 10-15 árum. Það mun skila sér í áframhaldandi miklum hagvexti á bilinu 3-4% á ári. Verkefni ríkisstjórnarinnar er að tryggja að þessi uppbygging falli vel að okkar efnahagslega veruleika og dreifist þannig að stöðugleikanum verði ekki stefnt í hættu. Það er forsenda slíkrar uppbyggingar. Kyrrstöðumennirnir vilja koma í veg fyrir frekari nýtingu orkulindanna til stóriðju. Það er vissulega valkostur en fróðlegt væri að sjá einhverja af hinum afkastamiklu greiningardeildum bankanna reikna út áhrif þessa valkosts á þjóðarhag á næstu árum.

Þá tel ég afar brýnt að stjórnvöld beiti sér fyrir auknu upplýsingastreymi og gegnsæi um stöðu íslenskra efnahagsmála gagnvart erlendum aðilum. Við lifum í breyttum heimi þar sem öllu máli skiptir að koma staðreyndum og réttum upplýsingum á framfæri þannig að menn geti betur áttað sig á því hvað er rétt og hvað rangt í umfjöllun hinna ýmsu aðila um íslensk efnahagsmál, ekki síst um fjármagnsmarkaðinn.

Ég hef rætt við forsvarsmenn bankanna um að þeir taki þátt í sérstöku kynningarátaki, í samvinnu við forsætisráðuneytið, um stöðu íslenskra efnahagsmála. Hér þarf sérstaklega að koma því á framfæri að styrkur og sveigjanleiki íslensks efnahagslífs til að takast á við utanaðkomandi sveiflur er mun meiri nú en áður var og það er því betur í stakk búið en áður að takast á við hugsanleg vandamál sem upp kunna að koma. Sama máli gegnir um stöðu íslensks fjármálamarkaðar sem er traust eins og hefur verið ítrekað staðfest af alþjóðlegu matsfyrirtækjunum, auk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD. Ísland er hins vegar lítið land og við þurfum enn frekar á því að halda að okkar sjónarmið komist á framfæri.


VII

Góðir fundarmenn.

Ég gerði það sérstaklega að umtalsefni á síðasta ársfundi hvað íslenskt þjóðfélag hefði gengið í gegnum örar breytingar á undanförnum árum. Ég stend við það sem ég sagði þá og gott betur. Það er satt að segja ótrúlegt að horfa á þær framfarir sem orðið hafa á íslensku efnahags- og atvinnulífi á undanförnum árum, bæði innanlands og erlendis. Það skiptir miklu máli að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að greiða fyrir því að þessi þróun geti haldið áfram. Að því munum við vinna.

Ég vil að lokum þakka stjórnendum Seðlabankans gott samstarf á liðnu ári og starfsfólki bankans fyrir vel unnin störf. Það verður væntanlega enginn skortur á verkefnum hjá ykkur á næstunni og ég veit að þið munuð hér eftir sem hingað til sinna þeim verkefnum með hagsmuni þjóðarbúsins alls að leiðarljósi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum