Hoppa yfir valmynd
30. mars 2007 Forsætisráðuneytið

Ræða forsætisráðherra, á ársfundi Seðlabanka Íslands 30. mars 2007

Góðir ársfundargestir.

Það er mér sérstakt ánægjuefni að ávarpa ársfund Seðlabanka Íslands hér í dag. Ég starfaði í þessari stofnun eftir að námi lauk undir góðra manna handleiðslu á árunum 1977-83. Bankinn var þá enn til húsa í Hafnarstræti og Austurstræti og í nánu samneyti við Landsbankann sem fóstraði hann framan af.

Flest í starfsumhverfi og verkefnum bankans hefur breyst á þeim aldarfjórðungi sem síðan er liðinn, langflest til hins betra. Á þeim tíma var hrúgað á Seðlabankann hinum ólíklegustu verkefnum og honum sett í lögum markmið sem á köflum stönguðust á. Verðbólguvandinn var yfirþyrmandi og setti mark sitt á allt sem gert var og efnahagsmál yfirgnæfðu allt annað í stjórnmálaumræðu þess tíma. Hver einasti Íslendingur hefði á þeim tíma tekið fagnandi því verðbólgustigi sem við búum nú við og flestir raunar talið óhugsandi að árleg verðbólga gæti nokkurn tíma orðið 5%, eins og nú er, hvað þá 2,5% sem er okkar sameiginlega markmið.

Það er til marks um breytta tíma að Seðlabankinn tekur nú sjálfstæðar vaxtaákvarðanir án atbeina ríkisstjórnarinnar sem á árum áður réði bæði vöxtum og gengi krónunnar. Ríkisstjórninni er hins vegar umhugað um að efla Seðlabankann. Á ársfundi bankans í fyrra var greint frá því að eftir samráð ríkisstjórnar og Seðlabanka hefði verið ákveðið að auka gjaldeyrisforða hans á næstu misserum og bæta enn eiginfjárstöðu hans. Þessu var fylgt eftir með því að ríkissjóður tók erlent lán til fimm ára sem nam einum milljarði evra og endurlánaði Seðlabankanum til að styrkja gjaldeyrisforða hans. Í framhaldi af fyrri stefnumörkun og í samræmi við heimild í fjárlögum þessa árs hefur ríkisstjórnin nú ákveðið að ganga enn lengra og ráðstafa drjúgum hluta af innstæðu ríkissjóðs í Seðlabankanum til þess að efla eiginfjárstöðu bankans um 44 milljarða króna. Með þessu styrkist eiginfjárstaða Seðlabankans verulega en eigið fé bankans var rúmlega 48 milljarðar króna í lok febrúar sl.

Það er ánægjulegt að samhliða því sem efnahagsumræðan hefur þokað fyrir öðrum umræðuefnum á vettvangi stjórnmálanna á undanförnum árum, samfara skipulagsbreytingum og framförum í stjórn efnahagsmála, þá hefur almenn umfjöllun um þessi mál þroskast og þróast til hins betra. Sú tíð er liðin að Seðlabankinn og stofnanir á vegum ríkisins hafi eins konar einkarétt á slíkri umræðu. Nú eru fjölmargir aðilar sem um þessi mál fjalla af mikilli og vaxandi þekkingu og má þar m.a. nefna greiningardeildir fjármálastofnana sem og fjölda erlendra aðila sem þó eru ekki allir jafn vandir að virðingu sinni í þessum efnum.

Almennt er staða efnahagsmála talin góð og horfur hér á landi jákvæðar. Það hefur vissulega gengið á ýmsu undanfarin misseri enda miklar framkvæmdir við virkjanir og stóriðju auk þess sem mikill atgangur hefur verið á íbúðalánamarkaðnum. Þetta hefur óneitanlega reynt á þanþol hagstjórnarinnar í landinu en allt bendir nú til þess að þjóðarbúið komist senn á sléttari sjó og að framundan séu rólegri tímar. Spáir m.a. Seðlabankinn því að stýrivextir hans muni fara lækkandi með haustinu.

Reiknað er með því að verðbólgan verði komin niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans síðar á þessu ári. Í þessu felst jafnframt að draga mun úr viðskiptahalla og að hagvöxtur verði minni á þessu ári en verið hefur að undanförnu.

Það er eðlilegt að nú hægist um í hagkerfinu og að allir aðilar nái að draga andann djúpt. Það má hins vegar ekki ganga svo langt að hagkerfið nánast hætti að draga andann.

Við í ríkisstjórninni höfum lengi verið þeirrar skoðunar að hagkerfið myndi hæglega standa þessa sveiflu af sér og að hér myndi nást það sem á vondri íslensku er kallað „mjúk lending“. Miklar breytingar á skipulagi efnahagsmála sem hér hafa orðið á síðustu 15 árum eða svo hafa styrkt hagkerfið til muna og gert það betur í stakk búið en áður til að mæta tímabundnum sveiflum.  Það er af og frá að hægt sé að túlka spá Seðlabankans frá í gær þannig að hún feli í sér svokallaða harða lendingu.

Staða ríkissjóðs er einnig afar sterk og betri en víðast hvar annars staðar, bæði hvað varðar afkomu og eignastöðu enda skuldirnar nú orðnar hverfandi. Ennfremur er staða fyrirtækja almennt mjög góð, ekki síst afkoma fjármálafyrirtækja sem er með besta móti. Þá má heldur ekki gleyma því að þótt skuldir heimilanna hafi vissulega aukist þá hafa eignirnar aukist mun meira og nettóstaða þeirra því batnað.

Það þensluástand sem hér hefur ríkt að undanförnu var að mestu fyrirséð eins og lesa má úr spám sem fjármálaráðuneytið birti á sínum tíma. Þar var spáð aukinni verðbólgu, auknum viðskiptahalla og hærri vöxtum svo eitthvað sé nefnt. Það sem kom á óvart var hve breytingarnar á íbúðamarkaðnum, ekki síst innkoma bankanna, höfðu mikil áhrif.

Sumir hafa haldið því fram að ríkisstjórnin hefði ekki átt að beita sér fyrir þeim skattalækkunum sem komið hafa til framkvæmda á undanförnum árum. Þessari skoðun hefur áður verið andmælt, meðal annars hér úr þessum ræðustóli af forverum mínum í embætti forsætisráðherra og með góðum rökum. Sterk staða ríkissjóðs og miklar tekjur, t.d. af fjármagni og fyrirtækjum, hafa skapað skilyrði til að lækka skatta einstaklinga án þess að valda þenslu. Eitt af því sem sagt var um skattalækkanir ríkisstjórnarinnar á sínum tíma var að þær væru „efnahagslegt glapræði“. Ekki hafa það reynst orð að sönnu. Hitt er eftirtektarvert að þeir fjármunir sem ríkissjóður hefur afsalað sér til almennings í formi skattalækkana á þessu ári eru sennilega langt innan við helmingur þess sem atvinnulífið greiðir út í arðgreiðslur á árinu. Svo mjög hafa íslensk fyrirtæki sótt í sig veðrið.

Víkjum þá að öðru. Það er mikið rætt um evruna á opinberum vettvangi þessa dagana. Sumir virðast halda að upptaka evru í stað íslensku krónunnar myndi leysa öll vandamál, jafnt hjá fyrirtækjum, heimilum sem opinberum aðilum. Hér er mikið af ranghugmyndum á ferð. Í fyrsta lagi er ljóst að það er fullkomlega óraunhæft að tala um upptöku evru án aðildar að Evrópusambandinu. Um þetta eru kunnáttumenn sammála og hafa bent á ýmis dæmi þess að ákvarðanir um einhliða upptöku erlends gjaldmiðils sem heimamyntar skorti þann trúverðugleika sem nauðsynlegur er fyrir hagstjórnina.

Spurningin um formlega upptöku evru í stað íslensku krónunnar er því spurning um hvort við viljum ganga í Evrópusambandið. Þeirri spurningu ætti flestum að vera auðvelt að svara eftir útkomu hinnar nýju skýrslu Evrópunefndar.

Í öðru lagi liggur það engan veginn fyrir að upptaka evrunnar leysi einhver efnahagsvandamál á Íslandi. Þvert á móti er ljóst að ný vandamál kæmu í stað þeirra gömlu. Sakir þess hve íslenska hagkerfið er lítið og þar af leiðandi opið fyrir utanaðkomandi sveiflum megum við alltaf búast við meiri óstöðugleika en aðrar þjóðir. Við mætum því ekki með því að skipta krónunni út fyrir evru og gefa frá okkur möguleikann á að stjórna eigin peningamálum. Það myndi þýða að í stað gengissveiflna kæmu sveiflur á vinnumarkaði þar sem mismunandi mikið atvinnuleysi yrði ráðandi þáttur. Vilja menn fá aukið atvinnuleysi í stað sveiflna í gengi krónunnar?  Það er  spurning sem þarf að svara. Ég svara henni neitandi.

Í þriðja lagi hefur nokkuð borið á þeim misskilningi að uppgjör á ársreikningum einhverra fyrirtækja í evrum boði endalok íslensku krónunnar. Því fer fjarri. Ég beitti mér fyrir því sem fjármálaráðherra árið 2001 að lögfest var heimild til þess að fyrirtæki gætu leitað eftir  því að færa ársreikninga sína í öðrum gjaldmiðli en krónum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Með því var ekki verið að boða endalok krónunnar heldur einungis að koma til móts við eðlilegar og sanngjarnar óskir fyrirtækja um að mæta þeim breyttu aðstæðum sem fylgdu vaxandi viðskiptum þeirra í útlöndum. Íslensk fyrirtæki geta í dag gert sína ársreikninga upp í hvaða mynt sem er uppfylli þau sett skilyrði. Flest sem það gera hafa valið Bandaríkjadollar.

Gleymum því ekki að ákvörðun um að skipta um gjaldmiðil eða gerast aðilar að stærra myntsvæði er gríðarlega afdrifarík ákvörðun, sem hafnað hefur verið í þjóðaratkvæðagreiðslu bæði í Danmörku og Svíþjóð. Þarlendar krónur standa þó evrunni mun nær en hin íslenska. Þetta mál snýst ekki um rómantík eða viðkvæmni gagnvart okkar gjaldmiðli. Hann á sér ekki ýkja langa sögu í núverandi mynd. Þetta mál snýst um að finna hagkvæmasta fyrirkomulag fyrir gjaldmiðil í okkar litla, opna hagkerfi sem varðveitir jafnframt efnahagspólitískt sjálfstæði þjóðarinnar og gerir okkur kleift að kljást við hagsveiflur hér á landi sem reynslan sýnir að eru yfirleitt ekki í takt við sveiflur í öðrum og stærri hagkerfum. Engin betri skipan er á boðstólum í dag en sú að viðhalda íslensku krónunni, hvað sem síðar kann að verða. Seðlabankanum er með verðbólgumarkmiði sínu ætlað að standa vörð um verðgildi hennar.

Evran gerir engin kraftaverk fyrir hagstjórnina. Það sem skiptir meginmáli er að hagstjórnin sjálf sé skynsamleg.

 

Góðir fundarmenn.

Stjórnvöld hafa að undanförnu lagt mikla áherslu á gildi menntunar og að efla þekkingu, rannsóknir og nýsköpun. Á síðustu tíu árum hefur framlag ríkisins til háskólastarfsemi og vísindarannsókna nær tvöfaldast að raungildi. Samningur til fimm ára sem menntamálaráðherra og rektor Háskóla Íslands undirrituðu í byrjun þessa árs um kennslu og rannsóknir felur m.a. í sér að fjárveitingar ríkisins til rannsókna við Háskóla Íslands munu þrefaldast á samningstímanum.

Þá hafa stjórnvöld hug á að auka verulega fjármagn til opinberra samkeppnissjóða á sviði vísinda og tækni og gera íslenskum fyrirtækjum og vísindasamfélaginu kleift að standa saman að metnaðarfullum umsóknum um vísinda- og nýsköpunarstyrki á alþjóðlegum vettvangi. Meginstyrkur íslenskrar rannsóknarstarfsemi er hæft fólk með góða alþjóðlega menntun og tengsl, fólk sem hefur metnað og frumkvæði til að nýta þekkingu sína og ná árangri á alþjóðlegan mælikvarða.

Því nefni ég þetta hér að úr jarðvegi rannsókna og nýsköpunar hafa sprottið kröftug og framsækin hátæknifyrirtæki sem hafa náð lofsverðum árangri á erlendum mörkuðum þegar heimamarkaður hefur ekki nægt til að tryggja áframhaldandi vöxt og uppbyggingu.

Við Íslendingar höfum náð langt á braut framfara, þekkingar og velmegunar. En við ætlum okkur að ná lengra og gera betur. Skilyrði eru hér hagstæð til að stunda vísindarannsóknir og tækniþróun. Efnahagslegur stöðugleiki sem fer saman við stjórnmálalegan stöðugleika skýtur styrkum stoðum undir nýsköpun.

Samkeppnisstaða og velsæld þjóða mun fyrst og fremst ráðast af getu þeirra til að líta fram á veg, klófesta tækifæri og nýta þekkingu með skipulegum hætti.

 

Góðir fundarmenn.

Ég vil að lokum þakka stjórnendum Seðlabanka Íslands gott samstarf á liðnu starfsári. Einnig vil ég þakka starfsfólki bankans fyrir farsæl störf og góð samskipti á liðnum árum. Seðlabankinn gegnir mikilvægu hlutverki í okkar þjóðfélagi og ég óska honum alls hins besta á komandi starfsári.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum