Hoppa yfir valmynd
4. október 1995 Forsætisráðuneytið

Stefnuræða á Alþingi 1995

STEFNURÆÐA
DAVÍÐS ODDSSONAR FORSÆTISRÁÐHERRA
4. OKTÓBER 1995

Herra forseti, góðir áheyrendur,

Nýtt löggjafarþing er að hefjast. Þessi aldagamla stofnun er enn að hefja störf í þjóðarþágu. Hugsanlegt er að einhverjum þyki undarlega tekið til orða, þegar fullyrt er, að Alþingi sé komið saman með þeim einlæga ásetningi að setja þjóðarhagsmuni öðrum kröfum ofar og að það sé ekkert nýtt. Það er nefnilega sú undarlega staða uppi, að til eru þeir menn sem nefna Alþingi naumast á nafn, án þess að láta þess getið í leiðinni, að þar sitji, almennt séð, illviljaðir andstæðingar þjóðarinnar og skipti þá minnstu máli úr hvaða pólitíska ranni þeir komi. Það sé sameiginlegt keppikefli þeirra allra, meira og minna, að gera þjóðinni grikk. Jafnvel menn, sem taldir eru gegna svo ábyrgðarmiklum stöðum að þeim eru skömmtuð fjórföld eða fimmföld laun alþingismanna, láta sig ekki muna um að líkja þessari stofnun við samfélag bófa og þjófa. Ég geri þessar öfgar að umtalsefni, þótt mér, sem öðrum þingmönnum, sé fullljóst, að Alþingi þarf ekki að hafa stærstar áhyggjur af þess háttar ábyrgðarlausu tali. Hitt skiptir hins vegar máli, að yfirbragð þinghaldsins og sá þáttur starfa þess, sem helst snýr að almenningi, endurspegli þá miklu vinnu og þau vönduðu störf, sem hér eiga sér stað, frá morgni til kvölds. Það verður aldrei hjá því komist, að hlutur málsstofunnar í störfum þingsins verði mest áberandi út á við og hætta er á, vegna eðlis hennar, að umræður á þeim vettvangi geti gefið skakka mynd af öllu því sem hér fer fram.

Sem betur fer, benda mörg ótvíræð merki til þessi, að hinn ómerkilegi áróður gegn Alþingi nái ekki eins langt inn í þjóðarvitund eins og í fljótu bragði virðist. Þannig er hin almenna þátttaka í Alþingiskosningum, sem er einhver sú mesta í veröldinni, auðvitað talandi tákn þess, að Íslendingar líta á þessa stofnun sem eina sína mikilvægustu og vilja hafa sín áhrif á hverjir hér sitja. Mjög margir hafa einlægan áhuga á að fylgjast grannt með störfum þingsins. Þeir munu sjá, að á þessu þingi koma fjölmörg athyglisverð mál til meðferðar og þingið mun kosta kapps um að efla þjóðarhag og menningu lands á alla lund.

Herra forseti,

Í stefnuræðu minni, hinn 18. maí síðastliðinn, var þess getið, að þótt alllangan tíma muni taka að vinna sig út úr sjö ára stöðnunarskeiði, þá sé bati að verða á flestum sviðum efnahagslífsins. Ekkert bendir til að þarna hafi verið tekið of sterkt til orða. Hagvöxtur á Íslandi verður um eða yfir 3% á þessu ári, annað árið í röð. Sá vöxtur er sambærilegur við það sem þekkist frá iðnríkjunum og mestu máli skiptir að við höfum forsendur til að tryggja áframhaldandi hagvöxt og þar með að efla og treysta atvinnulífið í landinu og bæta lífskjör allrar þjóðarinnar. En þótt efnahagsástandið sé þannig jákvætt eru forsendurnar brothættar og við verðum öll að gæta að okkur. Efnahagslegur stöðugleiki og varfærni í ríkisfjármálum eru forsendur framfara, lágra vaxta, öflugs atvinnulífs og þar með atvinnuöryggis. Þau markmið sem ríkisstjórnin hefur sett sér í gengismálum, peningamálum og ríkisfjármálum miða öll að því að treysta þennan grundvöll. Ríkisstjórnin vill virkja framtak einstaklinganna í þágu aukinnar verðmætasköpunar og stuðla að hagræðingu í íslensku atvinnulífi, hvort sem er í opinberum rekstri eða einkarekstri. Sumir óttuðust að sá jákvæði blær sem var á þjóðhagsáætlun á síðastliðnu hausti væri meira í átt við óskhyggju en raunveruleika og til voru þeir sem kölluðu hana kosningalegan fagurgala. En framvindan á því ári, sem nú er alllangt gengið, hefur verið nær algjörlega í takt við þá þjóðhagsáætlun, reyndar örlítið hagstæðari. Hagvöxtur verður þannig töluvert meiri en þá var gert ráð fyrir, en verðbólga, viðskiptajöfnuður og atvinnuleysi svipað því sem þá var reiknað með. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á hvern mann mun aukast um 3,5% á þessu ári og tæp 6% á tveimur árum. Er sú kaupmáttaraukning nokkuð umfram vöxt þjóðarteknanna. Hefur ekki lengi orðið meiri kaupmáttaraukning, ef frá eru talin árin 1986 - 1987, en ávinningurinn þá var byggður á fölskum forsendum og hrundi með braki og bresti. Þótt þjóðhagsáætlun, sem lögð hefur verið fram á þinginu, bendi til að hagvöxtur á árinu 1996 verði nokkru minni en í ár getur margt orðið til þess að breyta þessum horfum til hins betra. Þannig er óvissa enn um stækkun álversins við Straumsvík og er slík stækkun því ekki innifalin í þjóðhagsáætlun. Ákvörðun af eða á um stækkun álversins mun liggja fyrir á þessu ári. Ekki er heldur loku fyrir það skotið, að aukin hagræðing í atvinnulífinu muni skila nokkuð meiri ávinningi en menn treysta sér til að reikna með á þessari stundu. Þjóðhagsáætlunin er því sett fram með varfærnum hætti og hagvöxtur á næsta ári gæti orðið svipaður og í nágrannalöndunum, ef okkur tekst að halda vel á spilunum.

Ríkisstjórnin hefur það að meginmarkmiði í stjórnun peningamála að stuðla að stöðugu verðlagi og hornsteinn þeirrar stefnu er að gengi krónunnar raskist ekki. Meðalgengi krónunnar hefur ekki riðlast nú um tveggja ára skeið og er sú gengisfesta táknræn fyrir öryggi í þjóðarbúskapnum. Ríkisstjórnin samþykkti nú í haust hugmyndir Seðlabanka Íslands um nýja gengisskráningarvog sem væri raunsærri og meira í tengslum við vöru- og þjónustuviðskipti Íslands við umheiminn en hin fyrri gengisskráningarvog. Áformar bankinn að tryggja að þau tengsl rofni ekki og verður því gengisvogin endurskoðuð árlega miðað við viðskipti landsins út á við. Það blandast engum hugur um að stöðugleikinn í gengismálum hefur átt verulegan þátt í því að lækka verðbólgu í landinu og mynda þann trausta ramma fyrir atvinnustarfsemi á Íslandi, sem menn finna fyrir nú. Engin minnsta ástæða er til þess að hverfa frá þeim stöðugleika sem er í gengismálunum enda er afgangur af viðskiptum við útlönd, og raungengi og verðbólga eru í sögulegu lágmarki.

Nokkur vaxtahækkun varð á fyrstu mánuðum þessa árs, ekki síst á skammtímamarkaði. Á því eru allmargar skýringar, s.s. eins og erlendir vextir, óróleiki í tengslum við kjarasamninga og verkföll í upphafi árs og einnig skapar kosningabarátta og óvissa um ríkisstjórnarmyndun jafnan óróleika á markaði. Skammtímavextir tóku síðan að lækka nú á miðju þessu ári og eru vextir því enn mun lægri en þeir voru fyrir vaxtaaðgerðir þáverandi ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands haustið 1993.

Öllum sérfræðingum ber saman um að áform ríkisstjórnarinnar um að draga úr halla ríkissjóðs á þessu ári og framtíðaráform í þeim efnum muni leiða til lækkunar vaxta, auk þess sem að nokkur vaxtalækkun hefur þegar orðið erlendis. Markmiðin í ríkisfjármálum speglast glöggt í því fjárlagafrumvarpi sem fjármálaráðherra hefur lagt fram og ljóst er að niðurstaða þess er í fullu samræmi við stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar. Þar er höfuðáhersla lögð á að skapa skilyrði til varanlegs hagvaxtar og aukinnar atvinnu, án þess að verðlag fari úr böndum og jafnframt að halda áfram að lækka erlendar skuldir þjóðarinnar. Þessi stefnumörkun nær ekki fram nema að henni sé fylgt eftir með aðgerðum á fjölmörgum sviðum. Það er hægt að færa efnahagsleg rök fyrir því að ríkissjóð megi reka með halla tímabundið, ekki síst á tímum samdráttar og vaxandi atvinnuleysis. Hér á landi hefur stórfelldur hallarekstur ríkisins frekar talist til reglu en undantekningar. Nú þegar kaupmáttur almennings mun fara vaxandi og afkoma þjóðarbúsins batnar er áríðandi að tryggja jafnvægi í fjármálum ríkisins. Við þingmenn hljótum, hvar í flokki sem við stöndum, að geta náð sátt um það markmið að safna ekki skuldum þegar að hagvöxtur er tekinn að glæðast á ný. Við skulum muna að jafnvægi í ríkisfjármálum er ekki aðeins hagfræðilegt hugtak heldur forsenda þess að fjárfesting í atvinnulífinu aukist, vextir lækki og störfum fjölgi. Við erum með öðrum orðum að ræða um þau sameiginlegu markmið að bæta lífskjör allra heimila í landinu.

Á næsta ári munu heildarútgjöld ríkissjóðs lækka nokkuð að raungildi og hlutfall útgjalda af landsframleiðslunni mun lækka umtalsvert og ekki hafa verið lægra í átta ár. Þetta er mikill árangur. Tekjur munu aukast nokkuð, en þó mun heildarskattbyrðin minnka vegna þess að hlutfall tekna af landsframleiðslu mun lækka frá síðasta ári. Reyndar hefur skattbyrðin ekki verið lægri á þá mælistiku mælt frá árinu 1987. Unnið er að ýmsum umbótum í skattamálum í samræmi við stefnumál ríkisstjórnarinnar. Hafinn er undirbúningur á heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu, ekki síst með það fyrir augum að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins. Verða fyrstu skrefin í þá átt stigin þegar á næsta ári.

Á síðastliðnu vori mótaði ríkisstjórnin langtímastefnu um nýtingu þorsksstofnsins á grundvelli undirbúningsvinnu Hafrannsóknastofnunar og þjóðhagsstofnunar. Sérfræðingar þessara stofnana telja, að sú langtímastefna eigi að tryggja þjóðinni hámarksafrakstur af þorsksstofninum á ókomnum árum. Þótt talið sé að klak þorsks á síðasta vori hafi heppnast þokkalega er ekki við því að búast að snögg umskipti verði varðandi leyfilegan þorskafla á komandi árum, heldur er gengið út frá hægt vaxandi aflaheimildum frá ári til árs. Fiskveiðistjórnunin mun áfram byggjast að mestu á aflahlutdeildarkerfi en jafnframt verður gerð úttekt á mismunandi leiðum við fiskveiðistjórnun og niðurstöðurnar nýttar við þróun hennar.

Þjóðfélagsumræðan á Íslandi virðist gjarnan verða sveiflukenndari en víðast hvar annars staðar, að minnsta kosti í nálægum löndum. Stundum er eins og svartnættið grípi þjóðina fyrirvaralítið og þá ekki síst fjölmiðla og dökkna þá flestir litir litrófsins undraskjótt. Það vakti athygli margra er einstakir fjölmiðlar, jafnvel þeir sem vilja láta taka sig alvarlega, byrjuðu skyndilega að hamra á því að lífskjör Íslendinga væru mjög bágborin í samanburði við aðrar þjóðir og landflótti væri geigvænlegur. Í rauninni þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta landflóttatal, því óyggjandi tölur liggja fyrir um það atriði og sýna þær að oft áður hafa fleiri flutt af landi brott umfram þá sem hingað flytja, en gerst hefur upp á síðkastið. því fer ekki á milli mála að meintur landflótti hefur verið ýktur stórlega af hvaða ástæðum sem það er gert. Samanburðurinn á lífskjörunum er annað mál. Engu var líkara en að lífskjör á Íslandi hefðu breyst til hins verra á hálfu ári, og spurt var, hvað orðið hefði af efnahagsbatanum! Virtist viðkomandi fjölmiðill alveg undrandi á því að þriggja prósenta hagvöxtur hefði ekki í einni svipann bætt fyrir sjö ára stöðnun í íslensku efnahagslífi og það lífskjaratap sem óðaverðbólga í tvo áratugi hafði valdið! Hitt er rétt að hafa í huga, að flókið er að bera saman lífskjör einstakra þjóða. Vissulega er hægt að skoða verð á einstökum vörutegundum og þá fást auðvitað niðurstöður í samræmi við þann þrönga mælikvarða. Vín og rósir gefa til dæmis allt aðra mynd í slíkum samanburði en húsnæði og heilsugæsla, svo dæmi sé tekið. Slíkur samanburður er því meira í samræmi við áróðurslega tilburði en eiginlegar úttektir og er því afar vafasöm aðferð svo ekki sé nú fastar að orði kveðið. Heildarmælikvarðar, s.s. landsframleiðsla á mann og einkaneysla, segja ekki heldur alla söguna, en gefa þó miklu skýrari mynd af lífskjörunum heldur en sá villandi samanburður sem ég gerði að umtalsefni. Á slíka mælikvarða eru lífskjörin yfir meðaltali annarra iðnríkja. Þannig var landsframleiðsla á mann á árinu 1993 um 7% meiri en að meðaltali í OECD-ríkjunum og frá þeim tíma hefur hagvöxtur og kaupmáttur aukist ívið meira en að meðaltali í aðildarríkjum OECD. Tilraunir til að meta þjóðarauð landa sýna einnig hagstæðar niðurstöður fyrir Ísland. Þannig birti Alþjóðabankinn nýlega niðurstöður sínar um auðugustu ríki heims byggðar á mati bankans á mannauði, náttúruauðlindum og fjármunaeign þjóða. Skemmst er frá því að segja, að Ísland lenti í sjöunda sæti í þessari athugun bankans og er samkvæmt því í hópi auðugustu þjóða heims, til að mynda auðugra en sjálf Bandaríki Norður-Ameríku, mælt á þennan mælikvarða.

Upp á síðkastið hefur vísitala neyðsluverðs hækkað töluvert, ekki síst vegna hækkunar á matvælaverði. Hafa ýmsir dregið þá ályktun af þessari þróun að verðbólga væri að fara úr böndum. Sú ályktun er fráleit. Matvælaverð getur sveiflast allmikið, eins og löng reynsla er fyrir, bæði eftir árstíðum og tíðarfari og það eru einmitt slíkir þættir sem skýra hækkun vísitölunnar að undanförnu, en þegar á allt er litið, þá má ætla að vísitala neysluverðs hækki minna á þessu ári en reiknað var með í byrjun árs. Almennt var reiknað með því að vísitalan mundi hækka um 2 - 2,5% en nú bendir flest til að hækkunin verði innan við 2%. Gert er ráð fyrir því að sama vísitala hækki um 2,5% á næsta ári og því fer ekki á milli mála að verðlagsþróun hér á landi verður hagstæðari en víðast hvar annars staðar, bæði á þessu ári og því næsta.

Herra forseti,

Um langt skeið fór störfum fækkandi hér á landi. Þessari þróun hefur nú verið snúið við og störfum fjölgar á ný. En nýju fólki á vinnumarkaði hefur einnig fjölgað og þess vegna hefur ekki enn tekist að draga úr atvinnuleysinu. Gangi efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar fram mun störfum halda áfram að fjölga á þessu kjörtímabili og grundvöllur atvinnulífsins að styrkjast. Engu að síður verður að grípa til fjölmargra aðgerða af hálfu ríkis og sveitarfélaga til að mæta vandamálum þeirra sem við atvinnuleysi búa. Nauðsynlegt er að efla vinnumiðlun og endurskoða lög um hana. Félagsmálaráðherra hefur þegar skipað nefnd til að endurskoða atvinnuleysisbótakerfið. Tilgangurinn er að styrkja stöðu þeirra sem þess kerfis eiga að njóta, en jafnframt er leitast við að koma í veg fyrir misnotkun þess. Stefnt er að því að efla starfsmenntun, enda er atvinnuleysi mest meðal ófaglærðs fólks. Þá er þýðingarmikið að endurskoða samskiptareglur þær, sem gilt hafa á vinnumarkaði og laga þær að því sem gildir í helstu samkeppnis- og viðskiptalöndum okkar. Íslenskt atvinnulíf verður að búa við samskonar skilyrði og aðrir, þótt nauðsynlegt sé að taka tillit til séríslenskra aðstæðna. Það er ekki vafi á því að stöðugleikinn í landinu, traust gengi, lækkandi vextir og vinnufriður mynda frjóan jarðveg fyrir blómstrandi atvinnulíf.

Markaðsaðstæður orkufreks iðnaðar eru nú mjög góðar og eru þar allmörg mál á döfinni, sem sum hafa verið rædd opinberlega en önnur eru á undirbúningsstigi. það er þó álit flestra, að helsti vaxtarbroddur atvinnulífsins felist í litlum eða meðalstórum fyrirtækjum. Þangað sé flest störf að sækja og mesta verðmætasköpun og einmitt í slíkum fyrirtækjum fá nýjar hugmyndir fyrr flug en í hinum stærri. Þegar er hafið átak í eflingu slíkra fyrirtækja, meðal annars með öflun upplýsinga um aðgang að tækifærum á Evrópska efnahagssvæðinu og með gerð tillagna um bætt rekstrarumhverfi, einföldun laga og reglugerða og um skilvirkari samskipti við stjórnvöld.

Það er álit ríkisstjórnarinnar að rekstur ríkisins á bankastofnunum með sérstökum stuðningi og ívilnunum við þær samrýmist ekki nútíma viðskiptaháttum. Ríkisvaldið mun því leitast við að laga sig að breytingum á fjármagsmarkaðnum og breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög. Markmiðið er fyrst og fremst að jafna samkeppnisstöðu í rekstri banka. Það er mat ríkisstjórnarinnar að samkeppni fjármálastofnanna á jafnréttisgrundvelli stuðli að lækkun vaxta og þar með bættu rekstrarumhverfi fyrirtækja í landinu. Þá knýja alþjóðlegir samningar, sem Íslendingar eru aðilar að, á um að rekstrarformi bankanna verði breytt. Engin ákvörðun hefur hins vegar verið tekin um sölu á hlutafé í ríkisbönkum. Stjórnarflokkarnir hafa enga ályktun gert um slíka sölu og lokaorðið í þeim efnum er auðvitað hjá Alþingi. Eðlilegt hlýtur að teljast að ríkið dragi sig út úr hefðbundinni lánastarfsemi á fjármagnsmarkaði en verði þess í stað virkur þátttakandi í stuðningsaðgerðum við nýsköpun atvinnulífsins.

Herra forseti,

Þeir sem fylgjast með alþjóðlegri umræðu verða þess mjög varir að menntamál hafa þar verið fyrirferðarmeiri en stundum endranær og samhengi mennta og lífskjara er hvarvetna í brennidepli. Íslenskir stjórnmálaflokkar lögðu allir áherslu á gildi menntunar í kosningabaráttunni og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar endurspeglar þessar áherslur. Afkoma og staða íslensku þjóðarinnar verður ekki tryggð, nema hún sé vel menntuð og geti nýtt sér öll tækifæri til auðssköpunar. Það gleymist stundum að telja menntun, rannsóknir og vísindi með þegar dregin eru fram þau atriði sem mestu skipta við framkvæmd langtímastefnu í efnahags- og atvinnumálum. Þess vegna er eðlilegt að líta á framlög til slíkra mála sem fjárfestingu. Færa má reyndar fram allgóð rök fyrir því, að slík fjárfesting sé ekki síður til þess fallin að skila arði en þeir fjármunir, sem lagðir eru til hefðbundinna atvinnugreina. Góð menntun er þannig besta tryggingin fyrir því að íslenska þjóðin standist samkeppni og geti skarað fram úr á alþjóðamarkaði. Við hljótum að setja okkur það mark, að námskröfur á Íslandi séu á borð við þær sem bestar þyki á heimsmælikvarða. Slíkar kröfur er hægt að gera, þótt um leið sé hugað sérstaklega að því sem íslenskt er. Við megum ekki draga úr kröfum um þekkingu á íslensku, íslenskri sögu og íslenskum bókmenntum. Þann arf ræktar enginn nema við sjálf. Við eigum að búa svo að okkar námsmönnum að þeir standist samkeppni um aðgang að bestu háskólum veraldar. Við göngum hins vegar ekki að því gruflandi, að hér mun aldrei myndast sambærileg aðstaða á öllum sviðum, og gerist í stærstu mennta- og vísindastofnunum heimsins. Því er mikilvægt fyrir okkur að eiga tök á alþjóðlegu samstarfi ekki síst á evrópskum vettvangi og þeir samningar sem við höfum nú þegar gert tryggja okkur slík tækifæri. Skipulega er unnið að því að flytja grunnskólann frá ríki til sveitarfélaga í samræmi við grunnskólalög og hefur verið haft náið samráð við fulltrúa allra þeirra aðila sem mestra hagsmuna hafa að gæta. Stefnt er að því að ný lög um framhaldsskóla verði afgreidd á þessu þingi svo að óvissa um þetta mikilvæga skólastig verði sem allra minnst. Í framhaldi af því þarf að huga að almennri löggjöf um háskólastigið. Þannig þykjast menn nú sjá fyrir endann á heildarendurskoðun laga um íslenska skólakerfið og verður næsta stórverkefni á sviði menntamála að endurskoða námsskrár og jafnframt að nýta nýja tækni til upplýsingamiðlunar til hins ýtrasta í skólakerfinu.

Meginmarkmið ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum eru að vernda náttúru landsins á þann hátt að fólki gefist kostur á að njóta hennar, vinna að endurheimt þeirra náttúrugæða, sem búseta hefur raskað, að draga úr mengun og stuðla um leið að skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda en forðast sóun hráefna og orku, svo nokkuð sé nefnt. Ríkisstjórnin mun leitast við að skapa sem best skilyrði fyrir einstaklinga, fyrirtæki og sveitarfélög til frumkvæðis og aukinnar þátttöku í umhverfisvernd. Hún vill ná víðtækri samstöðu við sveitarfélög og samtök einstaklinga og fyrirtækja um framkvæmdaáætlun í umhverfismálum til næstu aldamóta sem miði að því, að gera Ísland að umhverfislegri fyrirmynd. Huga verður að því að láta umhverfisgjöld standa undir kostnaði við förgun úrgangs til þess að draga úr myndun hans og styrkja endurnýtingu og endurvinnslu og tryggja viðunandi umhverfisvernd.

Herra forseti,

Ríkisstjórnin ákvað í stefnuyfirlýsingu sinni síðastliðið vor að búvörusamningur skildi tekinn til endurskoðunar, ekki síst með tilliti til þess mikla vanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir, en allir flokkar lýstu því yfir fyrir kosningarnar að á þeim vanda yrði að taka. Búvörusamningum er nú lokið. Í samningnum er leitast við að tryggja hagkvæmari framleiðslu, vinnslu og sölu sauðfjárafurða til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur. Rekstrarskilyrði sauðfjárframleiðslunnar munu breytast á samningstímanum til að tryggja tekjugrundvöll sauðfjárbænda. Hagkvæmni í greininni verður aukin með uppkaupum og tilfærslum og sauðfjárbændur verða studdir til að hætta búskap, kjósi þeir það. Tilfærslur verða gerðar á beingreiðslum svo frekari hagræðing geti átt sér stað í greininni og ekki síst stefnt að því að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við markmið umhverfisverndar. Hinn nýi búvörusamningur er gerður til þess að treysta grundvöll sauðfjárræktarinnar, en um leið til að laga hana að breyttum neysluháttum þjóðarinnar og auka frelsi í verðlagningu í greininni. Ljóst er að stuðningur ríkisvaldsins við þessa grein landbúnaðarins mun minnka nokkuð á samningstímanum. Ábyrgð framleiðenda á eigin málum er aukin, en heildar markmiðið er að tryggja að sauðfjárbúskap megi stunda með lífvænlegum hætti í framtíðinni í góðri sátt við landið og neytendur afurðanna.

Herra forseti,

Í áratugi börðumst við Íslendingar fyrir rétti strandríkja til stærri fiskveiðilögsögu. Forystuhlutverk Íslendinga í þeirri baráttu er almennt viðurkennt. Á síðari hluta áttunda áratugarins varð 200 mílna efnahagsleg lögsaga að veruleika með hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sá sáttmáli hefur nú öðlast gildi, þótt ýmsar þjóðir, svo sem Norðmenn, hafi fyrir sitt leyti ekki staðfest hann. Í sumar var lögð síðasta hönd á úthafsveiðisamning Sameinuðu þjóðanna. Ólíkt landhelgisbaráttunni, þar sem Ísland gekk fram fyrir skjöldu sem strandríki, hlaut stefna stjórnvalda í úthafsveiðimálum að taka nokkurt mið af hagsmunum bæði strandríkja og úthafsveiðiríkja. Umfram allt hlutum við þó að taka mið af hag þjóðar, sem á alla sína tilveru undir sjávarútvegi. Íslendingar hafa lengi stundað úthafsveiðar. Nokkurt hlé varð þó á þeim veiðum, m.a. vegna þess að unnt var að sækja aukinn afla á Íslandsmið eftir því sem að landhelgin stækkaði. En Íslendingar hafa sótt á úthafið á ný. Augljóst er að Íslendingar verða að eiga þess kost að sinna slíkum veiðum til að tryggja lífskjör sín í framtíðinni, því auðlindin á heimamiðum er takmörkuð og sveiflukennd, hversu vel sem að menn reyna að standa að fiskveiðistjórnun. En um leið og þetta hefur verið sagt, þarf að undirstrika að við hljótum að leitast við að gæta jafnvægis milli hagsmuna okkar sem úthafsveiðiríkis og strandríkis.

Fiskveiðar skipta okkur miklu meira máli en flesta aðra, en engu að síður þurfum við að sýna sanngirni í kröfum okkar um kvóta á svæðum sem liggja að lögsögu annarra ríkja. Þá höfum við augljósa hagsmuni af ábyrgri umgengni um auðlindina, jafnt á svæðum utan eigin lögsögu sem innan. Þar er orðstír okkar sem fiskveiðiþjóðar og umhverfisverndarmanna í húfi.

Allra þessara þátta hefur verið gætt í stefnumótun Íslands, þar á meðal í þeim deilum sem við höfum átt í við Norðmenn og Rússa. Í hinum nýgerða úthafsveiðisamningi felst nokkur leiðsögn í átt til ábyrgrar fiskveiðistjórnunar og ásættanlegt tillit er að okkar mati tekið til allra sjónarmiða. Þess er oft getið, að heimur minnkandi fari og samskipti einstaklinga, fyrirtækja og ríkisstjórna landa á milli verði æ nánari. En þessi miklu samskipti geta einnig gert hagsmunagæslu þjóðarinnar út á við flóknari en áður vegna nýrra tækifæra, þarfa eða aðstæðna, og eru úthafsveiðimálin gott dæmi um hvernig við höfum þurft að bregðast við slíkum úrlausnarefnum. Annað dæmi er varnarsamstarfið við Bandaríkin, sem hefur verið lagað að breyttum aðstæðum um leið og varanlegir öryggishagsmunir þjóðarinnar og bandamanna hennar á Norður-Atlantshafi hafa verið tryggðir. Mjög miklar hræringar eru í öryggismálum Evrópu. Atlantshafsbandalagsríkin standa frammi fyrir afdrifaríkum ákvörðunum svo sem stækkun bandalagsins til austurs. Þær krefjast festu og góðs undirbúnings og þær kalla á þátttöku og ábyrgð allra bandalagsríkjanna. Íslendingar eru hlynntir stækkun Atlantshafsbandalagsins en vilja þó að allrar varfærni sé gætt.

Af hálfu íslenskra stjórnvalda er grannt fylgst með þróun viðskiptamála vestanhafs og samskiptum Evrópu og Ameríku á því sviði og stefnt er að því að efla viðskipti við Ameríkuríkin. Í Asíu hafa opnast viðskiptatækifæri, þótt nokkurn tíma muni taka að nýta þau svo um muni. En það verk er hafið og hafa íslenskir einkaaðilar og ríkisvaldið komið að því máli. Í samræmi við samninginn um Evrópska efnhagssvæðið er unnið að því að auka pólitískt samráð við Evrópusambandið á þeim grundvelli sem samningurinn mótar. Verkefnin nú eru að nýta sem best trausta stöðu okkar í Evrópumálum. Rækta þarf enn frekar þau tengsl sem við höfum, forn og ný, og hafa okkur sem mest í frammi með þeim ríkjum sem við eigum besta samleið með.

Eitt af einkennum samtímans er að sífellt fleiri mál verða ekki leyst án yfirgripsmikilla milliríkjasamninga og samræmingarstefnu fjölda ríkja. GATT-samningurinn um aukið frelsi í milliríkjaviðskiptum, sem er Íslendingum hagfelldur, er dæmi um þetta. Framkvæmd samningsins hefur hins vegar valdið deilum hér á landi og orðið tilefni til gagnrýni á stjórnvöld. Ekki hefur borið á þessháttar deilum annars staðar. Segja má að réttmæt gagnrýni hafi komið fram um einstök smávægileg tæknileg atriði við framkvæmd samningsins. Þau atriði hafa verið leiðrétt og verða leiðrétt hvenær sem upp koma. Að öðru leyti hefur gagnrýnin að mestu leyti verið óréttmæt. Hún hefur verið byggð á fölskum væntingum um markmið og áhrif GATT-samningsins á innflutning og verðlag búvöru. Þær væntingar hafa verið búnar til af mönnum sem ætíð vissu betur, eins og sést á skrifuðum ræðum þeirra og greinum. Staðreyndin er sú, að GATT-samningurinn, hvað varðar búvörur, er framkvæmdur í grundvallaratriðum eins hér á landi og annars staðar er gert. Hvergi var stefnt að því að umturna innflutningsstefnu um búvörur á skömmum tíma. Íslensk stjórnvöld eru því ekki að bregðast skuldbindingum sínum í GATT, eða að vinna þvert á ætlun annarra aðildarríkja samningsins. Auðvitað gætum við einhliða ákveðið að fara ekki eftir GATT-samningnum, og gengið miklu hraðar fram en önnur ríki í átt til breytinga á innflutningi búvara. Vafalaust mætti færa einhver efnahagsleg skammtíma rök fyrir því að svíkja bændur varðandi þá stefnu sem mótuð var og þeim kynnt. Síðasta ríkisstjórn lagði mikið upp úr því að bændur og samtök þeirra styddu heilshugar aðild okkar að GATT-samningnum. Því er ótrúlegt að einhver geri þær kröfur nú að komið sé aftan að þessum aðilum við framkvæmd samningsins og gengið þvert á það sem sagt var þegar ákvörðun um hann stóð yfir. Ég fullyrði að það stóð ekki til af hálfu síðustu ríkisstjórnar að ganga fram með þeim hætti og núverandi ríkisstjórn mun ekki fremur en hin fyrri standa þannig að verkum, enda er ekki meirihlutavilji á þessum vettvangi fyrir slíkum vinnubrögðum. Ég er sannfærður um að meginþorri almennings vill ekki ganga hraðar fram í breytingum en bændastéttin getur risið undir. Með GATT-samningnum var ákveðið að fella niður bannreglur og auka fjölbreytni, en aldrei var talað um að ganga af landbúnaði neins ríkis dauðum, eins og sumir vilja nú vera láta. Meginatriðið er að á næstu árum verða verulegar breytingar á íslenskum landbúnaði og róttækar breytingar á innflutningi búvara. Þessar breytingar eru í senn æskilegar og óumflýjanlegar, bæði fyrir bændur og neytendur og verða að gerast í sátt við þessa aðila. Þeir sem vilja efna til heiftar og illinda á milli þeirra sem starfa þurfa saman, eru ekki að vinna gott verk.

Herra forseti, góðir Íslendingar,

Ég nefndi í upphafi ræðu minnar, að þeir, sem þjóðin hefur valið til að fara með mál sín á þjóðþinginu, þrá að láta gott af sér leiða. Þeim svíður þegar þeim er brigslað um að taka eigin hag fram yfir þjóðarhag. Það verður tekist á og deilt á því þingi, sem nú er nýhafið. Ekki vegna þess að þingmenn vilji ekki vel heldur vegna þess að þeim sýnist sitt hverjum um markmið og aðferðir. Í þessu eru þingmennirnir og þjóðin eins. Við viljum að þjóðin fylgist með okkur og við förum fram á að hún fái óbrenglaða mynd af störfum okkar. Okkur kemur ekki til hugar að víkjast undan endanlegum dómi hennar.

Ég þakka þeim sem hlýddu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum