Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2008 Forsætisráðuneytið

Ræða forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, á Viðskiptaþingi 13. febrúar 2008

Fundarstjóri og formaður Viðskiptaráðs. Góðir fundargestir.

Í litlu, opnu, alþjóðavæddu og ört vaxandi hagkerfi eins og því íslenska er eðli­legt og nauðsynlegt að fram fari frjó umræða um almenna stöðu efna­hagsmála jafnt sem skipulag gengis- og gjaldmiðilsmála.

Ég vil þess vegna þakka Viðskiptaráði fyrir að taka þau mál til umfjöllunar. Hér gefst tækifæri til þess að fara yfir stöðuna, heyra mismunandi sjónarmið og horfa fram á veginn. Hinir erlendu gestir hafa lagt okkur til fróðleg sjónarmið og niðurstaðan úr könnun á afstöðu félaga Viðskiptaráðsins til gjaldmiðilsmála er vissulega athyglisverð. Hins vegar ber umræðan að undanförnu um bága stöðu krónunnar að mínum dómi nokkurn keim af þeim tilteknu aðstæðum sem nú er við að fást á fjármálamörkuðum og í alþjóðlegum efnahagsmálum. Af þessu tilefni langar mig til þess að rifja upp nokkur atriði.

Í maí 1997 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu þess efnis að fela ríkisstjórn að skipa nefnd til að gera úttekt á áhrifum Efnahags- og myntbandalags Evrópu á íslenskt efnahagslíf en það var undanfari þess að evran var tekin upp sem sam­eiginlegur gjaldmiðill þeirra aðildarríkja Evrópusambandsins sem uppfylltu tiltekin efnahagsleg skilyrði. Efnt var til víðtæks samráðs stjórnvalda og helstu samtaka aðila vinnumarkaðarins, auk þess sem helstu hagfræðistofnunum landsins var falið að gera úttekt á tilteknum þáttum málsins. Nefndin skilaði niðurstöðum sínum í júní 1998. Þar var meðal annars bent á að stofnun myntbandalagsins myndi í sjálfu sér hafa ýmis jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf. Hins vegar var ekki talið að aðild að myntbandalaginu og upptaka evru væru æskilegir kostir, heldur væri mikilvægast að stjórnvöld einbeittu sér að því að treysta hér efnahagslegan stöðugleika.

Á næstu árum fóru í hönd miklar skipulagsbreytingar í íslensku efnahagslífi sem og á alþjóðavettvangi í kjölfar aukins frjálsræðis og almennrar til­hneig­ingar til þess að losa um höft og hömlur í alþjóðaviðskiptum, jafnt á sviði vöruviðskipta, sem þjónustu- og fjármagnsviðskipta.

Af hálfu íslenskra stjórnvalda var á árinu 2001 ákveðið að vandlega athuguðu máli að hverfa frá þeirri fastgengisstefnu sem hér hafði verið fylgt um nokkurt árabil eftir langt tímabil sem einkenndist af síendurteknum gengisfellingum og tilheyrandi óstöðugleika í efnahagslífinu. Seðlabankanum var veitt fullt sjálfstæði og falið að beita sér fyrir því að halda verðbólgunni innan tiltekinna marka sem voru nánar ákveðin í samkomulagi við forsætisráðuneytið.

Næstu ár voru viðburðarík í íslensku efnahagslífi. Áratugalöngum ríkisafskiptum af bönkunum lauk með einkavæðingu þeirra árið 2003. Það reyndist hið mesta fram­fara- og heillaspor og leiddi ekki aðeins til mikils vaxtar þeirra og útrásar á erlenda markaði heldur stuðlaði hún einnig að miklum vexti í öðrum atvinnugreinum. Þessar breytingar skiluðu sér í miklum lífskjarabata einstaklinga og hagn­aði fyrirtækja.

Þessi öra þróun varð tilefni til þess að árið 2005 var aftur gerð athugun á fyrir­komu­lagi gengismála að ósk forsætisráðherra og var Hagfræðistofnun falið að annast hana. Sú athugun birtist í desember 2005 í skýrslu sem bar heitið Fyrirkomulag gengismála á Íslandi - Horft til framtíðar og var meginniðurstaðan sú að í reynd væri um tvo kosti að ræða: Annars vegar að halda núverandi fyrir­komu­lagi og hins vegar að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna. Þessi niður­staða er að mínu mati enn fullgild.

Í ræðu minni á ársfundi Seðlabanka Íslands fyrir tæplega einu ári sagði ég meðal annars:

„Það er mikið rætt um evruna á opinberum vettvangi þessa dagana. Sumir virðast halda að upptaka evru í stað íslensku krónunnar myndi leysa öll vandamál, jafnt hjá fyrirtækjum, heimilum sem opinberum aðilum. Hér er mikið af rang­hug­myndum á ferð. Í fyrsta lagi er ljóst að það er fullkomlega óraunhæft að tala um upptöku evru án aðildar að Evrópusambandinu. Um þetta eru kunnáttumenn sam­mála og hafa bent á ýmis dæmi þess að ákvarðanir um einhliða upptöku erlends gjald­miðils sem heimamyntar skorti þann trúverðug­leika sem nauðsynlegur er fyrir hagstjórnina.

Spurningin um formlega upptöku evru í stað íslensku krónunnar er því spurn­ing um hvort við viljum ganga í Evrópusambandið. Þeirri spurningu ætti flest­um að vera auðvelt að svara eftir útkomu hinnar nýju skýrslu Evrópunefndar.

Í öðru lagi liggur það engan veginn fyrir að upptaka evrunnar leysi einhver efna­hags­vandamál á Íslandi. Þvert á móti er ljóst að ný vandamál kæmu í stað þeirra gömlu. Sakir þess hve íslenska hagkerfið er lítið og þar af leiðandi opið fyrir utanaðkomandi sveiflum megum við alltaf búast við meiri óstöðugleika en aðrar þjóðir. Við mætum því ekki með því að skipta krónunni út fyrir evru og gefa frá okkur möguleikann á að stjórna eigin peningamálum. Það myndi þýða að í stað gengissveiflna kæmu sveiflur á vinnumarkaði þar sem mismunandi mikið atvinnuleysi yrði ráðandi þáttur. Vilja menn fá aukið atvinnuleysi í stað sveiflna í gengi krónunnar? Það er  spurning sem þarf að svara. Ég svara henni neitandi.

Í þriðja lagi hefur nokkuð borið á þeim misskilningi að uppgjör á ársreikn­ingum einhverra fyrirtækja í evrum boði endalok íslensku krónunnar. Því fer fjarri. Ég beitti mér fyrir því sem fjármálaráðherra árið 2001 að lögfest var heimild til þess að fyrirtæki gætu leitað eftir því að færa ársreikninga sína í öðrum gjaldmiðli en krónum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Með því var ekki verið að boða endalok krónunnar heldur einungis að koma til móts við eðlilegar og sanngjarnar óskir fyrirtækja um að mæta þeim breyttu aðstæðum sem fylgdu vaxandi viðskiptum þeirra í útlöndum. Íslensk fyrirtæki geta í dag gert sína ársreikninga upp í hvaða mynt sem er uppfylli þau sett skilyrði. Flest sem það gera hafa valið Bandaríkja­dollar.

Gleymum því ekki að ákvörðun um að skipta um gjaldmiðil eða gerast aðilar að stærra myntsvæði er gríðarlega afdrifarík ákvörðun, sem hafnað hefur verið í þjóðaratkvæðagreiðslu bæði í Danmörku og Svíþjóð. Þarlendar krónur standa þó evrunni mun nær en hin íslenska. Þetta mál snýst ekki um rómantík eða viðkvæmni gagnvart okkar gjaldmiðli. Hann á sér ekki ýkja langa sögu í núverandi mynd. Þetta mál snýst um að finna hagkvæmasta fyrirkomulag fyrir gjaldmiðil í okkar litla, opna hagkerfi sem varðveitir jafnframt efnahags­pólitískt sjálfstæði þjóðar­innar og gerir okkur kleift að kljást við hagsveiflur hér á landi sem reynslan sýnir að eru yfirleitt ekki í takt við sveiflur í öðrum og stærri hagkerfum. Engin betri skipan er á boðstólum í dag en sú að viðhalda íslensku krónunni, hvað sem síðar kann að verða. Seðlabankanum er með verðbólgumarkmiði sínu ætlað að standa vörð um verðgildi hennar.

Evran gerir engin kraftaverk fyrir hagstjórnina. Það sem skiptir meginmáli er að hagstjórnin sjálf sé skynsamleg.“

Á því tæplega ári sem liðið er frá því að þessi orð voru látin falla hafa ekki orðið þær grundvallarbreytingar hér á landi að kalli á breytta afstöðu í þessum efnum. Þó tel ég að línurnar séu farnar að skýrast verulega þar sem nú virðast flestir hafa áttað sig á því að hér eru aðeins tveir kostir í boði: Að halda íslensku krónunni eða taka upp evru sem jafnframt þýðir inngöngu í Evrópusambandið. Það er einfaldlega ekki kostur að taka einhliða upp evru. Slíkt er ekki trúverðugt og því fylgir margs konar óhagræði og aukakostnaður. Ræða fulltrúa stjórnar Evrópska seðlabankans hér fyrr á fundinum staðfestir þetta svo rækilega að ekki verður um villst.

Eins og margoft hefur komið fram er aðild að Evrópusambandinu ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar og þar með ekki heldur upptaka evru. Við þurfum því að einbeita okkur að því að koma hér á meira jafnvægi í efnahagslífinu eftir uppsveiflu síðustu ára. Ná verðbólgunni niður og draga úr viðskiptahallanum. Þetta tvennt, ásamt því að halda áfram að treysta og fjölga stoðunum undir okkar atvinnulífi, eru stóru verkefnin framundan.

 

Góðir fundarmenn.

Skömmu eftir mitt síðasta ár versnuðu horfur mjög á alþjóðamörkuðum. Aðgangur að fjár­magni þrengdist verulega og hlutabréf lækkuðu í verði. Ísland og íslensk­ir hlutabréfamarkaðir fóru ekki varhluta af þessari þróun. Hlutabréf hafa fallið í verði hér á landi sem annars staðar. Það bætir reyndar stöðuna að íslensk hlutabréf höfðu áður hækkað mun meira í verði en mörg önnur og því er ljóst að ef skoðuð er þróun síðustu 2 ára eða svo hafa fáar vísitölur lækkað jafn lítið og sú íslenska.

Það er nauðsynlegt að allir geri sér grein fyrir því að þessi þróun hefur nákvæmlega ekkert með stöðu íslensku krónunnar að gera. Hér eru aðrir kraftar að verki.

Ef litið er til einstakra flokka fyrirtækja hefur gengi fjármálafyrirtækja almennt lækkað einna mest undanfarið. Það kemur því ekki á óvart að íslenska hluta­bréfa­vísi­talan hafi lækkað mikið þar sem fjármálafyrirtæki vega mjög þungt í henni eða um 70-80%. Það er töluvert hærra hlutfall en víðast hvar erlendis og þarf að hafa það í huga þegar íslenska vísitalan er borin saman við aðrar vísitölur þar sem fjármálafyrirtæki vega minna.

Á síðustu vikum hefur skuldatryggingaálag íslensku bankanna einnig hækkað tölu­vert en líklegt má telja að það stafi að hluta til af upplýsingaskorti alþjóðlegra fjár­festa um raunverulega stöðu bankanna. Sérfræðingar greiningarfyrirtækisins Credit Sights hafa til að mynda sagt að áhættan í tengslum við íslensku viðskiptabankana sé ofmetin og að skuldatryggingaálagið gefi ekki rétta mynd af raunstöðu þeirra. Hins vegar er þetta álag eitt og sér grafalvarlegt mál og torveldar bönkunum eðlilega lánsfjáröflun á mörkuðum sem eru erfiðir fyrir vegna lánsfjárskorts.

Matsfyrirtækið Moody´s staðfesti einnig þessa skoðun í nýlegri endurskoðun sinni á lánshæfismati ríkissjóðs. Sérfræðingar Moody´s telja að fjárhagsstaða bankanna sé traust og að þeir hafi nægt lausafé. Þeir staðfestu einnig hæstu lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins. Hún er fyrst og fremst réttlætt með sterkri stöðu ríkissjóðs, litlum skuldum og miklum afgangi á ríkissjóði. Ennfremur vekja þeir athygli á því að lang­tímahorfur séu mjög góðar vegna öflugs lífeyrissjóðakerfis hér á landi.

Samkvæmt nýlegri úttekt Fjármálaeftirlitsins er staða íslensku bankanna talin góð miðað við aðra banka erlendis og undirstöður þeirra traustar. Sérfræðingar þess benda á góða afkomu bankanna undanfarin ár og þá staðreynd að jafnvel þótt óreglu­legar tekjur séu dregnar frá og eingöngu sé litið á arðsemi af kjarnastarfsemi standist þeir fyllilega samanburð við banka á hinum Norður­lönd­unum. Eigin­fjár­hlut­föll bankanna eru sterk og hlutfallslega betri en hjá mörgum erlendum bönkum og þeir geta því staðið af sér veruleg áföll. Bankarnir hafa staðist álagspróf sem gera ráð fyrir mikilli lækkun hlutabréfaverðs, veikingu á gengi krónunnar og aukn­um afföllum lána. Í þessu samhengi er einnig bent á að íslensku bankarnir hafa skilað hagnaði á meðan margir erlendir bankar, þar á meðal margir virtustu bankar heims, hafa verið að tapa.

Í síðustu viku birti Fjármálaeftirlitið niðurstöður úr nýju álagsprófi á viðskipta­bönk­unum þar sem könnuð var geta þeirra til að standast samtímis áföll í formi tiltekinnar lækkunar á hlutabréfum, markaðsskuldabréfum, útlánum og fullnustu­eignum og áhrifa af lækkun á gengi íslensku krónunnar án þess að eigin­fjár­hlut­fallið fari niður fyrir lögboðið lágmark. Skemmst er frá því að segja að bankarnir stóðust allir þetta próf.

Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður og greinargerðir Fjármálaeftirlitsins, Moody´s, Credit Sights og fleiri aðila gætir enn neikvæðrar umfjöllunar hjá einstaka greiningaraðilum og fjölmiðlum. Þar er iðulega farið með hreinar stað­reynda­villur og lýsingar á stöðu íslenska hagkerfisins eru mjög ýktar. Það er áhyggjuefni að þessir aðilar skuli ekki taka tillit til þeirra ítarlegu upplýsinga sem öllum eru aðgengilegar og lýsa sterkri stöðu bankanna og ríkissjóðs. Hér virðast önnur öfl ráða ferðinni en leitin að sannleikanum.

Til að mæta þessu er nauðsynlegt að allir snúi bökum saman og bregðist við. Ríkisstjórnin er reiðubúin til samstarfs við hin ýmsu samtök atvinnulífsins, hvort sem það er á vettvangi Viðskiptaráðsins, Samtaka fjármálafyrirtækja eða annarra samtaka, með það að meginmarkmiði að miðla upplýsingum og greiningum um íslenskt efnahags- og atvinnulíf til erlendra greiningaraðila, fjárfesta og fjölmiðla. Jafnframt munu ráðherrar áfram verða reiðubúnir að mæta ásamt fulltrúum atvinnulífsins á fundi erlendis til að gera grein fyrir stöðu íslensks efnahags- og atvinnulífs og leiðrétta þær rangfærslur sem kunna að vera á ferðinni.

 

Góðir fundarmenn.

Sem fyrr segir sýnir nýlegt áhættumat Fjármálaeftirlitsins glögglega að allir íslensku bankarnir standa traustum fótum og eiga að standast verulega versnandi ytri aðstæður án þess að eigið fé þeirra fari niður fyrir eðlileg öryggismörk. Engu að síður telur ríkisstjórnin eðlilegt að vera í viðbragðsstöðu og undirbúa ráðstafanir í því skyni að draga úr neikvæðum afleiðingum hugsanlegrar lánsfjárkreppu á alþjóðamörkuðum. Eðlilegt er að vinna að slíku í góðu samstarfi við aðila á markaðnum. Hefur ríkisstjórnin í því skyni boðað aðila á fjármálamarkaði til fundar á morgun til að leggja á ráðin um þessi mál.

Árið 2006 var, eftir samráð ríkisstjórnar og Seðlabanka, ákveðið að auka gjaldeyrisforðann sem og bæta eiginfjárstöðu bankans með því að ríkissjóður tók erlent lán og endurlánaði bankanum. Ríkisstjórnin hefur fylgst grannt með framvindu mála á alþjóðafjármálamarkaði með það fyrir augum að fylgja þessu frekar eftir ef ástæða þykir til og aðstæður á markaði leyfa.

Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur verið lögð áhersla á mikilvægi þess að íslensk fyrirtæki hafi höfuðstöðvar sínar hér á landi jafnvel þótt þau starfi einnig á alþjóðamarkaði. Jafnframt miðar stefna ríkisstjórnarinnar að því að skapa fyrirtækjum samkeppnishæft rekstrarumhverfi á Íslandi, meðal annars með því að heimila þeim fyrirtækjum sem þess óska að færa bókhald sitt og ársreikninga í erlendri mynt, enda uppfylli þau sett lagaskilyrði, sbr. það sem ég áður nefndi um þetta atriði. Sá misskilningur virðist vera uppi að fjármálafyrirtækin búi við lakari aðstöðu í þessu tilliti en önnur fyrirtæki. Svo er ekki og sé ég ástæðu til að koma því á framfæri hér.

Margt bendir til að kjarasamningar á almenna markaðnum séu nú að komast á lokastig. Ég geri mér vonir um að niðurstaða þeirra muni hafa jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf og stuðla að auknu jafnvægi með lægri verðbólgu og minni við­skipta­halla. Ríkisstjórnin er tilbúin til þess að greiða fyrir þessum samningum og vísa ég í því sambandi sérstaklega til þess sem segir í stefnuyfirlýsingu hennar um lækkun á sköttum einstaklinga og fyrirtækja.

 

Góðir fundarmenn.

Það er óumdeilt að grundvallarstoðir íslenska hagkerfisins eru traustar. Þar ber hvað hæst afar sterka stöðu ríkissjóðs með afgang sem nemur um 2,5% af landsframleiðslu og hreinar skuldir sem nema rétt um 5% af landsframleiðslu. Þessi staða er nær einsdæmi í Evrópu og bera vott um öfluga og aðhaldssama ríkisfjármálastefnu. Jafnframt er eiginfjárstaða bankanna sterk og það sýnir trausta stöðu þeirra að þeir skuli hafa skilað miklum hagnaði á síðasta ári þrátt fyrir þann mótbyr sem verið hefur á alþjóðafjármálamörkuðum frá síðasta hausti.

Við höfum því góð spil á hendi, Íslendingar. Mestu skiptir að spila vel úr þeim, bæði til skemmri og lengri tíma.

 

Talað orð gildir.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum