Hoppa yfir valmynd
3. mars 2009 Forsætisráðuneytið

Norðurlönd hafna haftastefnu og vilja mæta kreppunni með grænum hagvexti

Fárviðri hefur geisað á fjármálamörkuðum í haust og vetur. Afleiðingar þess sjáum við ekki síst á vinnumarkaði, í afkomu fyrirtækja og daglegu lífi fólks. Vandamál og verkefni norrænu ríkjanna við þessar aðstæður eru að stórum hluta þau sömu. En eins og skýrt kom fram á nýafstöðnu hnattvæðingarþingi á Íslandi felast líka tækifæri til uppbyggingar í kreppunni. Við forsætisráðherrar norrænu ríkjanna viljum styrkja svæðið og hafa jákvæð áhrif til framtíðar með aðgerðum sem taka mið af hnattvæðingunni.

Fjármálakreppan sem við nú lifum á sér vart fordæmi, hún er dýpri og hefur breiðst hraðar út en nokkur önnur, síðan heimskreppan mikla geysaði. Við þessar aðstæður er afgerandi að finna réttu lausnirnar. Mikilvægt er að norrænu ríkin leggi áfram áherslu á frelsi í viðskiptum og opin hagkerfi og sýni heiminum að með andstöðu við verndarstefnu megi jafnframt axla ábyrgð á erfiðum tímum, með einhliða aðgerðum, svæðasamstarfi og á alþjóðlegum vettvangi. Samhliða viðbrögðum í hverju ríki til að draga úr áhrifum kreppunnar er nauðsynlegt að grípa til alþjóðlegra aðgerða til að fyrirbyggja og milda skaðvænleg áhrif þeirra viðskiptahátta sem við höfum orðið vitni að.

Mestu skiptir fyrir fámenn ríki eins og þau norrænu að geta varið störf og velferðarkerfi í hnattvæddum heimi.

Jafnframt teljum við að ekki megi nota alþjóðlegt samdráttarskeið sem skálkaskjól til að hætta aðgerðum sem miða að því að leysa framtíðarvanda mannkyns. Það verður áfram að vera keppikefli að knýja fram alþjóðlegar lausnir í loftslagsmálum. Þar gegna norrænu ríkin mikilvægu hlutverki, ekki síst með því að sýna fram á að sameina má hagvöxt og vistvæna framleiðslu. Að takast má á við viðfangsefni í umhverfismálum með því að styrkja samkeppnishæfni í krafti nýsköpunar og nýrra aðferða og mæta loftslagsvandanum með því að skapa græn störf í vistvænu samfélagi. Þetta köllum við grænan hagvöxt og teljum að hann verði ekki einungis Norðurlöndum til framdráttar heldur geti hann nýst öllum heiminum.

Mikil þörf er á nýsköpun á sviði umhverfis- og orkumála. Jafnframt bendir allt til þess að eftirspurn eigi eftir að aukast enn meir eftir nýjum tæknilausnum og framleiðslu sem megnar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Norrænu ríkin eru framarlega á þessu sviði, en við teljum að þau geti sett sér enn háleitari markmið. Þess vegna eigum við Norðurlandabúar að leggja enn meiri áherslu á nýsköpun, rannsóknir og tækniþróun. Við eigum að vera í fararbroddi í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og skilvirkri orkunotkun. Við eigum líka að vera í fremstu röð við að þróa tækni til að binda koltvísýring. Til að ná þeim markmiðum hafa Norðurlönd m.a. sett sér metnaðarfulla rannsóknaráætlun. Hún er árangur af norrænu hnattvæðingaraðgerðunum sem við hleyptum af stokkunum í Punkaharju í Finnlandi sumarið 2007 og er stærsta verkefni á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar í langan tíma.

Þrátt fyrir efnahagskreppu verðum við að takast á við loftslagsvandann. Það krefst nýrrar iðnbyltingar og þar eiga Norðurlönd að leggja sitt af mörkum. Við viljum sýna fram á að þjóðríki geti sameinað metnaðarfulla stefnu í loftslags-málum og umhyggju fyrir umheiminum. Loftslagsvandinn er viðfangsefni alls heimsins og krefst alþjóðlegra svara og aðgerða. Oft eru afleiðingar af hlýnun jarðar alvarlegastar í þeim ríkjum heims þar sem skortur er á fjármunum og kunnáttu til að mæta vandanum. Með fjárframlögum úr Norræna þróunarsjóðnum ætlum við að veita framsækna þróunaraðstoð með þekkingarmiðlun til fyrir þá sem glíma við alvarlegustu vandamálin samhliða því að unnið er gegn loftslagsbreytingum.

Norrænu ríkin hafa einstakt tækifæri til að þróa áfram og koma á markað lausnum í orkumálum sem byggjast á notkun lífræns massa, vatnsafls, vindorku og jarðtækni og ekki síst á skilvirki orkunýtingu. Á þessum sviðum eigum við að efla samstarfið, skapa frumkvöðlum betri aðstæður og standa okkur betur í að miðla þekkingu okkar til alls heimsins.

Til að styrkja Norðurlönd enn frekar og stuðla að framþróun ætlum við að efla norrænt þekkingarsamstarf. Innri markaður Norðurlanda og Evrópu er öflugur. Hann byggist á fjórfrelsinu; frjálsu flæði fólks, vöru, þjónustu og fjármagns. En við þurfum líka að standa vörð um fimmta frelsið sem snýr að fræðasamfélaginu - þar sem hugmyndir flæða og nemar, kennarar og vísindamenn starfa óháð landamærum og stuðlað er að greiðum aðgangi að þekkingu.

Í fyrra hittumst við á fyrsta Hnattvæðingarþinginu í Svíþjóð. Í ár settumst við í tvo daga á rökstóla á Íslandi til að ræða heimsástandið og verkefnin framundan við fólk úr stjórnmálum, vísindum, atvinnulífi, fjölmiðlum og frjálsum félagasamtökum. Það hefur verið gagnlegt að auðga umræðuna og fá hugmyndir um hvernig við getum sameiginlega mótað stefnu til að nýta þau tækifæri sem felast í alþjóðavæðingunni.

Við erum sammála um að við eigum alla möguleika á því að tryggja sjálfbæra þróun á Norðurlöndum með lífsgæði og bjartsýni fólks á framtíðina að leiðarljósi, bæði fyrir þá sem nú eru á dögum og komandi kynslóðir. Samstaða og samstarf norrænu þjóðanna hefur aldrei verið mikilvægari.

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands

Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum