Hoppa yfir valmynd
12. desember 2012 Forsætisráðuneytið

Ísland er ódýrast Norðurlanda

Síðastliðinn mánudag fjallaði Ríkissjónvarpið um skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar. Fréttin var um að verðlag hefði hækkað meira hér á landi árin 2005-2011 en í hinum norrænu ríkjunum. Fréttin gaf að mörgu leyti villandi mynd af inntaki skýrslunnar þar sem ekki var fjallað um tvö lykilatriði hennar.

Hið fyrra er sú staðreynd að langstærsti hluti hækkunarinnar varð vegna hrunsins og átti sér stað á árabilinu 2007-2009. Þá hækkaði verð á þeirri vöru og þjónustu sem könnunin nær til um 26%. Meginskýringin er sú að á þessu tímabili hrundi gjaldmiðill okkar og allur innflutningur og aðföng urðu miklu dýrari. Skýrslan sýnir svart á hvítu hversu kostnaðarsamt það er fyrir almenning í landinu að búa við krónuna eins og Samfylkingin hefur lengi bent á. Gengi gjaldmiðilsins hrundi ekki hjá hinum norrænu ríkjunum.

Á valdatíma ríkisstjórnarinnar 2009 til 2011 sést að hækkunin er langtum minni eða um 9,6%. Aftur endurspegla þessar verðhækkanir að miklu leyti verðbólguna sem krónan skapar með óstöðugleika sínum. En hið ánægjulega er að eftir að ríkisstjórn mín tók við hefur tekist að draga verulega úr verðhækkunum.

Seinna atriðið sem ekki er fjallað um í fréttinni er veigameira og breytir í raun algerlega þeirri mynd sem dregin var upp. Í skýrslunni er ágætlega fjallað um það hvernig bera eigi saman verð í mismunandi löndum. Sagt er skýrum stöfum að það eigi að bera verð saman á svokölluðu jafnvirðisgengi sem er iðulega gert þegar lönd eru borin saman. Þá er tekið tillit til mismunandi kaupmáttar gjaldmiðilsins á hverjum stað.

Í þessum samanburði er sérstaklega tekið fram í skýrslunni að Ísland sé „ódýrast Norðurlandanna ásamt Finnum þegar kemur að matarkörfunni". Og sé litið til allrar vöru og þjónustu sem könnunin náði til er „Ísland ódýrast Norðurlandanna". Á þessar staðreyndir var ekki minnst einu orði í fréttinni.

Að lokum vil ég minnast á enn aðra áhugaverða staðreynd sem kemur fram í þessari ágætu skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar. Hún er sú að á Norðurlöndunum eru skattar sem hlutfall af landsframleiðslu lægstir á Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum