Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2006 Forsætisráðuneytið

Ræða forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga

Góðir ráðstefnugestir, góðir sveitarstjórnarmenn.

Ég vil leyfa mér að byrja á því að óska ykkur til hamingju með kjör, eða eftir atvikum endurkjör, ykkar í sveitarstjórnir landsins í kosningunum á síðastliðnu vori. Sérstaklega vil ég óska nýjum formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga til hamingju með hans kosningu í þetta mikilvæga starf sem og hinni nýju stjórn sem með honum var kjörin. Ríkisstjórnin hyggur gott til samstarfsins við nýjan formann og nýja stjórn um leið og við kveðjum fyrrverandi stjórn og fyrrverandi formann með þökkum eftir langt og farsælt starf á þessum vettvangi.

Verkefni ykkar eru mörg og mikilvæg og það er mikil nauðsyn að milli fulltrúa almennings í sveitarstjórnum og á Alþingi og í ríkisstjórn ríki gott traust. Gott samstarf þessara aðila er lykilatriði við úrlausn ýmissa framfaramála.

Sveitarstjórnirnar standa íbúum nærri og glöggir sveitarstjórnarmenn fylgjast vel með lífsbaráttunni í heimabyggð. Því er mark takandi á því sem slíkir menn segja um málefni líðandi stundar í hverju byggðarlagi.

Ég kem í dag á ykkar fund í fyrsta sinn sem forsætisráðherra og það er ánægjulegt að endurnýja gömul kynni af fjármálaráðstefnu sveitarfélaga þar sem ég var reglulegur gestur árum saman sem fjármálaráðherra. Þrátt fyrir minn nýja hatt hef ég enn sömu meginsjónarmið og fyrr varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga í bráð og lengd. Það er mikilvægt að þessi samskipti séu hreinskiptin og byggi á traustum grunni. Þetta skiptir ekki aðeins máli í okkar innbyrðis samskiptum heldur ekki síður hvað varðar heildarhagsmuni íslenska þjóðarbúsins og almenna hagstjórn í landinu.

Þær breytingar sem gengið hafa yfir í hinu alþjóðlega efnahagsumhverfi á síðasta einum og hálfa áratug eða svo með stórauknu frelsi í milliríkjaviðskiptum, hvort sem er með vörur, þjónustu, fjármagn eða vinnuafl, hafa kallað á róttæka endurskoðun á fyrri gildum á þessu sviði. Þetta lýsir sér einkum í frjálsara og opnara viðskiptaumhverfi, minni ríkisafskiptum og þar með sölu ríkisfyrirtækja og einkavæðingu í stórum stíl. Sömuleiðis stórfelldum skattalækkunum, jafnt á fyrirtæki sem einstaklinga.

Það hefur tæplega farið framhjá neinum hér að við Íslendingar höfum ekki setið aðgerðarlausir í þessum efnum. Þvert á móti höfum við að mörgu leyti verið í fararbroddi þjóða hvað varðar róttækar skipulagsbreytingar í okkar efnahagslífi. Þessar breytingar hafa leyst úr læðingi mikinn sköpunarkraft í íslenskum þjóðarbúskap sem hefur skilað ríkulegri ávöxtun, ekki aðeins hér heima við heldur einnig víða erlendis, jafnvel svo mikið að ýmsum þykir nóg um.

Þessi þróun hefur skilað sér með margvíslegum hætti. Íslensk fyrirtæki hafa vaxið og dafnað sem aldrei fyrr. Þessi vöxtur hefur aftur skilað sér til heimilanna í meiri kaupmáttaraukningu en þekkst hefur á byggðu bóli á jafnskömmum tíma. Sömu sögu er að segja af atvinnuástandinu. Þar skerum við Íslendingar okkur úr meðal flestra ef ekki allra þjóða heims þar sem við höfum orðið að flytja inn vinnuafl í stórum stíl frá öðrum þjóðum til þess að sinna þeim störfum sem hér hafa verið í boði á undanförnum árum.

Það er líka ánægjulegt að þessi þróun hefur ekki farið framhjá ýmsum þeim aðilum á alþjóðavettvangi sem hafa þann starfa að fylgjast með stöðu efnahagsmála einstakra landa og gefa þeim einkunnir. Á slíka mælikvarða mælist Ísland yfirleitt í einu af efstu sætunum, hvort sem það snýr að samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs, frelsi í viðskiptum og gagnsæi í viðskiptaháttum, hagstæðu viðskiptaumhverfi eða heilbrigðu og óspilltu efnahagsumhverfi.

Velgengni Íslands á efnahagssviðinu hefur óhjákvæmilega fylgt vaxandi áhugi og athygli á því sem hér fer fram. Flest er það af hinu góða. En eins og gjarnan vill verða þá fylgir stundum böggull skammrifi. Þessu fengum við að kynnast fyrr á þessu ári þegar óvönduð umfjöllun nokkurra erlendra aðila hleypti af stað ákveðinni keðjuverkun atburða sem aftur skapaði óróa í okkar litla hagkerfi. Þótt þróun efnahagsmála frá því að þetta gerðist hafi kollvarpað þessum hrakspám hefur þessi atburðarás orðið til þess að færa Ísland inn í sviðsljós alþjóðlegrar efnahagsumræðu. Í þessu endurspeglast veikleiki þess að Ísland er og mun alltaf verða lítið hagkerfi, opið fyrir utanaðkomandi áföllum, jafnvel af hinu minnsta tilefni.

Hvar koma sveitarfélögin inn í þetta mál ? Jú, ég tel að hér séum við komin að kjarna ákveðins máls hvað varðar samskipti ríkis og sveitarfélaga. Á undanförnum árum hafa sífellt fleiri verkefni verið að færast frá ríki á hendur sveitarfélaga. Stærsta verkefnið var tilflutningur grunnskólans á árinu 1996. Allar götur síðan hafa verið umræður um frekari tilflutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga, sem einkum hafa snúið að málefnum aldraðra og fatlaðra. Ég er sammála þeim sjónarmiðum að ýmis nærþjónusta, eins og þjónusta við aldraðra og fatlaða, sé betur komin hjá sveitarfélögum en ríki. Um þessi mál er fjallað um af yfirvegun í ályktun ykkar landsþings auk þess sem þar er vikið sérstaklega að skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga. Um þau mál þurfa aðilar augljóslega að ræða og reynslan á undanförnum árum sýnir að fordómalausar viðræður leiða oftast til sanngjarnrar niðurstöðu. Auka samráðsfundur aðila, sem formaður sambandsins vék að í ræðu sinni, gæti verið góð byrjun á því ferli.

Bein afleiðing aukinnar tilfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga er eðlilega að vægi sveitarfélaga í búskap hins opinbera, og þar með í þjóðarbúskapnum, hefur aukist. Í þessu felst jafnframt að vægi ríkisins fer minnkandi. Þetta er æskilegt og eftirsóknarvert frá sjónarhóli nærþjónustu við íbúana. Á hinn bóginn skapar þessi þróun ákveðna erfiðleika þegar kemur að heildarhagsmunum íbúanna í landinu, nánar tiltekið hvað varðar almenna hagstjórn.

Þróun undanfarinna ára er glöggt dæmi um þetta. Þegar ákvarðanir um stóriðjuframkvæmdirnar á Reyðarfirði og Grundartanga höfðu verið teknar lá fyrir að ríkið yrði að beita ítrasta aðhaldi í sínum fjármálum. Við þessu var þess vegna brugðist með myndarlegum hætti með stórauknu aðhaldi í rekstri og niðurskurði framkvæmda.

Aðgerðir á vegum sumra sveitarfélaga gengu hins vegar í þveröfuga átt þar sem framkvæmdir á þeirra vegum jukust enn meira en sem nam samdrætti í framkvæmdum á vegum ríkisins. Þetta varð ekki til þess að auðvelda hagstjórnina

Ég tel þess vegna ákaflega brýnt að finna samstarfi ríkis og sveitarfélaga þann farveg að stöðugleika efnahagsmála sé ekki stefnt í hættu. Þetta er ekki einfalt mál miðað við okkar samfélagslegu uppbyggingu þar sem sveitarfélög eru afar sjálfstæðar einingar í okkar stjórnsýslukerfi, öfugt við það sem t.d. tíðkast í Danmörku og víðar. Um þetta mál fjallaði ég sérstaklega í fyrstu ræðu minni sem fjármálaráðherra á þessum vettvangi árið 1998 og ákvæði um þetta eru nú komin í samstarfssáttmála ríkis og sveitafélaga.

Víða í okkar nágrannalöndum hafa verið settar sérstakar reglur sem banna eða takmarka lántökur sveitarfélaga og/eða hallarekstur; auk þess eru gjarnan settar tilteknar hömlur á útgjaldaþróun og tekjuöflun. Hér á landi er sem kunnugt er í gildi lögbundið þak á útsvar og fasteignagjöld sveitarfélaganna. Sömuleiðis er í sveitarstjórnarlögum ákvæði sem mælir fyrir um að sveitarfélög skuli rekin hallalaus og að sérstakri eftirlitsnefnd skuli falið að fylgjast með því að eftir þessu ákvæði sé farið. Þetta ákvæði hefur þó ekki komið í veg fyrir nær samfelldan hallarekstur sveitarfélaganna í heild mörg undanfarin ár.

Sveitarfélögin eru misstór og vega þar af leiðandi mismikið í efnahagslegu tilliti. Fyrir hagstjórnina skiptir auðvitað mestu að stærstu sveitarfélögin gangi í takt við almenna hagstjórn á hverjum tíma.

Nýr samstarfssáttmáli ríkis og sveitarfélaga sem var undirritaður fyrr á þessu ári hefur mikla þýðingu í að stilla saman áherslur þessara aðila í hagstjórn. Í sáttmálanum er mun ítarlegar kveðið á um samskipti ríkis og sveitarfélaga en verið hefur. Megináherslan er lögð á að efla efnahagslegt samráð og auka formfestu í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Settir hafa verið á fót formlegir samráðshópar á sviði efnahagsmála og kjaramála en á þessum sviðum skiptir mestu að ríki og sveitarfélög hafi sameiginlega sýn á stöðu mála.

Ég fagna þessum nýja samstarfssáttmála og tel að með honum sé stigið mikilvægt skref í rétta átt. Reglubundið samráð og skoðanaskipti milli ríkis og sveitarfélaga er nauðsynlegur þáttur í því að menn séu samstiga í öllum meiri háttar efnahags- og fjárhagslegum ákvörðunum.

Þetta á ekki aðeins við um ákvarðanir sem snúa að framkvæmdum á vegum sveitarfélaganna heldur ekki síður ákvörðunum í kjaramálum. Þeir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga sem sinna kjaramálum hafa um langt árabil haft með sér óformlegt samráð um kjaramál. Hefur það bæði snúið að samvinnu milli aðila í aðdraganda samningsgerðar sem og upplýsingamiðlun og samráðs um framkvæmd kjarasamninga. Í upphafi árs 2003 var þetta samráð formgert með samþykkt verklagsreglna samráðsnefndar ríkis og sveitarfélaga sem síðan var endurnýjað og aðlagað samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um samráð í efnahagsmálum á þessu ári. Samráð þetta hefur reynst vel og í aðdraganda síðustu kjarasamningsgerðar voru að auki haldnir óformlegir samráðsfundir með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins. Má fullyrða að það samráð hafi skilað sér í því að meiri samhljómur var í útfærslu kjarasamninga, einkum hvað varðar samræmingu á gildistíma og kostnaðaráhrifum þeirra.

Það er hins vegar mikilvægt ef slíkt samráð á að vera trúverðugt að allir sem að því koma taki það alvarlega og virði þær niðurstöður sem af því leiða. Það verður að segjast eins og er að það hefur örlað á því að þegar hinum eiginlegu kjarasamningum sleppir hafi einstaka aðilar talið sér heimilt að útfæra þá með öðrum hætti án þess að gæta að samráði með sama hætti og í aðdraganda samningsgerðar. Þetta er óheppilegt og gengur þvert á þá hugmyndafræði sem liggur að baki samstarfssáttmálans.

Í árslok 2005 var undirritað samkomulag Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar um kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla sem hafa í för með sér kostnaðaráhrif fyrir sveitarfélögin. Samkvæmt því verða héðan í frá öll stjórnarfrumvörp og reglugerðardrög, sem undirbúin eru í ráðuneytum og að einhverju leyti hafa bein áhrif á sveitarfélögin, kostnaðarmetin með tilliti til heildaráhrifa á fjárhag sveitarfélaga. Ég vænti þess að þetta samkomulag hvetji sveitarstjórnir til að setja sér þá almennu reglu að leggja kostnaðarmat til grundvallar öllum stærri ákvörðunum sínum. Undirbyggð ákvarðanataka með þessum hætti, hvort heldur er hjá ríki eða sveitarfélögum, skýtur styrkari stoðum undir hagstjórn.

Góðir ráðstefnugestir

Um mitt þetta ár skilaði nefnd skipuð fulltrúum stjórnvalda og eldri borgara sem þáverandi forsætisráðherra skipaði í ársbyrjun 2006 til að fjalla um lífeyrismál, búsetu- og þjónustumál aldraða sameiginlegri niðurstöðu. Í framhaldi af því gáfu ríkisstjórnin og Landssamband eldri borgara út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þessari niðurstöðu var fagnað og jafnframt kynnt áform ríkisstjórnarinnar í málefnum aldraðra sem koma til framkvæmda næstu fjögur árin.

Ríkisstjórnin vinnur nú að framkvæmd þessara tillagna. Þar er meðal annars kveðið á um hækkun lífeyrisgreiðslna, sameiningu og einföldun bótakerfis almannatrygginga auk þess sem dregið er úr tekjuskerðingu bóta m.a. vegna eigin tekjuöflunar aldraðra. Þá verða starfslok gerð sveigjanleg þannig að lífeyrisgreiðslur hækka við frestun á töku lífeyris.

Ríkisstjórnin mun ennfremur beita sér fyrir verulega auknu fjármagni til framkvæmda og reksturs vegna átaks til að stytta biðlista eftir hjúkrunarrými og mun fjármagn úr Framkvæmdasjóði aldraðra framvegis ganga alfarið til uppbyggingar öldrunarstofnana. Heilbrigðisráðherra hefur þegar fylgt þessu máli eftir á Alþingi.

Ég vek athygli á að nokkrar tillögur nefndarinnar snúa beinlínis að sveitarfélögum. Þar vil ég nefna tillögu um að áhersla verði færð frá stofnanaþjónustu en þess í stað verði heimaþjónusta stóraukin og að framboð þjónustu- og öryggisíbúða verði fullnægjandi. Jafnframt lagði nefndin til að ríkisvaldið og Samband íslenskra sveitarfélaga endurskoði verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi þjónustu og búsetumál aldraða sem fyrst. Þessir málaflokkar falla mjög vel að þeim verkefnum sem sveitarfélögin annast í dag, t.d. félagsþjónustu og fræðslumálum. Hér þarf hins vegar að huga að fjárhagsstöðu sveitarfélaganna.

Sveitarfélögin eru misvel stöndug eins og allir vita. Þetta sjáum við m.a. hér á suðvesturhorninu, þar sem dæmi eru um sveitarfélög sem ekki nýta tekjustofna sína til fulls, hvorki útsvar né fasteignaskatt. Einnig má finna dæmi um sveitarfélög þar sem ýmsar kostnaðarsamar ákvarðanir hafa skaðað fjárhagsstöðuna.

Þótt verulegur árangur hafi náðst í sameiningu sveitarfélaga er smæð sumra þeirra enn einn helsti þröskuldur þess að unnt sé að færa viðamikil verkefni til þeirra frá ríkinu þar sem einungis rúmur þriðjungur sveitarfélaga hefur fleiri en 1.000 íbúa.

Íslensk sveitarfélög þurfa því að halda áfram að styrkjast sem stjórnunareiningar til að geta tekið að sér aukin verkefni. Það verður aðeins gert með áframhaldandi sameiningu sveitarfélaga. Frumkvæði að frekari sameiningu verður hins vegar að koma frá sveitarfélögunum sjálfum og sveitarstjórnir á hverjum stað verða að taka þær ákvarðanir á eigin forsendum í samráði við íbúana.

Það kann hins vegar að vera nauðsynlegt þegar hugað er að flutningi verkefna til sveitarfélaga að víkja umræðunni frá þeim veikleikum sem fylgja fámennustu sveitarfélögunum og þess í stað að horfa á tækifærin sem eru til staðar. Þannig má hugsa sér að fela stærstu sveitarfélögum í hverjum landshluta að þjónusta hin minni. Slíkt fyrirkomulag þekkist erlendis þótt það eigi sér ekki fordæmi að neinu marki hér á landi. Þjónustusvæðin miðast þá t.d. við fyrirfram skilgreindan fjölda íbúa og landfræðilegar og samgöngulegar aðstæður á tilteknu svæði – í stað þess að miðast við sveitarfélagamörk.

Nefna má að fámenn sveitarfélög í Eyjafirði og nágrenni hafa gert þjónustusamninga við Akureyrarkaupstað um flesta ef ekki alla þætti félags- og skólaþjónustu. Einnig hafa verið gerðir einfaldari samstarfssamningar um einstök verkefni sem oftar en ekki tengjast íþrótta- eða menningarstarfsemi ýmis konar.

Hér er verk að vinna og engar einfaldar lausnir í sjónmáli. Aðalatriðið er hins vegar að hafa skýra framtíðarsýn og hugsa í lausnum, ekki vandamálum.

Góðir ráðstefnugestir.

Ég hef hér tæpt á nokkrum þáttum sem snúa að samskiptum ríkis og sveitarfélaga í næstu framtíð. Ég tel mikið hafa áunnist á undanförnum árum og að þessi samskipti séu komin í farsælan farveg. Alltaf má þó gera betur og framundan eru mörg óleyst en um leið áhugaverð verkefni. Um leið og ég þakka ykkur sveitarstjórnarmönnum fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum lýsi ég mig og ríkisstjórnina reiðubúna til áframhaldandi samstarfs í þágu umbjóðenda okkar allra.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum