Hoppa yfir valmynd
17. júní 2006 Forsætisráðuneytið

Ávarp Geirs H. Haarde, forsætisráðherra á Austurvelli 17. júní 2006

Góðir Íslendingar.

 

Hátíðisdagurinn okkar góði, 17. júní er runninn upp, fæðingardagur Jóns Sigurðssonar forseta. Í dag eru liðin 195 ár frá fæðingu hans. Þegar við söfnumst hér saman á Austurvelli við styttuna af Jóni er það til að færa Íslandi feginsóð og tryggðarheit, eins og Hannes Hafstein orðaði það: 

 Landið góða, landið kæra,

langtum betra en nokkur veit,

þér ber ætíð fyrst að færa,

feginsóð og tryggðarheit. 

 Jón Sigurðsson var djarfhuga baráttumaður, knúinn áfram af sannfæringu um stefnumál sín og vissu um hvernig málum þessarar þjóðar yrði best skipað. Senn er tímabært að landsmenn geri sér hugmyndir um hvernig skuli fagna tveggja alda fæðingarafmæli þessarar frelsishetju Íslendinga.  

 Meginhugmyndir Jóns Sigurðssonar forseta um þjóðfrelsi og atvinnufrelsi eru sannarlega enn í fullu gildi þótt aðstæður séu gjörbreyttar. Á þeim hugmyndum grundvallast þjóðfélagsskipan okkar enn í dag og svo verður vonandi um langan aldur. Fullveldi okkar og sjálfstæði eru ekki aðeins rómantískt metnaðarmál fámennrar þjóðar heldur mikil verðmæti í sjálfu sér eins og saga þjóðarinnar og samfellt framfaraskeið á síðustu öld sannar svo rækilega.  

 Þar fór saman þjóðfrelsi og framfarasókn, bjartsýni og athafnafrelsi.

 Forsendan fyrir því að frelsi til athafna og atvinnu skili fullum árangri er að einstaklingar og samtök þeirra fái nægjanlegt svigrúm fyrir þann sköpunarkraft sem í þeim býr. En því þarf líka að fylgja frelsi frá kúgun og ofstjórn. 

 Frelsið og fullveldið eru samtvinnuð hugtök í hugum okkar flestra með sama hætti og sjálfstæðið og sókn til bættra lífskjara og framfara hafa farið saman. Með þeim miklu verðmætum sem skapast hafa í landinu hafa forsendur jafnframt batnað til að hlúa betur að því sem gerir okkur að þjóð, arfinum sem felst í menningu okkar, sögu og tungu. Þau verðmæti mega ekki gleymast í allri þeirri velmegun sem þjóðin býr nú við eða í hinni glæsilegu útrás atvinnufyrirtækjanna til annara landa. 

 Forfeður okkar numu hér land í leit að frelsi frá ofríki og í sókn eftir betri lífskjörum. Enn í dag sækir hingað fólk sem trúir því að íslenskt samfélag bjóði þeim tækifæri til að finna starfskröftum sínum, hugviti og hæfileikum farveg. Við eigum að gleðjast yfir því að landið okkar og samfélag hafi þetta aðdráttarafl og fagna því að stöðugt fleiri vilji njóta þeirra forréttinda að vera Íslendingur. 

 Stór þáttur í því að vera Íslendingur er að tala íslensku. Þess vegna verðum við að gera nýjum íbúum landsins kleift að læra hana.  

 Ísland, Ísland! Öllu skærri

okkur hljómar tunga þín;

hún skal nafn þitt, móðir, mæra

meðan vornótt björt þér skín. 

 Þannig orti skáldkonan Hulda til móðurmálsins.

 

Íslensk tunga er okkur öllum kær og hana viljum við eiga sameiginlega með þeim sem hingað koma og vilja deila kjörum með okkur í þessu landi. 

 Sú leið sem Íslendingar hafa valið á grundvelli eigin fullveldis hefur skilað ótrúlegum árangri. Ýmsar aðrar þjóðir telja sig geta af okkur lært, nú síðast Svartfellingar, en við urðum fyrsta þjóðin til að viðurkenna fullveldi þeirra fyrir fáum dögum, er þeir rufu ríkjasamband sitt við Serbíu. Hafa þeir þegar sent hingað fulltrúa til að kynna sér ríkisfjármál o.fl. 

 Grettistaki hefur verið lyft á Íslandi á umliðnum árum og breytingar verið miklar og örar. Að mörgu leyti eru blómatímar á Íslandi í dag og efnahagur landsmanna hefur aldrei í sögunni verið betri, þótt vissulega taki nokkuð í þegar þjóðarskútan er á jafnmikilli siglingu og nú. Allir hópar samfélagsins hafa það betra í dag en áður þótt þar með sé ekki sagt að allir séu sáttir við sitt hlutskipti.

 Það er hlutverk okkar stjórnmálamannanna og ýmissa samtaka í þjóðfélaginu að vaka yfir hag og velferð þeirra sem lakar eru settir en aðrir. Það mun mín ríkisstjórn gera. 

 Við þær aðstæður sem nú hafa skapast í efnahagsmálum er mikilvægt að samstaða náist milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að hraða því að verðbólga gangi niður og verja jafnframt þá lakast settu fyrir áhrifum hennar. 

 Ætti þá hvort tveggja að vera tryggt, vinnufriður í landinu út næsta ár og ró og stöðugleiki í efnahagslífinu á meðan atvinnulífið kastar mæðinni eftir gríðarlega uppbyggingu síðustu missera. 

 Allir verða að leggja sitt af mörkum til að tryggja stöðugleika á næstu árum. Þar verður ríkisvaldið að gera sitt, sömuleiðis aðilar vinnumarkaðarins, bankarnir og sveitarfélögin svo ég nefni til helstu aðila þessa máls. En fyrirtækin í landinu og heimilin öll verða jafnframt að kunna fótum sínum forráð og hafa hemil á neyslu sinni og eftirspurn eftir lánsfé. Í efnahagsmálum er sígandi lukka best og jafn lífskjarabati er heppilegri en sveiflur með miklum vexti sum árin en afturkipp þess í milli. 

 Ég vil nota þetta tækifæri og fullvissa alla tilheyrendur um að ríkisstjórnin mun gera sitt í þessu efni, þótt það geti kostað tímabundnar frestanir á opinberum framkvæmdum, skattalagabreytingar eða aðrar aðgerðir. 

 Íslendingar njóta óneitanlega trausts og virðingar á alþjóðavettvangi vegna þeirra framfara sem hér hafa orðið. Því er mikilvægt að við misstígum okkur ekki og missum ekki tök á þróun mála. Gleymum því þó ekki að þau úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir nú eru afleiðing mikillar velgengni – og að í samfélagi þjóðanna yrðu flestir sáttir við að taka við okkar vandamálum í staðinn fyrir sín eigin. Þetta mat kom meðal annars fram í nýlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar var farið lofsamlegum orðum um árangur síðustu ára – en einnig sagði þar að efnahagshorfur á Íslandi væru öfundsverðar. 

 Það er frumskylda þeirra sem fara með æðstu völd í landinu í umboði kjósenda að tryggja öryggi ríkisins, varðveita og styrkja þann fullveldisrétt sem við eigum í samfélagi þjóðanna. Það er ánægjuefni að nú hyllir undir samkomulag við nágranna okkar í Færeyjum og Noregi um skiptingu landgrunns í hinni svokölluðu síldarsmugu utan 200 mílna efnahagslögsögunnar. Á því sviði hefur enn verið unnið ötullega að vörslu íslenskra hagsmuna en jafnframt ruddar nýjar brautir í alþjóðarétti. Þess var nýlega minnst að 30 ár eru liðin frá útfærslunni í 200 mílur. Landhelgisgæslan gegndi viðamiklu hlutverki þá eins og í landhelgismálinu öllu. Nú er verið að efla gæsluna á nýjan leik í tengslum við breyttar aðstæður í leitar- og björgunarmálum hér á landi.

 Við Íslendingar höfum í meira en hálfa öld átt samvinnu um það við aðrar vestrænar þjóðir að tryggja öryggi Íslands. Þótt Íslendingar og Bandaríkjamenn séu iðulega ósammála hefur samvinna okkar um þessi mál verið með miklum ágætum allan þennan tíma. En vandasamt verkefni er fyrir höndum í varnarmálum þjóðarinnar því fyrir liggur að varnarliðið hverfur af landi brott nú í haust. Þess er nú freistað að ná samningum við Bandaríkjamenn um nýja skipan sem komið gæti í staðinn fyrir fasta viðveru Bandaríkjahers í landinu. Ég tel mögulegt að koma málum þannig fyrir að mikilvægustu þættir í öryggi landsins verði tryggðir. 

 Samstarfið við Bandaríkin í öryggis- og varnarmálum á sér langa og farsæla sögu og skynsamlegt er að treysta áfram á styrk Bandaríkjanna, sé þess kostur. Ríkisstjórnin er því staðráðin í að reyna til þrautar á næstunni að ná viðunandi niðurstöðu í viðræðum við Bandaríkjamenn á grundvelli varnarsamningsins frá 1951.  

 

 Góðir Íslendingar. 

 Sautjándi júní er dagur sem sameinar þjóðina. Í hinu gamla og virðulega Alþingishúsi hér handan götunnar vegast jafnan á ólík sjónarmið og afstaða til ríkisstjórna. Þar deila menn gjarnan hart eins og alþjóð veit en minna er fjallað um þá staðreynd að í flestum málum ríkir góð sátt. Í yfirliti sem nú liggur fyrir að loknum þingstörfum kemur í ljós að í 70% allra atkvæðagreiðslna er þingheimur samhljóða, aðeins í 30% þeirra koma fram mótatkvæði eða hjáseta, og alvarlegur ágreiningur er enn sjaldgæfari. Ég nefni þetta til að minna á að það er svo miklu meira sem sameinar okkur landsmenn en sundrar, um flest meginatriði samfélagsins erum við á sömu braut. Við megum ekki mikla fyrir okkur ágreining um mál sem munu sum hver litlu ráðu um hvernig okkur farnast á næstu árum og áratugum þótt sitt sýnist hverjum um úrlausnarefni dagsins. Við stefnum í rétta átt. 


 Góðir tilheyrendur. 

 Það var stuttur aðdragandi að þeim mannabreytingum sem gerðar voru í ríkisstjórn Íslands nú í vikunni. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka forvera mínum Halldóri Ásgrímssyni, fyrir hans miklu og farsælu störf í þágu þjóðarinnar um áratugaskeið.

 Við Íslendingar erum lánsöm þjóð með ríka lýðræðisvitund. Við okkur blasa möguleikar og tækifæri sem ekki þættu sjálfsögð víða annars staðar í heiminum. Um þessi lífsgæði þurfum við að standa vörð. Þess vegna er það áhyggjuefni að í sveitarstjórnarkosningunum í síðasta mánuði var kjörsókn minni en áður. Við megum ekki gleyma þeim fórnum sem færðar voru fyrir þann rétt að ráða eigin málum, eða þeim fórnum sem kúgaðar þjóðir víða um heim færa til þess að öðlast þann rétt að kjósa um eigin mál. Við eigum að stefna að því að vera áfram meðal þeirra þjóða þar sem þátttaka í kosningum er hvað best. Þannig er stjórnmálamönnum veitt nauðsynlegt aðhald og lýðræðinu og sjálfstæði þjóðarinnar sýnd tilhlýðileg virðing. 

 

Gleðilega þjóðhátíð.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum