Hoppa yfir valmynd
17. júní 2014 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra á Austurvelli 17. júní 2014

Forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, flytur ávarp á Austurvelli 17. júní 2014.
Forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, flytur ávarp á Austurvelli 17. júní 2014.

Góðir landsmenn.

Þennan þjóðhátíðardag fögnum við 70 ára afmæli íslenska lýðveldisins. Þegar litið er yfir þessa 7 áratugi verður ekki annað sagt en að vel hafi tekist til. Saga Íslands frá lýðveldisstofnun er saga mikilla framfara, jafnvel einhver mesta framfarasaga sem nokkur þjóð hefur upplifað. Ísland hefur náð í efstu sæti á listum þar sem borin eru saman lífsgæði milli landa, hvort sem litið er til langlífis, heilbrigðisþjónustu, jafnræðis og jafnréttis, efnahagsmála, tæknivæðingar eða lýðræðis. Til samræmis við það höfum við mælst meðal hamingjusömustu þjóða heims.

Á ýmsu hefur gengið á lýðveldistímanum. Við höfum háð baráttu til að verja rétt okkar og yfirráð yfir auðlindum og fjárráðum sjálfstæðrar þjóðar. Sveiflurnar í efnahagsmálum hafa stundum verið miklar en á heildina litið hefur þróunin öll verið mjög í rétta átt. Og nú, á 70 ára afmæli lýðveldisins blasir við okkur framhald þessa uppbyggingarstarfs. Verðmætasköpun vex nú hraðar en í flestum löndum, jafnvel öllum öðrum Evrópuríkjum. Atvinnuleysi minnkar á Íslandi á meðan atvinnuleysi er komið á það stig, að það veldur umróti og ógnar velferð í mörgum þeirra landa sem við berum okkur saman við. Hlutfall landsmanna sem eru undir lágtekjumörkum og eiga félagslega einangrun á hættu er hið lægsta í Evrópu. Í löndum Evrópusambandsins er að meðaltali fjórðungur íbúanna undir lágtekjumörkum. Hér er hlutfallið helmingi lægra. Það þýðir hins vegar ekki að við séum sátt við þá stöðu, enda eigum við ekki að vera það. Framfarir eru byggðar á vilja til að gera betur. Þegar árangur hefur náðst er staða þeirra sem ekki fá notið ávaxtana okkur þeim mun hugleiknari. Það segir sína sögu um hugarfarið sem lá til grundvallar lýðveldisstofnuninni -og árangrinum til þessa- að við teljum ekki ásættanlegt að fátækt sé enn til í landinu, jafnvel þótt hún sé hin minnsta í Evrópu.

Við lítum gjarnan á landsmenn sem eina stóra fjölskyldu. Við viljum að allir þegnar samfélagins fái notið gæða þess, að allir njóti frelsis, jafnræðis og sömu réttinda og að allir búi við öryggi og mannsæmandi kjör. Og það sem meira er, saga lýðveldisins til þessa og horfurnar til framtíðar sýna okkur að við eigum að geta náð því markmiði. Það er verðugt markmið að berjast fyrir og við þurfum áfram að vinna að því í sameiningu að landsmenn allir njóti góðs af uppbyggingu og framförum íslenska lýðveldisins.

Þegar á fyrri hluta þjóðveldisaldar varð íbúafjöldi Íslands allt að þriðjungur til helmingur af íbúafjölda Noregs. Við lýðveldisstofnun, fyrir 70 árum, var fjöldi Íslendinga hins vegar aðeins um fjögur prósent af íbúafjölda Noregs. Á því mikla framfaraskeiði sem Ísland hefur notið frá lýðveldisstofnun hefur íbúatala landsins hins vegar hátt í þrefaldast og Íslendingum fjölgað hraðar en flestum vestrænum þjóðum. Landið hefur hins vegar ekki allt notið þeirrar fjölgunar. Það er áhyggjuefni að framfarasaga lýðveldisins hefur ekki nýst landinu öllu jafnt, þótt íbúar landsins alls hafi svo sannarlega lagt sitt af mörkum í uppbyggingarstarfinu. Nú þegar við lítum yfir farinn veg og metum hvernig til hefur tekist og hvað megi gera betur hljótum við að staldra við þessa staðreynd. Þegar við hugsum um framfarir á Íslandi, fólksfjölgun, uppbyggingu innviða, bætt kjör og velferð, fjárfestingu, atvinnutækifæri og þjónustu við íbúana hljótum við öll að vilja að þær framfarir nái til landsins alls.

Íbúar Vestfjarða eru nú færri en 7.000. Árið 1944 voru þeir 12.500. Það búa nú færri á Vestfjörðum en á 19. öld. Nú búa þar aðeins rúm tvö prósent landsmanna. Og víðar um land hefur íbúum fækkað með breyttum atvinnuháttum og vegna þess að ekki hefur tekist að skapa sambærileg búsetuskilyrði um land allt. Hliðstæð þróun hefur auðvitað orðið í mörgum löndum. Árið 1944 bjuggu um 12 prósent íbúa Noregs í Osló og nálægum byggðum. Nú býr um fjórðungur Norðmanna á höfuðborgarsvæði þess lands. Það má heita að samstaða sé um það í Noregi að hlutfallslegur styrkur höfuðborgarinnar sé orðinn svo mikill að það réttlæti, eða kalli á, að stjórnvöld beiti sér sérstaklega til að stuðla að jafnræði til búsetu með stuðningi við hinar dreifðari byggðir.

Við lýðveldisstofnun bjuggu tæplega 4 af hverjum 10 Íslendingum á höfuðborgarsvæðinu. Nú búa þar hátt í 7 af hverjum 10. Við Íslendingar hljótum því að geta náð saman um mikilvægi þess að uppbyggingarstarf komandi ára, og áratuga, nýtist á landinu öllu. Norðmenn beita m.a. í meira mæli en hér er gert skattalegum hvötum, sérstökum lánveitingum og stuðningi við nýsköpun og aðra fjárfestingu. Mikilvægast er þó að byggja upp sterka innviði á landsbyggðinni.

Í velmegandi nútímasamfélagi þarf að tryggja fólki um allt land öruggar og greiðar samgöngur og fjarskipti, heilbrigðisþjónustu, menntun og aðra þjónustu hins opinbera. Það hlýtur líka að vera æskilegt og eðlilegt að opinber störf dreifist jafnar um landið en þau gera nú. Stór hluti af útflutnings- og skatttekjum samfélagsins verður til á landsbyggðinni. Það er eðlilegt að sú verðmætasköpun nýtist í meira mæli til fjárfestingar og uppbygginga innviða. Tekjur af sjávarútvegi þurfa til dæmis að nýtast þeim stöðum þar sem þær verða til og stuðla að auknum stöðugleika og fjölbreytileika atvinnulífs í byggðarlögum sem byggðust upp af sjósókn.

Það er öllum í hag að byggðarskilyrði séu góð um land allt. Þannig nýtast þeir möguleikar sem búa í þjóðinni og landinu best og það gagnast samfélaginu öllu. Höfuðborgarbúar hafa af því ríka hagsmuni ekki síður en þeir sem búa utan borgarinnar. Flest byggðarlög á Íslandi urðu til vegna nálægðar við þau náttúrugæði sem þar voru nýtt. Breytt atvinnulíf og önnur samfélagsþróun hefur raskað þessu byggðamynstri. Nú er stór hluti starfa ekki lengur háður nálægð við auðlindir. En það getur virkað í báðar áttir. Störf sem ekki eru háð tiltekinni staðsetningu má allt eins vel vinna í smærri byggðarlögum á landsbyggðinni eins og á höfuðborgarsvæðinu séu fjarskiptin í lagi. Nú eru auk þess líkur á að nálægð við auðlindir og tækifæri framtíðarinnar muni aftur skipta miklu máli á komandi árum.

Þau miklu tækifæri sem bíða lýðveldisins vegna þróunarinnar á norðurslóðum verða fyrst og fremst nýtt á svæðum sem hafa átt á brattann að sækja á undanförnum áratugum. Það er mikilvægt að undirbúa nýtingu þeirra tækifæra vel, meðal annars með því að treysta innviðina. Auknir flutningar um Norðurskautið geta orðið til þess að á norðanverðu og austanverðu landinu byggist upp umfangsmikil hafnarstarfsemi ásamt ýmiss konar þjónustu og framleiðslu þar sem hráefni og önnur aðföng verða flutt til Íslands úr ólíkum áttum, unnin þar og fullunnar vörur svo fluttar út til allra átta.

Olíu- og gasleit mun kalla á starfsemi víða um land. Hvernig sem fer með vinnslu í okkar eigin lögsögu sýnir reynslan að hér getur orðið til þekking sem gert getur Ísland að miðstöð fyrir þjónustu við auðlindanýtingu í nágrannalöndunum. Það mun til dæmis liggja beint við að vinna með Grænlendingum þegar þeir hefja vinnslu gríðarmikilla auðlinda á og við austanvert Grænland. Byggðarlög á Vestfjörðum og víðar á norðan- og vestanverðu landinu liggja þá vel við til að veita allt frá verkstæðisþjónustu og vinnslu matvæla að heilbrigðisþjónustu og rannsóknarvinnu.

Samstarf við nágranna okkar á norðurslóðum er Íslendingum ákaflega mikilvægt, hvort sem er á sviðum atvinnumála, umhverfismála, menntunar eða menningar. Áhugi á landinu okkar er orðinn gríðarmikill og viðskiptasambönd okkar við erlendar þjóðir veita tækifæri til eflingar útflutningsgreina. Við höfum landið, fólkið, auðlindirnar, -þekkinguna og kraftinn sem hægt er að byggja á til framtíðar.

Staða okkar nú er allt önnur og betri en hún var þegar lýðveldi var stofnað fyrir 70 árum. En árangurinn sem náðist á tímabilinu eftir lýðveldisstofnun byggðist ekki hvað síst á hugarfari landsmanna, trúnni á að okkur væru allir vegir færir sem þjóð. Það væri mikil synd, nú þegar tækifærin blasa við enn frekar en nokkurn tíman áður, ef okkur auðnaðist ekki að nýta þau vegna skorts á þeirri framfaratrú sem réði för árið 1944 og fyrr á öldinni, þegar aðstæður voru að öllu öðru leyti mun erfiðari en nú. Það að hafa trú á hugmyndinni um Ísland og getu hins sjálfstæða lýðveldis, trúin á sameiginlegan mátt okkar sjálfra, er grunnstoð framfara og árangurs.

Þann 17. júní 1944 var þjóðin öll saman í anda í rigningunni á Þingvöllum. Þúsundir flykktust á vellina við Lögberg til að fylgjast með lýðveldisstofnuninni og um allt land hugsaði fólk til hátíðarhaldanna. Frásögn Morgunblaðsins af hátíðinni tveimur dögum síðar ber gleðinni sem þá ríkti glöggt vitni:

„Í tjaldborginni þennan morgun leyndi það sér ekki að ... þarna voru allir vinir og bræður, þó þeir hefðu aldrei sjest ... Þennan drungalega rigningardag heilsuðust menn svo hjartanlega og óskuðu öllum sem þeir hittu, gleðilegrar hátíðar, eins innilega og þeir óska börnum sínum gleðilegra jóla. Þokan, útsynningurinn og rigningarúðinn hafði engin áhrif á hugi manna. Þeir voru í sólskinsskapi. Úr tjöldunum heyrðist söngur og gleði. Sumir kváðu við raust. Aðrir sungu.“

Stundir sem þessar minna okkur á mikilvægi samtakamáttar þjóðarinnar. En hvað gerir þjóð að þjóð? Landið, tungumálið, sagan og menningin eru augljósir þættir sem skapa okkur sameiginleg minni, grundvöll til að byggja sjálfsmynd þjóðarinnar á. Af sömu sökum rifjum við upp atburði og orð liðins tíma, til að læra af þeim við mótun samfélagsins og sjálfsmyndar okkar í nútímanum. Samtakamáttur þjóðarinnar felst í því að finnast maður tilheyra þjóðinni, tilheyra íslensku samfélagi og finna fyrir sameiginlegum vilja til að vinna því gagn og sjá það dafna.

„Maðurinn einn er ei nema hálfur,“ orti Einar Benediktsson, „með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.“ Gildi þjóðhátíðardagsins fyrir samfélagið er ekki síst í því fólgið að þann dag tökum við í anda saman höndum og treystum þessi bönd, rifjum upp og endurlifum að hluta þann gleði- og bjartsýnishug sem ríkti á Þingvöllum við stofnun lýðveldisins. Stofnun lýðveldisins á Þingvöllum árið 1944 er atburður sem verður greyptur í sameiginlegt minni íslensku þjóðarinnar til framtíðar. Slíkir atburðir, sem og barátta Jóns Sigurðssonar og samtímamanna hans fyrir bættum hag Íslands, veita grunnstef sem getur veitt okkur leiðsögn á hröðum og síbreytilegum tímum, og við mótun framtíðarinnar.

Kæru Íslendingar

Sú framfaratrú sem var ríkjandi á Íslandi við stofnun lýðveldisins, einn dumbungslegan rigningardag á Þingvöllum árið 1944, trú þjóðarinnar á sjálfa sig og að Íslandi væru allir vegir færir, lagði grunninn að þeim árangri sem náðist á síðari hluta tuttugustu aldar. Í dag, réttum sjötíu árum síðar, höfum við Íslendingar, miklu frekar en þá, ástæðu til að vera bjartsýn og hafa trú á landinu okkar og framtíð þess. Trú á eigin getu. Látum hið leiftrandi minni um gleðina, bjartsýnina og framfaratrúna sem ríkti við stofnun lýðveldisins lýsa okkur veg þennan þjóðhátíðardag, og alla þjóðhátíðardaga, um Íslands farsæla framtíð.

Góðir landsmenn. Gleðilega hátíð.

Talað orð gildir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum