Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2004 Forsætisráðuneytið

Viðskiptaþing Verslunarráðs Íslands 2004

 

Ávarp forsætisráðherra
á Viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands 2004

Ágætu gestir.
Ég vil þakka þetta tækifæri til að ávarpa samkomu ykkar. Undanfarin ár hef ég átt þess kost að koma hingað og hlýða á forystu Verslunarráðsins og getað deilt með ykkur hugleiðingum mínum um helstu málefni líðandi stundar. Yfirskrift þings ykkar hittir í mark, eins og fyrri daginn. „Minni ríkisumsvif margfalda tækifærin“, enda eru afl og kraftur einkaframtaksins lykillinn að blómlegu og fjörugu mannlífi. Barátta Verslunarráðsins og félagsmanna þess fyrir atvinnufrelsi hefur verið til fyrirmyndar og skilað miklu.

Öflugt atvinnulíf er ekki einungis kappsmál þeirra sem reka fyrirtækin eða eiga beinan hlut í þeim. Þjóðin öll nýtur ábatans þegar hjól þess snúast hratt og ískurslaust. Umgjörð og skipulag atvinnustarfseminnar er því eitt mikilvægasta úrlausnarefni stjórnmálanna á hverjum tíma. Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að því að draga ríkið úr samkeppnisrekstri, gagngert til að fjölga tækifærum almennings til að nýta krafta sína og þekkingu, sjálfum sér til heilla. Þannig hafa verið seld ríkisfyrirtæki fyrir rúma 60 milljarða króna. Þegar sölu Landssímans verður lokið hafa verið tekin stærri skref í átt frá ríkisrekstri en margir töldu að væri mögulegt. Einkavæðingin, jafn umdeild og hún var í upphafi, hefur skilað þjóðinni miklum ávinningi. Rekstur hefur batnað sem og þjónusta við almenning og síðast en ekki síst styrktist ríkissjóður. Skuldir ríkissjóðs voru árið 1995 51% af landsframleiðslu. Samkvæmt spá Fjármálaráðuneytisins verða skuldir sjóðsins komnar niður í 14,9% af landsframleiðslu árið 2006. Þessi árangur í stjórn fjármála ríkisins er ávísun á margföld tækifæri í framtíðinni. Og það er mikils að vænta. Þjóðin hefur gripið tækifærin þegar þau hafa gefist. Það eru ekki nema örfá ár síðan tekjuskattur fyrirtækja var 50%. Eftir að sá skattur var lækkaður í 30% og síðan í 18% hefur hann gefið miklu meira af sér í ríkissjóð en áður, gagnstætt illspám um afkomu hans. Umsvifin jukust þegar hönd skattheimtunnar hvíldi ekki lengur eins og mara á allri atvinnustarfseminni. Fyrir síðustu kosningar lofuðu stjórnarflokkarnir skattalækkunum til almennings og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var staðfest að tekjuskattur einstaklinga mun lækka um fjögur prósentustig á kjörtímabilinu, hátekjuskattur verður afnuminn, eignaskattur afnuminn og virðisaukaskattur á matvælum og fleiru lækkaður umtalsvert. Á þessa braut hefur þegar verið gengið, en nýverið tilkynnti fjármálaráðherrann lækkun og samræmingu á erfðafjárskatti. Fyrirhugaðar skattalækkanir munu fjölga tækifærunum sem okkur bjóðast, þær munu efla hag heimilanna í landinu og þær munu ýta undir atvinnusköpun og hagvöxt á næstu árum. 

Undanfarin ár hafa útgjöld hins opinbera verið um og yfir 40% af þjóðarframleiðslu. Þetta er hátt hlutfall og má ekki hækka umfram það sem nú er, þvert á móti. Ríkisstjórnin hefur sett skýr markmið í ríkisfjármálum til næstu fjögurra ára. Meginatriði þeirra er, að útgjöld til samneyslu vaxi ekki umfram tvö prósent að raungildi á árunum 2005 til 2007. Við gerum ráð fyrir að hagvöxtur verði umtalsverður á þeim árum og því má vænta þess að hlutur hins opinbera í þjóðarframleiðslunni minnki. En það er ekki nóg að líta á hlutfallslega upphæð útgjaldanna. Það verður einnig að horfa til samsetningar þeirra og áhrifa á efnahagslífið. Ríkið er nú að mestu komið úr samkeppnisrekstri og þar með eru verkefni þess betur skilgreind en áður. Lögð er áhersla á menntamál, heilbrigðismál og félagsmál. Útgjöld til þessara málaflokka hafa aukist mjög á undanförnum árum. Ísland er nú í hópi þeirra ríkja, sem verja hæsta hlutfalli þjóðartekna til mennta – og heilbrigðismála. Þó annað megi stundum ætla af málflutningi þeirra sem tala því hærra um „fjársvelti“ og „niðurskurð“ sem framlögin eru aukin meir. Reyndar er nú svo komið að nauðsynlegt er að halda aftur af útgjaldaaukningunni í heilbrigðisgeiranum. Árið 2000 vörðum við um 51 milljarði króna til þessa málaflokks en árið 2004 er áætlað að upphæðin verði 73 milljarðar rúmir. Til eru í landinu þeir menn sem telja að 22 milljarða útgjaldaaukning sé niðurskurður! 

Framlög til Landsspítala-háskólasjúkrahúss hafa aukist myndarlega á þessum árum og hrein fásinna að tala um neyðarástand á spítala sem hefur til ráðstöfunar um tuttugu og fimm þúsund milljónir á ári, en fjárveitingar til spítalans hafa aukist um sex milljarða króna frá árinu 2000. Það er mikilvægt að samtök á borð við Verslunarráð Íslands skuli láta þennan málaflokk til sín taka og varpa fram hugmyndum í því skyni að rjúfa vanahugsun og tregðulögmál í þýðingarmiklum málaflokkum.

Góðir fundarmenn.
Þegar það lá fyrir, að framkvæmdir myndu hefjast við Kárahnjúka, komu fram efasemdir um að íslenskt efnahagslíf gæti með góðu móti tekið við öllum þeim umsvifum sem stofnað yrði til. Margt bendir nú til að slíkar áhyggjur hafi ekki átt við gild rök að styðjast og þensluáhrif vegna virkjanaframkvæmdanna verði minni en ætlað var. Íslenska hagkerfið á auðveldara með en áður að taka á móti stórframkvæmdum eins og þeim sem nú standa yfir fyrir austan. Auðvitað tekur hagkerfið nokkurn kipp. Nema hvað? Til þess var leikurinn gerður. En kippurinn er mestur fyrir austan og þar kalla menn kippinn fjörkipp og taka honum fagnandi.

Hagtölur benda reyndar til þess að enn sé nokkur slaki í hagkerfinu. Ekki ber á neinni spennu á vinnumarkaði og verðbólga er á því róli sem Seðlabankanum er ætlað að halda henni. Komi til framkvæmda vegna stækkunar Norðuráls á næstu misserum er ástæða til að ætla að hagkerfið þoli vel þá viðbót sem þeim fylgja. Þetta er bæði gott og blessað. En þar með er ekki sagt að við eigum að láta alla varkárni lönd og leið. Við skulum vera minnug þess, hversu mjög reyndi á aðlögunarhæfni íslenska hagkerfisins á árunum 2001 og 2002. Margir höfðu tekið mikla áhættu og teflt djarft. Þegar gengið gaf eftir, þá sátu þeir, því miður, eftir með sárt ennið. Seðlabankinn hefur séð ástæðu til þess að senda viðskiptabönkunum nótu um að þeir gái að sér og gæti hófs í útlánum og þó einkum jafnvægis í fjármögnun. Sérstaklega eru viðskiptabankarnir hvattir til þess að huga að erlendum skammtímaskuldum sínum. Ég vil hvetja forsvarsmenn viðskiptabankanna til að huga vel að þessari orðsendingu Seðlabankans. Hún er bæði vinsamleg og skynsamleg í ljósi þeirra aðstæðna sem við búum við og nýliðinnar sögu. Ég vil einnig nota þetta tækifæri til að biðja stjórnendur bankanna að íhuga vel og vandlega, hversu langt bankarnir eigi að ganga í því að eignast sjálfir hluti í fyrirtækjum. Það er skiljanlegt og eðlilegt að bankarnir hafi tímabundna aðkomu að fyrirtækjum þegar það á við. En það er að mínu mati langt frá því að vera heppilegt að bankarnir séu í lykilhlutverki í rekstri fyrirtækjanna. Það eykur hættuna á hagsmunaárekstrum og rýrir traust landsmanna á þessum mikilvægu stofnunum. Rekstrarumhverfi bankanna hér á landi er þeim mjög hagstætt og sést það meðal annars á því, hversu mjög þeir hafa vaxið á undanförnum árum og hversu öflug útrás þeirra á erlenda markaði hefur verið. Því er mikilvægt að þeir gangi fram með gát og varúð og leggi höfuðáherslu á að glata ekki stuðningi almennings við það umhverfi sem þeir starfa í. Lagasetningin um sparisjóðina er ekki hafin yfir gagnrýni, en mér þykir líklegt að sameining nær alls þingheims um löggjöf vegna áforma SPRON og Kaupþings snúi ekki bara að því máli, en sé jafnframt eins konar aðvörunarskot frá Austurvelli til annarra á markaði.

Góðir fundarmenn.
Það var eitt sinn haft á orði að okkur Íslendingum væri ekki sérlega lagið að ræða kjarna máls svo vel færi á. Þrætulist um ýmiskonar tittlingaskít lægi betur við okkur. Þetta er auðvitað hér sagt utan gæsalappa og vona ég að gæsalappalandsliðið hrökkvi ekki úr hjöruliðnum þó ég leyfi mér nokkra ónákvæmni er ég orða hugsun skáldsins. Það má vissulega til sanns vegar færa að okkur Íslendingum þykir mörgum nokkuð gaman að pólitískri þrætu og karpi og sannarlega finnast þess dæmi að smámál, lítil og ómerkileg, hafi bólgnað svo mjög að halda mætti að veröld öll væri undir og þarf svo sem ekki að leita langt aftur í samtíma sögu okkar til að finna vitlausustu dæmin. Sú saga er sögð að Þórbergur Þórðarson hafi sagt Halldóri Laxness að hann hefði lesið um rannsókn er sýndi að konur notuðu ekki nema um 500 orð í allar sínar samræður. Já, svaraði hinn, það er ekki mikill höfuðstóll en alveg gríðarleg velta.

Fjölmiðlaumræðan sem við höfum nýlegast dæmi um einkenndist dálítið af þessu bísnessdæmi. Nánast enginn höfuðstóll, en alveg rosaleg velta! Þrátt fyrir þetta og annað sambærilegt þá hefur okkur Íslendingum tekist, að minnsta kosti bærilega, að ræða og leiða til lykta þau mál sem miklu hafa skipt fyrir velferð þjóðarinnar. Um það eru, sem betur fer, fjölmörg dæmi. Við upphaf tíunda áratugar síðustu aldar var tekist á af afli um grundvallarskipan þjóðfélagsins. Sú skoðun varð ofan á, að best færi á því að frelsi einstaklingsins væri sem mest, afskipti ríkisins af atvinnurekstri sem minnst, skattar sem lægstir og ríkissjóður í jafnvægi. Jafnframt er skilningur á því að tryggja þarf góða heilbrigðisþjónustu og öflugt menntakerfi öllum til handa. Stjórnmálaástandið í landinu hefur verið stöðugt allt frá árinu 1991 og hefur þjóðin veitt þeim brautargengi sem lagt hafa áherslu á framangreind gildi og verið trúverðugir málsvarar þeirra. Fyrir vikið höfum við uppskorið ríkulega. Skattar hafa lækkað og munu lækka enn, ríkissjóðurinn stendur vel, bankar og fjölmörg önnur ríkisfyrirtæki hafa verið einkavædd, kaupmátturinn hefur aukist um tugi prósenta og mest hjá þeim sem lökust hafa kjörin. Allt hefur þetta gengið fram vegna þess að þjóðin komst að þeirri niðurstöðu að frelsið væri aflvaki allra framfara, og frelsi með ábyrgð farsælust leið. Og nú er svo ánægjulega komið að öll skáld vildu þessa Lilju kveðið hafa. Gamlir og svarnir andstæðingar einkaframtaksins mega sumir vart í ræðustól stíga, nema umvafnir kufli Eysteins munks, syngjandi frelsinu lof og prís. Þetta virkar kúnstugt í fyrstu en hafa verður í huga að enginn hefur einkarétt á því að berjast fyrir frelsinu. Á hinn bóginn er hún sérstæð umræðan sem sprottið hefur upp vegna aukinnar samþjöppunar í íslensku atvinnulífi og þeirra alvarlegu afleiðinga sem slíku fylgir. Gamalkunnir uppar opinbers rekstrar hafa átt óvænta vendingu í því máli. Sá málflutningur er ekki mjög trúverðugur. Í Morgunblaðinu var á dögunum dregin upp, með skýrum hætti, mynd af því hvernig nokkrar viðskiptablokkir hafa með fulltingi viðskiptabankanna vaxið gríðarlega á undanförnum árum. Ekki verður hjá því komist að spyrja hvort sú mikla samþjöppun gefi tilefni til að löggjafinn lagfæri leikreglurnar. Tilgangur baráttu okkar fyrir einstaklingsfrelsinu var aldrei sá að frelsið yrði fyrir fáa útvalda. Of mikil samþjöppun í efnahagslífinu er í mínum huga óæskileg og lítt dulbúin frelsisskerðing. Ég þarf ekki að hafa um það mörg orð hversu mikill skaði það er fyrir viðskiptalífið og samfélag okkar, ef samþjöppunin gengur úr hófi fram. Það kostaði ekki lítil pólitísk átök að ná allgóðri samstöðu um að nauðsynlegt væri að ríkið hætti að leika aðalhlutverkið í íslensku atvinnulífi. Enginn árangur hefði náðst ef ekki hefði komið til stuðningur og skilningur fólksins í landinu á mikilvægi þessa máls. Ég er sannfærður
um að stuðningur við þá stefnu sem hér hefur ríkt undanfarin ár mun fljótt fjara út, ef þess er ekki gætt að jafnvægi ríki á markaðinum og ekki gíni of fáir yfir of miklu. Öflugir, traustir og heiðarlegir forystumenn í viðskiptalífi eru drifkraftur og velgjörðarmenn í frjálsum ríkjum og gera borgarana bjargálna. Þeir eiga að blasa við þegar fólkið horfir til fyrirmynda í efnahagsmálum en ekki fáeinir fjárplógsmenn ágjarnir, sem engu eira. Það er ekki sjálfgefið að við Íslendingar búum við lága skatta, jafnvægi í ríkisfjármálum, vaxandi kaupmátt og stöðugan hagvöxt. Það eru, því miður, sorglega mörg dæmi um hið gagnstæða víða um veröld, og ekki síst í okkar eigin sögu. Ákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um að skipa nefnd til að kanna þörf á sérstökum aðgerðum vegna hringamyndunar, var því bæði rétt og tímabær, og skilar vonandi árangri. 

En ágætu þinggestir.
Í þessum málum er þó að mörgu að hyggja og fæst sjálfgefið. Við lagasetningu vegna hringamyndunar, verður að gæta að því að ýmsar reglur sem eðlilegar eru í stórum hagkerfum landanna í kringum okkur, þar sem fyrirtæki skipta hundruðum á hverjum markaði, eiga ekki óbreyttar við í öllum tilvikum hjá okkur. Það má til að mynda leiða að því líkur að það sé algengara hjá okkur að fyrirtæki séu í markaðsráðandi stöðu eða því sem næst, heldur en gengur og gerist annars staðar þar sem markaðirnir eru margfalt stærri. Framhjá því verður ekki horft að til að geta boðið almenningi þjónustu á sem bestu verði, þurfa fyrirtæki að ná ákveðinni lágmarksstærð og lágmarksstærð á litlum markaði kann í vissum tilvikum að þýða óþægilega sterka stöðu. Eins verða íslensk fyrirtæki að eflast nægjanlega til að geta sótt fram á erlendum markaði. Þessari vel undirbyggðu þörf fyrir lágmarksstærð má hins vegar ekki rugla saman við áráttu til hringamyndunar eða viljanum til að ná markaðsráðandi stöðu á fleirum en einum markaði. Þar á milli er himinn og haf. 

Þróunin á fjölmiðlamarkaði hefur vakið athygli að undanförnu. Fjölmiðlar hafa miklu hlutverki að gegna í samfélaginu. Þeir eiga að veita helstu þjóðfélagsöflunum aðhald og á það jafnt við um stjórnmálamenn sem fyrirtæki. Eitt helsta einkenni lifandi þjóðlífs og virks lýðræðis eru sjálfstæðir, öflugir og fjölbreyttir fjölmiðlar. Það gilda því nokkuð önnur sjónarmið um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði en eiga við, að öllu jöfnu, á öðrum mörkuðum. Markmið löggjafans þegar kemur að fjölmiðlum er ekki fyrst og fremst að tryggja lágt verð til neytenda, þó það skipti vissulega máli. Mikilvægara er að fjölbreytni sé tryggð og að öruggt sé að mismunandi skoðanir fái að heyrast og að fjölmiðlarnir sinni eftirlitsskyldu sinni bæði gagnvart stjórnmálamönnum og flokkum þeirra og viðskiptalífinu sjálfu. Austan hafs og vestan er greinilegt að þessi sjónarmið hafa ráðið för, þegar sett hafa verið lög um fjölmiðla og eignarhald á þeim. Nær undantekningarlaust hefur lagasetningin miðað að því að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun. Það er umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga að nágrannaþjóðir okkar, margfalt fjölmennari, sem ættu því að þurfa að hafa minni áhyggjur af samþjöppun fjölmiðla, skuli með svo afgerandi hætti taka á þessum málum. Samruni ljósvakamiðla og prentmiðla, þykir mjög óæskilegur og víða bannaður með lögum. Má ætla að nefnd sú sem menntamálaráðherra skipaði á síðasta ári til að meta þörf á lagasetningu um fjölmiðla, hljóti að líta sérstaklega til þessa þáttar. En það er ekki nóg að horfa einungis til samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði. Það verður einnig að spyrja þeirrar spurningar, hvort það skipti máli hverjir eiga fjölmiðlana. Undan þessari spurningu eigum við ekki að víkja okkur. Ekki er langt síðan blöðin hér á landi voru pólitísk málgögn sem einkum var ætlað að vera málsvarar stjórnmálaskoðana eigenda sinna. Við hljótum að vera sammála því að upplýsingagildi og áreiðanleiki margra flokksmálgagnanna var í besta falli umdeilanlegur, þó auðvitað hafi verið mikill munur á milli einstakra blaða. Þjóðviljinn sálugi, var til dæmis ekki eyða mikilli prentsvertu í að útskýra fyrir lesendum sínum ruglandina í málflutningi gömlu kommana, en var hún þó umtalsverð og efni til nokkurrar umræðu. Það var ekki tilgangur eigenda Þjóðviljans að þjóna lesendum sínum með slíkum hætti, þjónustan var við málstaðinn, málstað eigendanna og það máttu þeir eiga að ekki var siglt undir fölsku flaggi. En Þjóðviljinn var ekki einn á ferð. Á móti kom að önnur málgögn birtu öndverðar skoðanir. Tími flokksmálgagnanna er liðinn, sem betur fer. En nú virðist upp runninn annar tími hálfu verri, tími fyrirtækjamálgagna og þau hafa miklu dýpri vasa en gömlu flokksblöðin sem börðust einatt í bökkum. Þetta hlýtur að vekja okkur til umhugsunar. Ég hef áður vikið að því að gera má ráð fyrir að fyrirtæki nái markaðsráðandi stöðu hér á landi við það eitt að ná eðlilegri stærð. Við því er lítið að segja. En þá skiptir öllu máli, að fjölmiðlar sinni eftirlitshlutverki sínu af árvekni og ábyrgð. Almenningur verður að geta treyst því að fyrirtæki sem eru í markaðsráðandi stöðu, hafi eðlilegt aðhald af fjölmiðlum, neytendavernd sé virk og tryggt sé að dregin sé upp hlutlaus og óbjöguð mynd af starfsemi slíkra fyrirtækja. Ef við eigum að umbera það í nafni hagkvæmni að fyrirtæki hafi markaðsráðandi stöðu, þá verðum við að treysta því að þau hafi virkt aðhald frá fjölmiðlum. Annars hlýtur sú krafa að verða sterk að löggjafinn setji slíkum fyrirtækjum strangari reglur en ella þyrfti. Það gefur því auga leið að ekki er heppilegt að fyrirtæki sem eru í markaðsráðandi stöðu eigi jafnframt fjölmiðla. Það er beinlínis hættulegt. Enn fremur er mjög varhugavert að fyrirtæki sem er með yfirburði, jafnvel á fleiri en einum markaði, sé jafnframt í markaðsráðandi stöðu á fjölmiðlamarkaði. Engin leið er til þess að fjölmiðill, sem býr við slíkt eignarhald, geti með trúverðugum hætti sinnt skyldu sinni og veitt eiganda sínum það aðhald sem gera verður kröfu um. Vafalítið munu margir horfa til þessara sjónarmiða þegar málefni fjölmiðla verða til umfjöllunar á Alþingi.

Góðir fundarmenn.
Baráttan fyrir frelsinu tekur engan enda. Vissulega er hægt að benda á áfanga, sigra og ósigra, en endapunkt finna menn engan. Því sjónarmiði hefur verið hreyft að hringamyndun og sú mögulega ógn sem okkar stafar af henni sé afleiðing frelsisins, einhver óumflýjanleg staðreynd sem menn hefðu betur hugleitt þegar af stað var farið. Þessu sjónarmiði er ég ósamþykkur og tel það reyndar á misskilningi byggt. Frelsið er hreyfiafl alls þess sem til framfara getur horft fyrir þjóðina. En það krefst þess af okkur að við setjum skýrar reglur sem tryggja sanngirni og heiðarleika í samskiptum manna, eins og kostur er. Frelsi eins má aldrei verða annars böl. Slíkar reglur er ekki óbreytanlegar, greyptar í stein í eitt skipti fyrir öll. Miklu fremur hljóta þær að fylgja þróun samfélagsins, endurspegla þann veruleika sem við búum við. Tilgangurinn er ætíð sá sami, að tryggja frelsi okkar til orðs og æðis. Aðferðirnar, regluverkið og viðmiðin mótast hins vegar af aðstæðum hverju sinni. Íslenskt viðskiptalíf hefur breyst mjög á undanförnum misserum, flestar breytingarnar hafa verið góðar aðrar síðri. Skylda okkar og ábyrgð er sú, að þær reglur sem í gildi eru, tryggi að viðskiptafrelsið sé sem mest, að sem flestir fái tækifæri til að keppa og þjóðin fái notið sem ríkulegastra ávaxta af atvinnustarfseminni. Það er engin þversögn fólgin í því að setja reglur gegn hringamyndun og það er engin þversögn fólgin í því að setja reglur sem tryggja eðlilegt starfsumhverfi fjölmiðla. Þvert á móti, allt fer það saman í viðleitni okkar til að tryggja, að það frjálsræði, sem þjóðin skóp sér sjálf, verði ekki saga ein, heldur lifandi aflvaki allra framfara og blómlegs mannlífs í landinu okkar.

Sumir horfa nú til stjórnmálamannanna með þeirri ósk að þeir tryggi heilbrigða og holla umgjörð íslensks viðskiptalífs. Við hljótum að bregðast vel við því. En staðreyndin er samt sú, að þið, sem eruð í þessum sal og ykkar líkir úti í þjóðfélaginu berið mun ríkari skyldur í þessum efnum en við. Og það sem meira er, ef þið beitið ykkur eruð þið miklu líklegri en við til að ná góðum árangri. Þetta bið ég ykkur ágætu verslunarráðsmenn að hafa í huga nú og síðar. Á því getur mikið oltið.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum