Hoppa yfir valmynd
17. júní 2012 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, á Austurvelli 17. júní 2012


Góðir landsmenn.
Til hamingju með daginn, þennan mikilvæga dag í lífi þjóðarinnar
Það hefur verið afar ánægjulegt að fylgjast með mannlífinu undanfarnar vikur og upplifa hvað veður hefur verið gott um land allt, samfellt svo dögum skiptir. Fátt er notalegra en að sjá unga sem aldna njóta sólar og útiveru og gróðurinn taka við sér.
Slíkir dagar eru gjarnan annasamir hjá þeim sem stunda búskap og nýta þá til útiverka og þar er rigningin reyndar ekki síður dýrmæt en sólin.
Framundan er einn fallegasti tími ársins, lengstur sólargangur, náttúran skartar sínu fegursta og við fyllumst stolti yfir fegurð landsins okkar.
Góðir Íslendingar.
Í ljóðinu Ísland,  spyr Jónas Hallgrímsson spurningar sem sjaldan hefur átt meira erindi við okkur en einmitt nú:
„Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?“
Hver er staða Íslands nú þegar liðin eru hartnær fjögur ár síðan við Íslendingar stóðum andspænis alvarlegustu efnahagserfiðleikum í sögu lýðveldisins, mögulegu þjóðargjaldþroti og einangrun landsins?
Það var ekki að ástæðulausu að forveri minn í embætti bað Guð að blessa Ísland í þeirri ógnvænlegu stöðu sem við blasti. Vandinn virtist nánast óyfirstíganlegur.
Í ávarpi mínu á þjóðhátíðardegi okkar fyrir þremur árum sagðist ég bera þá von í brjósti að óróleikatíminn sem hruninu fylgdi yrði stuttur og að hans yrði helst minnst fyrir það, að þjóðinni hefði ekki fallist hendur. Hún hefði unnið vel úr þeirri efnahagslegu sjálfstæðisbaráttu sem þá blasti við, lært  af reynslunni og byggt upp betra Ísland, - sanngjarnara, - heiðarlegra, - réttsýnna - og jafnara.
Þegar horft er til baka hygg ég að fullyrða megi að þessi von  mín hafi að mörgu leyti ræst. Íslenska þjóðin sýndi ótrúlegan styrk, þolgæði og dug og vann vel úr vandanum.
Þjóðargjaldþrotinu var forðað. Saman höfum við staðið vörð  um velferðarsamfélagið, auðlindirnar og náttúru landsins og komið í veg fyrir alþjóðlega einangrun Íslands. Á sama tíma höfum við Íslendingar endurskoðað og bætt marga af grunnþáttum samfélagsins, lært af reynslunni og hafið kröftuga lífskjarasókn.
Á fáum árum hefur á Íslandi verið lagður  grunnur að nýju og betra samfélagi , - þar sem ríkir mun meiri fjárhagslegur jöfnuður, meira félagslegt réttlæti og leikreglurnar eru heilbrigðari en fyrir hrun.
Þegar litið er til aukins jöfnuðar höfum við satt að segja náð mun lengra en mig dreymdi um, þegar ég stóð hér fyrir þremur árum.

Kæru landsmenn.
Þótt efnahagshamfarirnar sem Ísland gekk í gegnum hafi á margan hátt verið alvarlegri en hjá öðrum þjóðum í okkar heimshluta þá er eftirtektarvert að erfiðasta samdráttarskeiðið reyndist styttra hér en í öðrum löndum, þó vissulega hafi það verið bæði sársaukafullt og víðtækt.
Um tveggja ára skeið hefur hagur okkar Íslendinga batnað á ný og batinn er umtalsvert meiri en í flestum þeim löndum sem við helst viljum bera okkur saman við. Ég finn vel á fundum með leiðtogum annarra ríkja að þeir fylgjast af áhuga með þeim jákvæðu breytingum sem átt hafa sér stað hér á landi frá hruni.
Árangurinn er flestum augljós.
Böndum hefur verið komið á hallarekstur ríkissjóðs og skuldastaða þjóðarbúsins batnar nú jafnt og þétt.
Erlend neyðarlán ríkisins eru greidd upp hraðar en áætlað var og ríkissjóður hefur með afgerandi hætti rutt brautina fyrir innlend fyrirtæki og stofnanir á erlendum lánsfjármarkaði.
Þegar hefur verið gengið frá nokkrum samningum um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnuuppbyggingu hér á landi og fleiri eru í undirbúningi.
Einangrun landsins hefur verið rofin og traustið að verulegu leyti endurheimt.
Eftir því er tekið að frá botni kreppunnar hefur þjóðarkakan þegar vaxið um tæp 11%,
- atvinnulausum hefur fækkað um meira en 30%,
- skuldir heimila hafa lækkað verulega,
- og kaupmáttur launa hefur vaxið jafnt og þétt. Á síðustu þrettán árum hefur kaupmáttur launa aðeins einu sinni vaxið meira en á liðnum 12-13 mánuðum. 
Bestu fréttirnar eru þó, að allt bendir til þess að lífskjör alls almennings hér á landi haldi áfram að batna líkt og undanfarin tvö ár. Á því tímabili hefur Íslendingum sem telja sig dafna fjölgað um helming og eru nú tæp 70% landsmanna, en þeim sem eiga í basli eða þrengingum hefur fækkað að sama skapi.
Þá hafa orðið hér umfangsmiklar samfélagsbreytingar sem skipta gríðarlega miklu máli þegar til framtíðar er litið.
Ég nefni hér nokkur atriði:
Algjör umskipti hafa orðið í þróun tekjuskiptingar í átt til aukins jöfnuðar.
Árin fyrir hrun óx ójöfnuður svo mikið að fá vestræn samfélög hafa gengið í gegnum annað eins, enda upplifðum við flest að hluti samfélagsins væri í raun farinn að lifa í allt öðrum heimi en við hin.
Nú hefur verulega dregið úr ójöfnuði og er Ísland komið í hóp ríkustu samfélaga heims, þar sem hvað mestur tekjujöfnuður ríkir.
Hið sama má segja um jafnrétti kynjanna, en þar hefur Ísland trónað á toppnum í heiminum undanfarin þrjú ár og staða okkar batnað ár frá ári.
Konur eru nú í fyrsta sinn í meirihluta í ríkisstjórn, um 40% þingmanna og helmingur ráðuneytisstjóra. Þær hafa skipað flest æðstu embætti landsins, og kona verður vígð í embætti biskups í fyrsta sinn hér á landi síðar í þessum mánuði.
Konur hafa einnig sótt fram í öðrum forystustörfum í samfélaginu svo sem í atvinnulífinu og hægt og bítandi hefur dregið úr launamun kynjanna á undanförnum árum, en  við verðum enn að herða róðurinn í þeim efnum. 

Góðir landsmenn
Náttúru- og auðlindamál þjóðarinnar hafa einnig verið tekin til gagngerrar endurskoðunar á liðnum árum. Með ýmsum hætti hefur verið unnið að því að forræði og arður þjóðarinnar af þessum dýrmætustu samfélagslegu eignum okkar Íslendinga verði tryggður til framtíðar.Ekki einungis í þágu núlifandi kynslóðar heldur ekki síður komandi kynslóða.
Stefnt er að því á næsta löggjafarþingi að leggja fram frumvörp um eignarráð yfir vatni og gjaldtöku af auðlindum í eigu þjóðarinnar. Þar er meðal annars gert ráð fyrir stofnun auðlindasjóðs.
Þá treysti ég  því að Alþingi beri gæfu til að samþykkja á yfirstandandi þingi lög sem tryggja þjóðinni langþráðan og sanngjarnan arð af fiskveiðiauðlindinni. Arður þjóðarinnar getur á næstu árum numið tugum milljarða króna, ef vel árar eins og undanfarin ár en á sama tíma yrðu góð rekstrarskilyrði vel rekinna fyrirtækja í sjávarútvegi tryggð.  Ekkert má stöðva að þetta mál nái fram að ganga.
Þjóðin mun þegar á næsta ári sjá arðinn af auðlindinni nýtast í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, með auknum hagvexti og verulegri fjölgun starfa. Þá munu verða að veruleika umfangsmiklar samgönguframkvæmdir á landsbyggðinni og uppbygging innviða samfélagsins í þágu fjölbreyttara atvinnulífs í samræmi við kröfur þeirra kynslóða sem landið munu erfa.  
Eitt mikilvægasta viðfangsefni stjórnvalda og stjórnmála á hverjum tíma er að treysta grunninn fyrir komandi kynslóðir. Það gerir fjárfestingaáætlunin svo sannarlega. Þar er sjónum í auknum mæli beint að  rannsóknum og vísindum, uppbyggingu græna hagkerfisins, nýsköpun og skapandi greinum.
Við sjáum nú einnig fyrir endann á umfangsmestu skipulagsbreytingum á Stjórnarráði Íslands í lýðveldissögunni þar sem ráðuneytum fækkar úr tólf í upphafi kjörtímabils í átta.
Margir eru þeirrar skoðunar að ráðherrar eigi ekki að gegna þingmennsku þegar þeir hafi verið skipaðir í embætti. Þessi fækkun og stækkun ráðuneyta gefur svo sannarlega tækifæri til þess að raungera þá hugmynd. Sú róttæka breyting myndi að mínu mati styrkja þingræðið og hvet ég til þess að þetta mál verði skoðað af fullri alvöru.

Góðir Íslendingar.
Þótt margt hafi gengið vonum framar í uppbyggingarstarfinu eftir hrun ríkir enn talsverð reiði í samfélaginu og hatrömm átök eiga sér stað á vettvangi stjórnmálanna. Hatrammari en ég hef áður upplifað á mínum 34 ára ferli sem þingmaður og ráðherra.
Afleiðingar þessa sjáum við meðal annars birtast í gríðarlegu vantrausti á mörgum mikilvægustu stoðum lýðræðisins í okkar samfélagi, aukinni vantrú á stjórnmálin og starfandi stjórnmálaflokka, þverrandi virðingu Alþingis, stjórnar- og stjórnarandstöðu og margra æðstu stofnana samfélagsins.
Eðlilega geta skiptast á skin og skúrir í þessum efnum, ekki síst þegar taka þarf erfiðar og óvinsælar ákvarðanir,  en viðvarandi óeining og vantaust á helstu stofnunum samfélagsins eins og við höfum upplifað allt frá hruni, er mikið áhyggjuefni.
Ábyrgðina berum við, kjörnir fulltrúar þjóðarinnar og enn sem komið er hefur okkur að miklu leyti mistekist í þessu mikilvæga verkefni, að endurvinna traust þjóðarinnar. Þetta þykir mér mjög miður. Úr þessu verðum við að bæta á næstu misserum ef ekki á illa að fara.   

Ágætu landsmenn.
Þrátt fyrir ýmiss konar breytingar og tilraunir til heildarendurskoðunar byggir íslensk stjórnskipan enn í dag að miklu leyti á þeirri stjórnarskrá sem Kristján IX færði Íslendingum árið 1874.
En nú hillir loks undir að draumsýn Jóns Sigurðssonar, þjóðfundarmanna og margra Íslendinga allt frá upphafi sjálfstæðisbaráttunnar, um nýja, alíslenska stjórnarskrá, geti orðið að veruleika. 
Tugþúsundir Íslendinga hafa komið að mótun tillagna Stjórnlagaráðs sem hinir 25 fulltrúar, sem þjóðin leiddi fram í almennu persónukjöri, samþykktu einróma.
Fjöldi fólks, almenningur og sérfræðingar, hefur lagt á sig gríðarlega vinnu sem að mínu mati hefur ekki hlotið þá almennu umfjöllun sem eðlilegt væri.
Fyrir ári síðan lýsti ég þeirri skoðun minni að það væri bæði táknrænt og viðeigandi að Alþingi Íslendinga sýndi þann kjark og þá lýðræðislegu ábyrgð að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um afdrif þessa mikilvæga starfs.
Löggjafarþingið hefur nú tekið af allan vafa og samþykkt að leggja í dóm þjóðarinnar, hvort tillögur Stjórnlagaráðs eigi að verða grundvöllur að nýrri stjórnarskrá  fyrir Ísland.
Sú mikilvæga þjóðaratkvæðagreiðsla mun fara fram síðar á þessu ári.
Brýnt er að hefja á næstu vikum markvissa fræðslu um tillögur Stjórnlagaráðs, þannig að þjóðin gangi vel upplýst til þjóðaratkvæðagreiðslunnar.Verði það niðurstaða þjóðarinnar gæti  ný stjórnarskrá tekið gildi þegar  á næsta ári – jafnvel á þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 2013.

Góðir Íslendingar.
Dagurinn í dag,  þjóðhátíðardagurinn okkar, er vel til þess fallinn að staldra við og meta hvar við stöndum og á hvaða vegferð við erum. Við eigum að minnast þeirra kafla í sögunni þar sem framfaraskref hafa verið stigin og gleðjast yfir þeim góða árangri sem þjóðin hefur náð. Einnig þurfum við að horfast í augu við það sem mistekist hefur og draga af því  lærdóm. Okkur ber skylda til þess, ekki síst í þágu barna okkar og ókominna kynslóða.
Hvert sem litið er  blasir nú við að framtíð Íslands er björt og tækifærin hér á landi nánast óþrjótandi. Við erum friðsamasta þjóð í heimi og hér er jafnrétti kynjanna, félagslegt réttlæti og almenn velsæld hvað mest samkvæmt niðurstöðum alþjóðlegra stofnana. Orkulindir okkar verða sífellt dýrmætari og það á einnig við um okkar ómetanlegu ósnortnu náttúru og aðrar gjafir landsins.  
En þó er sú auðlind sem býr í þjóðinni sjálfri dýrmætust og það hefur hún svo sannarlega sýnt á liðnum árum.
Sú sjálfsmynd sem við byggjum upp sem einstaklingar og sem þjóð og það hugarfar sem við tileinkum okkur ræður því mestu um það hvernig okkur farnast í lengd og bráð.
Eða eins og Stephan G. Stephansson tók til orða;
„Góðærið býr að miklu leyti í okkur sjálfum“.
 Með samtakamætti og framfarahug ættum við sem þjóð að hafa alla burði til að vinna kraftaverk, í stóru jafnt sem smáu.
Ég óska landsmönnum öllum gleðilegrar þjóðhátíðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum