Hoppa yfir valmynd
26. mars 2007 Forsætisráðuneytið

Ávarp Geirs H. Haarde forsætisráðherra á morgunverðarfundi Rannsóknarmiðstöðvar HR í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum

Heiðraða samkoma.

Það er mér sönn ánægja að fá að vera með ykkur þegar kynntar eru niðurstöður hinnar árlegu Global Entrepreneurship Monitor (GEM) rannsóknar fyrir Ísland. Rannsóknin veitir okkur upplýsingar um hvernig við stöndum okkur í frumkvöðlastarfsemi í samanburði við 40 aðrar þjóðir.

Fyrri skýrslur hafa sýnt að okkur Íslendinga skortir ekki kraftinn á sviði frumkvöðlastarfsemi. Um tíundi hver Íslendingur stundar frumkvöðlastarfsemi og meira en helmingur þjóðarinnar telur sig að einhverju leyti búa yfir þeirri færni sem þarf til þess að stunda frumkvöðlastarfsemi.

Hins vegar hefur Ísland skorið sig nokkuð úr öðrum hátekjuþjóðum varðandi lágt hlutfall frumkvöðlastarfsemi innan þekkingariðnaðarins. Þannig er hlutfall þeirra sem stunda frumkvöðlastarfsemi og lokið hafa háskólanámi mun lægra á Íslandi í samanburði við önnur hátekjulönd. Þá hefur skort verulega á að konur nýti þau tækifæri sem felast í frumkvöðlastarfsemi. Það verður því fróðlegt að heyra hvort þær niðurstöður sem kynntar verða hér á eftir fela í sér breytingar hvað þetta varðar.

Við Íslendingar höfum í gegnum aldirnar tekist á við aðsteðjandi úrlausnarefni með kjarki og árræðni. Á liðinni öld tókst okkur, knúin áfram af eigin framtaki og úrræði, að brjótast út úr almennri fátækt og einangrun til þess árangurs að fáar þjóðir búa íbúum sínum betri aðstæður til daglegs lífs. Um ókomin ár mun velferð þjóðarinnar ráðast af því hvernig okkur tekst til við að hagnýta frumkvæði, áræðni og þekkingu íslenskra ungmenna. Íslensk stjórnvöld eru sér vel meðvituð um gildi menntunar til að efla frumkvæði og framfarir. Framlög ríkisins til háskólastarfsemi og vísindarannsókna nema á þessu ári um 22 milljörðum króna og hafa aukist að raungildi um 90% frá árinu 1998. Um fimmtán þúsund Íslendingar stunda nú háskólanám og endurmenntun og símenntun er öflugri en nokkru sinni. Framfarir í menntunarmálum má sjá stað vítt og breytt um landið og er Háskólinn í Reykjavík, þar sem við erum nú stödd, óræk sönnun þess.

Við Íslendingar höfum náð langt á braut framfara, þekkingar og velmegunar. En við ætlum okkur að ná lengra og gera betur. Skilyrði eru hér hagstæð til að stunda vísindarannsóknir og tækniþróun. Efnahagslegur stöðugleiki sem fer saman við stjórnmálalegan stöðugleika skýtur styrkum stoðum undir nýsköpun. Hagvöxtur er hér meiri en annars staðar, atvinnuleysi minna, kaupmáttur heimilanna hefur aukist meira en þekkist annars staðar og afkoma ríkissjóðs er betri en víða

Stjórnvöld eru reiðubúin til að skoða nýjar leiðir og tækifæri til að efla nýsköpun enn frekar. Við þurfum að auka frumkvöðlamenntunina og auka hlutfall kvenna í nýsköpun. Á undanförnum fjórum árum höfum við rúmlega tvöfaldað framlög til opinberra samkeppnissjóða í vísindum og tækni og vilji er til að auka framlögin verulega á næstu árum.

Niðurstöður GEM verkefnisins hjálpar okkur til að sjá hvar við höfum gert rétt og hvar við getum gert betur. Ég þakka þeim sem unnu að þessari rannsókn og Háskólanum í Reykjavík fyrir starf sitt á sviði nýsköpunar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum