Hoppa yfir valmynd
2. október 2001 Forsætisráðuneytið

Stefnuræða forsætisráðherra 2001

Stefnuræða Davíðs Oddssonar forsætisráðherra
2. október 2001



Herra forseti.

Heimurinn er í nokkru uppnámi um þessar mundir og þarf engan að undra. Gerð hefur verið óvenjulega hatursfull árás á óbreytta borgara í Bandaríkjunum. Illvirkjarnir, sem skipulögðu árásina, hafa ekki lýst glæpnum á hendur sér. Allir góðir og réttsýnir menn í veröldinni eru sammála um, að þessum árásum og þeirri ógn sem þær valda verði að svara, helst þannig að eyðingaröflin verði með öllu upprætt. Íslendingar hafa óhikað skipað sér í hóp þeirra þjóða, sem bregðast vilja við af mikilli festu. Eðli málsins samkvæmt verðum við fjarri því að vera í forystu, en við hljótum að vera tilbúnir til að leggja það af mörkum sem við megum. Auðvitað er enginn að tala um blindar hefndaraðgerðir í garð heilla þjóða eða þeirra sem ekki hafa annað til saka unnið en að aðhyllast önnur trúarbrögð en við. Enginn er að tala um að fara með aðgerðir vestrænna þjóða niður á eymdarstig hryðjuverkamannanna. Hvorki NATO sem heild né einstakar bandalagsþjóðir hafa samþykkt slíkar aðgerðir, enda hefur enginn eftir slíku samþykki leitað. Þeir, sem gefa slíkt í skyn, eru á villigötum sjálfir, eða eru að reyna að villa um fyrir öðrum. Daginn eftir árásina á Bandaríkin lýsti Atlantshafsbandalagið yfir að hún jafngilti árás á öll bandalagsríkin. Ísland bar að sjálfsögðu ábyrgð á þessari yfirlýsingu eins og önnur ríki bandalagsins. Öryggisstefna NATO, sem samþykkt var á leiðtogafundi þess fyrir tveimur árum, gerir ráð fyrir að bandalagsþjóðirnar kunni að þurfa að bregðast sameiginlega við hryðjuverkum. Aðför sú gegn hryðjuverkaöflum, sem nú er í undirbúningi á alþjóðavettvangi, er ekki hefndaraðgerð, heldur refsiaðgerð og lögregluaðgerð. Okkur er skylt að taka þátt í að refsa þeim sem bera ábyrgð á hryllilegum glæp og neyta allra úrræða til að koma í veg fyrir fleiri ódæði. Önnur afstaða kemur ekki til greina, ef vært á að vera í heiminum. Að öðrum kosti er niðurstaðan sú, að enginn verður óhultur nema glæpamennirnir og hjálparkokkar þeirra.

Hin mannlega eyðilegging skiptir auðvitað mestu. En efnahagslegar afleiðingar voðaverksins eru einnig tilfinnanlegar, einkum ef tilræðismönnunum hefur tekist að valda varanlegum ótta meðal lýðræðisþjóðanna. Þá er hætt við að úr umsvifum dragi og ýmsir þættir efnahagslífsins verði þyngri og tímafrekari en fyrr. Einn anga erfiðleikanna, sem fylgt hafa í kjölfar árásanna, bar hratt hingað og varðaði tryggingarmál hins öfluga flugflota landsins, sem skyndilega voru komin í fullkomið óefni. Varð að bregðast hratt við og með óvenjulegum og umdeilanlegum aðgerðum. Vil ég, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, þakka forystumönnum stjórnarandstöðunnar fyrir jákvæða aðkomu að málinu.

Eins og dómsmálaráðherra hefur bent á opinberlega er nú nauðsynlegt að skoða lagaumhverfi hryðjuverkabrota í ljósi nýjustu atburða. Vinna þarf að fullgildingu tveggja alþjóðasamninga á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þetta eru samningur sem setur skorður við fjármögnun hryðjuverkastarfsemi og samningur gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Samhliða öðrum breytingum á refsilöggjöfinni vegna hryðjuverka er stefnt að lagabreytingum sem miða að því að banna notkun dulbúninga á mótmælafundum. Er hér litið til þeirra upphlaupa og óeirða sem blásið hefur verið til í tengslum við alþjóðlega fundi þar sem hettuklæddir atvinnumenn í ofbeldi hafa staðið fyrir árásum og skemmdarverkum. Loks verður í samvinnu við nágrannaþjóðir okkar hugað að breytingum á lögum og reglum í tengslum við framsal manna fyrir alvarlegustu brot eins og hryðjuverk.

Áður en dró til þeirra hörmungaratburða sem ég nefndi áðan, höfðu markaðir víða um heim verið að veikjast vegna óvissu í efnahagsmálum, ekki síst í Bandaríkjunum og Japan og samdráttareinkenni í sumum stærstu ríkjum Evrópusambandsins bættu ekki úr skák. Með árásunum fengu markaðirnir enn þung högg, enda eru ótti og óvissa versta innanmein frjáls markaðar. Hlutabréfamarkaðurinn hér á landi veiktist verulega síðustu misseri og fylgdi hann því sem var að gerast erlendis, en einnig komu til sérstakar staðbundnar ástæður. Sterk og skýr merki voru þó komin fram um að botni væri náð og fyrirtækin myndu brátt styrkjast. Verðbólga hafði aukist víða, en þó meira hér en í viðmiðunarlöndunum, og var breytingin nokkuð í takt við gengi krónunnar. Nú er verðbólga tekin að hjaðna á ný og horfur eru nú allgóðar, þótt verðbólga mæld 12 mánuði aftur í tímann verði enn um sinn há. En framtíðarhorfurnar eru þýðingarmeiri en fortíðin. Nú er því spáð að verðbólga verði 3,4% frá upphafi til loka næsta árs. Seðlabankinn hefur sagt að hann muni lækka sína vexti þegar hann sjái örugg teikn um að hans eigin spár gangi eftir. En einnig mun bankinn taka mið af því hvort stöðugleiki ríki á vinnumarkaði. Gangi þessar spár og vonir eftir ættu vaxtalækkanir að vera í sjónmáli.

Ríkisstjórnin er nú að leggja síðustu hönd á nýjan áfanga í þeim skattaumbótum sem hún hefur staðið fyrir á undanförnum árum. Algengt er að heyra menn rugla saman, óviljandi eða vísvitandi, eftir því hver á heldur, skatthlutföllum og skatttekjum. Ríkisstjórnin hélt því fram, þegar hún lækkaði skatta á fyrirtæki úr 50% í 30% á sínum tíma að sú lækkun myndi, þegar upp væri staðið, skila meiri tekjum í ríkissjóð en áður, því fyrirtækjunum gæfist eftir lækkunina aukið svigrúm til athafna og þar með til tekjuöflunar. Sama var sagt um skatt á ýmsa þætti fjármagnstekna. Mat ríkisstjórnarinnar gekk eftir hvað fyrirtækin varðaði eins og beinharðar tölur sýna og reynslan varð einnig sú að 10% skattur á ýmis umsvif á fjármagnsmarkaði skilar mun meiri tekjum en 40-45% skattur gerði áður, vegna þess að hinn hái skattur drap öll viðskipti í dróma og þar með var ekkert til að skattleggja. Það er undrunarefni að ýmsum vinstri mönnum virðist fyrirmunað að skilja að 45% skattur á lítil sem engin viðskipti sé lakari kostur fyrir ríkissjóð en 10% skattur á mikil og lífleg viðskipti. Breytt efnahagsumgjörð gerði okkur kleift að auka kaupmátt launa á fáeinum árum hraðar en tókst að gera annars staðar. Lækkandi skatthlutfall á einstaklinga skilaði þannig meiri skatttekjum en hærra skatthlutfall hafði gert áður. Falsspámennirnir segja að skattar hafi verið hækkaðir, þegar hið rétta er að skatthlutföll hafa verið lækkuð, en skatttekjur hafa aukist eins og ríkisstjórnin spáði. Ekki þarf að taka fram að stjórnarandstaðan lagðist ætíð þungt gegn tillögum ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir og kæmi ekki á óvart þótt sú verði raunin, þegar stjórnarflokkarnir kynna tillögur sínar á næstunni.


Herra forseti.

Tekjuskattar einstaklinga á Íslandi eru með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Þetta stafar bæði af háum persónuafslætti og eins er almenna skatthlutfallið tiltölulega lágt í samanburði við aðrar þjóðir. En rétt er að hafa í huga að tekjuskattskerfi Íslands, líkt og flestra annarra landa, er þannig uppbyggt að skattbyrðin fylgir hagsveiflunni. Hún hækkar sjálfkrafa þegar vel árar, en lækkar þegar kreppir að. Þannig fæst ákveðin sveiflujöfnun í efnahagslífið, þ.e.a.s. að haldið er aftur af uppsveiflunni og dregið úr niðursveiflunni. Slík sveiflujöfnun er talin nauðsynleg í nútímahagkerfi og stuðlar að auknum stöðugleika. Þetta þýðir að óteljandi hátekjuþrep eru í raun innbyggð í okkar skattkerfi. Sérstakt hátekjuþrep hlýtur því að orka tvímælis.


Herra forseti.

Sjávarútvegsráðherra hefur nýlega kynnt tillögur nefndar um stjórn fiskveiða og hefur þrátt fyrir allt náðst meiri sátt um þær tillögur en títt er og er þó ágreiningur nægur. Meirihluti myndaðist í nefndinni, en einn stjórnarþingmaður hefur fyrirvara og stjórnarandstaðan er þverklofin í málinu. Bendir þó flest til þess að byggja megi í öllum meginatriðum á áliti meirihluta nefndarinnar. Augljóst er að ríkt tillit hefur verið tekið til ýtarlegrar skýrslu svokallaðrar auðlindanefndar, þótt ekki sé þar hverjum bókstaf fylgt. Nú tekur við meðferð málsins í ríkisstjórn og þingflokkum og loks hér á Alþingi sjálfu og er óskandi að sem flestir rísi undir því að horfa fremur til heildarhagsmuna í málinu en að hengja sig fasta í smærri atriði, sem sagan sýnir að vonlítið er að ná meirihluta um. Pólitískur keilusláttur hefur gert íslenskum sjávarútvegi mikinn skaða síðustu ár og áratugi og er mál að linni.

Staða sjávarútvegsins er athyglisverð um þessar mundir. Þegar horft er til árstíðabundinna uppgjöra mætti ætla að allt væri á vonarvöl. Það er vegna reglna um að færa beri í einu lagi áhrif gengisbreytinga, þótt þær komi fram á löngum tíma í rekstri fyrirtækjanna. Hátt verð á afurðum, sem hækkar enn vegna þróunar gengis, er á hinn bóginn ekki fært til bókar á sama tíma. Þessar breytingar gera miklu meira en vega upp þann aflasamdrátt sem verður vegna óhjákvæmilegra ákvarðana um kvóta. Ekki er vafi á því að þegar hin jákvæðu teikn fara að skila sér á blað munu þau ekki eingöngu hafa jákvæð áhrif í sjávarútvegsfyrirtækjunum heldur á nær allan hlutabréfamarkaðinn. Enn er sjávarútvegurinn mesti örlagavaldurinn í íslensku efnahagslífi, þótt aðrir þættir séu að festa sig í sessi. Okkur bar að styðja vöxt nýrra greina. Við höfum fylgst með því á undanförnum árum, hvernig nágrannar okkar Írar hafa sveigt til reglur og viðteknar hugmyndir, til að greiða leið nýrra áhugaverðra fyrirtækja inn í sitt efnahagslíf. Eins og fyrr sagði er ríkisstjórnin að ræða einn þátt í slíku og hann ekki lítinn, sjálft skattaumhverfið. Við eigum ekki að láta við það sitja, því við sérstakar aðstæður getur verið rétt að horfa til enn fleiri átta, ef gullin tækifæri gefast hér, eins og hafa gefist á Írlandi. Það er ástæða til að sýna meiri djörfung í þeim efnum en við höfum áður gert.

Ágætis horfur eru nú í orkuiðnaði landsmanna og er þýðingarmikið að við nýtum okkur þá möguleika. Virkjunin við Kárahnjúka er mjög álitlegur kostur, hvernig sem á málið er litið og væri mikill skaði ef það stóra tækifæri gengi okkur úr greipum. Ekki liggur fyrir hvort samdráttur í flugumferð hefur áhrif á álframleiðslu og álverð í heiminum til lengri tíma, en þessi iðnaður hefur staðið vel af sér sveiflur á fyrri óvissu skeiðum. Því ætti ekki að vera ástæða til að ætla að nýliðnir atburðir dragi varanlega úr þeim mikla áhuga, sem vart hefur orðið að undanförnu, um auknar fjárfestingar í þessum greinum hér á landi.


Herra forseti.

Með markvissum hætti hefur verið dregið úr þenslu á undanförnum misserum. Það var ætíð sagt að sú aðgerð ætti að taka töluverðan tíma því nauðhemlun í efnahagslífinu myndi gera meira ógagn en gagn. Nú er ljóst að nokkuð dregur úr hagvexti á þessu ári. Viðskiptahalli fer ört minnkandi og þar með dregur úr þrýstingi á gengið. Fyrirliggjandi spár benda til þess að á næsta ári gæti orðið um lítilsháttar samdrátt að ræða og viðskiptahalli haldi áfram að minnka, jafnframt því sem ört dragi úr verðbólgu. Það er því kominn rétti tíminn til að búa í haginn fyrir nýtt hagvaxtarskeið. Hér munu fyrirhugaðar skattalækkanir gegna þýðingarmiklu hlutverki auk þess sem forsendur ættu brátt að vera fyrir vaxtalækkun. Einnig er því spáð að afkoma fyrirtækja í útflutningi og samkeppnisgreinum muni batna verulega á næstu mánuðum. Ennfremur er nú unnið ötullega að undirbúningi nýrra og arðbærra fjárfestinga, einkum í stóriðju en ákvarðanir um slíkar framkvæmdir gætu haft áhrif þegar á næsta ári. Það er því flest sem bendir til þess að um nokkurn hagvöxt gæti orðið að ræða á næsta ári þegar áhrifa aðgerða fer að gæta, ef efnahagsframvindan á alþjóðavettvangi setur ekki strik í reikninginn.

Áætlanir benda til að hagvöxtur verði um 2,5% á ári frá 2003 til 2006 og viðskiptahalli haldi áfram að minnka. Ef ráðist verður í þær stóriðjuframkvæmdir sem nú eru í undirbúningi verður hagvöxturinn talsvert meiri. Það eru því allar forsendur til þess að hagur þjóðarinnar geti dafnað vel á næstu árum.

Á undanförnum árum hafa heildarframlög til rannsókna og þróunar á Íslandi aukist hröðum skrefum. Aukningin hefur fyrst og fremst orðið vegna aukinnar þátttöku fyrirtækja í rannsóknum en einnig með aukningu rannsókna á vegum hins opinbera samhliða uppbyggingu innan vébanda háskólans. Samhliða þessari þróun hefur afrakstur og árangur af rannsóknastarfsemi vaxið ört. Það sést í fjölmörgum nýjum tæknifyrirtækjum, endurnýjun og vexti eldri fyrirtækja og fjölgun starfa á sviði hátæknigreina. Þetta er áberandi í hugbúnaðargerð, lækninga- og stoðtækjaframleiðslu, lyfjaþróun, líftækni, erfðavísindum og fleiri greinum.

Hluta þessa árangurs má rekja til þeirrar hvatningar sem efling rannsóknasjóða hefur haft hér á landi og þeirra vinnubragða sem tekin voru upp við mat á umsóknum í samkeppni og eftirliti með nýtingu styrkjanna samkvæmt samningum um einstök verkefni. Allir tiltækir mælikvarðar benda til þess að sú fjárfesting hafi skilað sér vel. Breytt efnahagsumhverfi og aukið frelsi á fjármálamarkaði á tíunda áratugnum hefur einnig skapað mikilvægar forsendur þess að þekkingin nýtist með þessum hætti.

Að undanförnu hefur verið unnið að endurskoðun laga sem þessir þættir lúta. Vægi málaflokksins verður aukið með því að stefnumótun fari fram í ráði sem starfi undir stjórn forsætisráðherra. Þar munu ráðherrar auk vísindamanna og fulltrúa atvinnulífs móta stefnu í málefnum rannsókna og þróunar. Er þetta nýlunda á Íslandi.

Nú er ljóst orðið að stærstu einkavæðingaráfangar ríkisstjórnarinnar munu nást á þessu kjörtímabili. Sala á hlutabréfum í Landssímanum hófst í fyrra mánuði. Nokkurt veður hefur verið gert út af þeirri sölu og dræmari undirtektum almennings og stofnfjárfesta en vænta hefði mátt, þegar haft var í huga um hve gott fyrirtæki var að ræða. Gengu sumir jafnvel svo langt að fullyrða að útkomunni yrði jafnað við stóráfall! Það er reyndar alþekkt, að í dægurumræðunni hafa orð fallið mjög í verði. Fréttastofur kalla sérhvert smáverkfall í opinberum rekstri "neyðarástand", en það er sama orðið og notað var til að lýsa ástandinu á Manhattan í New York eftir árásina miklu. Vissulega hefði salan á bréfum í Landssíma Íslands mátt ganga greiðar fyrir sig, en enginn skaði er orðinn, ekkert áfall varð. Íslendingar munu áfram fá tækifæri til að eignast bréf í Landssímanum og stofnfjárfestar fá, þótt síðar verði, góð tækifæri til að átta sig og sjá til sólar og það sem öllu máli skiptir er að staða Landssímans er óbreytt. Undirbúningur að sölu á hlutum ríkisins í Landsbanka Íslands heldur áfram og gengur sú sala vonandi vel.


Herra forseti.

Nú sem fyrr taka heilbrigðismálin til sín drýgstan hlut ríkistekna og eftir því sér enginn, þótt nauðsynlegt sé að sýna gætni og útsjónarsemi við notkun þeirra miklu fjármuna. Heilbrigðisráðherra hefur undirstrikað að megin markmið ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum sé að tryggja landsmönnum heilbrigðisþjónustu þar sem allir hafi jafnan rétt, óháð aðstæðum og búsetu. Á þetta ekki hvað síst við um aðgengi og þjónustu heilsugæslunnar, sem er grunnstig heilbrigðisþjónustunnar. Framundan er endurskipulagning heilsugæslunnar, bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni. Sérstaklega verður hugað að mannaflaþörfinni og viðbrögðum við þeirri manneklu, sem nú er við að fást.

Annað stórverkefni á sviði heilbrigðismála er að leggja grunn að aðgerðum í geðheilbrigðismálum í samræmi við þær áherslur sem lagðar eru í "Heilbrigðisáætlun til ársins 2010" sem samþykkt var á Alþingi í vor. Geðraskanir eru meðal algengustu sjúkdóma á Íslandi. Það eru æði mörg íslensk heimili, sem þurfa að kljást við þennan vanda, þótt það fari ekki alltaf hátt. Þessir sjúkdómar eru taldir valda meira vinnutapi og kostnaði fyrir samfélagið en flestir aðrir sjúkdómsflokkar sem undirstrikar mikilvægi þess að bregðast við þeim af mikilli alvöru.


Herra forseti.

Ég hóf ræðu mína á að ræða alþjóðamál enda tilefnið ærið. Við Íslendingar viljum taka þátt í þróun alþjóðamála. Við göngum hiklaust bæði til samvinnu og samkeppni við aðra. Utanríkisráðherra hefur boðið til utanríkisráðherrafundar NATO hér á landi næsta vor. Líklegt er að þar verði þýðingarmiklar ákvarðanir undirbúnar, ekki síst þær sem lúta að stækkun NATO. Afstaða Íslands er skýr í því máli og ekki eru efni til þess nú að ætla að árásin á Bandaríkin, þurfi að breyta viðhorfum vestrænna ríkja til stækkunar bandalagsins.

Samskiptin við Evrópusambandið eru Íslendingum afar mikilvæg. Af þeim sökum og í samræmi við stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er af hálfu stjórnvalda fylgst náið með þróun mála í sambandinu.

Ekkert hefur komið fram sem gefur tilefni til að huga nú að aðild að ESB. Sú staðreynd að enginn stjórnmálaflokkanna hefur gert umsókn um aðild að Evrópusambandinu að stefnumáli segir mikla sögu um hvernig þessi mál snúa að Íslendingum. Þetta má skýra með því að samningurinn um hið evrópska efnahagssvæði virkar eins og til var ætlast og tryggir alla helstu viðskiptahagsmuni Íslands í Evrópusambandinu. Það breytir ekki því að huga þarf að tæknilegri aðlögun samningsins að samrunaþróuninni í ESB á öðrum sviðum en lýtur að viðskiptum. Þá má stækkun sambandsins til austurs ekki skaða íslenska viðskiptahagsmuni í umsóknarríkjunum, sem vissulega eru til staðar, en það mál ber að leysa samkvæmt grundvallarreglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Þannig stendur upp úr að viðskiptahagsmunir Íslendinga í Evrópu þrýsta ekki á um inngöngu í ESB. Jafnframt blasa áfram við margir þekktir ókostir fyrir Ísland af aðild að ESB. Af þessu leiðir að færa yrði einhver önnur rök fyrir inngöngu í ESB en lúta að áþreifanlegum hagsmunum og meginforsendum lífskjara þjóðarinnar.

Alþjóðavæðingin veitir Íslendingum ný tækifæri og það væri óráðlegt fyrir Ísland að binda sig um of Evrópusambandinu. Aðild að því felur í sér aðild að tollabandalagi og að því leyti er ESB lokaður félagsskapur. Jafnframt er vitað að opin og fjölbreytt viðskipti við aðrar þjóðir eru forsenda efnahagslegrar velgengni Íslendinga.


Herra forseti. Góðir Íslendingar.

Þingstörf eru að hefjast og vænta má fjörlegs þinghalds, þótt alvara starfsins víki hvergi. Ríkisstjórnin væntir góðs samstarfs við stjórnarandstöðuna um framgang mála, þótt hún biðjist ekki undan gagnrýni, rökræðum og hörðum deilum, eftir því sem við á. Þjóðin veit að þrátt fyrir átök á Alþingi stendur sameiginlegur vilji þingheims alls til þess að vinna landi sínu og þjóð allt það gagn sem hann má.

FYLGISKJAL : Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir 127. löggjafarþing Alþingis



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum