Hoppa yfir valmynd
22. maí 2014 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra – Stefna og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs

Stefna og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2014-2016
Stefna og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2014-2016

Vísindin efla alla dáð,

orkuna styrkja, viljann hvessa, 

vonina glæða, hugann hressa, 

farsældum vefja lýð og láð; 

tífaldar þakkir því ber færa 

þeim sem að guðdómseldinn skæra 

vakið og glætt og verndað fá 

viskunnar helga fjalli á.   

Þannig orti Jónas Hallgrímsson til franska náttúruvísindamannsins Páls Gaimard í samsæti Íslendinga honum til heiðurs í Kaupmannahöfn. Jónas var ekki einungis okkar fremsta ljóðskáld heldur einnig einn okkar frambærilegasti vísindamaður á þeim tíma. Fróðleiksþyrstur náttúrufræðingur, sem sá endalaus tækifæri í því að beita vísindum til að leysa úr; „…fylgsnum náttúrunnar gersemar, áður aldrei kunnar,…“ Jónas var boðberi nýrra tíma í menningu og vísindum, að hluta til tákngervingur þess sem koma skyldi í landi sem lengst af var svo harðbýlt að íbúar þess lifðu við hungurmörk. Með tilkomu menntunar, betri tækni og meiri þekkingar hefur landið hins vegar reynst gjöfult og blómlegt. Ísland á  því vísindum og tækni margt að þakka. 

Þegar við lítum yfir þau 175 ár sem liðin eru frá því að Jónas orti til Gaimards  er auðvelt að finna dæmi þess hvernig ný tækni og þekking hefur stuðlað að umbyltingu á kjörum þjóðarinnar. Ekki var alltaf um að ræða meiriháttar tæknibreytingar. Árið 1883 skrifaði Guðmundur Hjaltason kennari um það í Norðanfara hversu viðgerðir á íslenskum sauðskinnsskóm væru tímafrekar og benti hann á hvað mikil tímahagræðing væri af því að fá hingað stígvél og tréskó. Og þar sem skóviðgerðir væru kvennastarf myndu betri skór einkum verða til þess að bæta hag kvenna og færa þeim meiri frítíma.

Litlar breytingar sem þessar hafa lagst á eitt með þeim stóru til að skapa samfélag nútímans. Í dag eru hagnýting vísinda og sífelldar tæknibreytingar samofnar daglegu lífi okkar og forsenda velferðar og hagvaxtar. Hugtakið nýsköpun vísar því ekki aðeins til þeirra fyrirtækja sem við köllum stundum hátæknifyrirtæki. Til að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, góðu heilbrigðiskerfi, skynsamlegri nýtingu auðlinda og framúrskarandi menntastofnunum þarf nýsköpun að vera til staðar í öllum atvinnugreinum, bæði hjá hinu opinbera og hjá einkafyrirtækjum. Þetta er meginhugsunin á bak við þessa stefnu Vísinda- og tækniráðs.  Það er von mín að stefnan og aðgerðaáætlunin sem nú hefur verið samþykkt muni efla til muna nýsköpun og þróun hér á landi og sem er ætlað að hafa jákvæð og varanleg áhrif á hagvöxt og lífskjör. Það er í samræmi við  áherslur stjórnvalda um nýsköpun í öllum atvinnugreinum. 

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um nauðsyn þess að auka framleiðni enda er það  forsenda langtímahagvaxtar að skapa umhverfi sem hvetur til nýsköpunar í fyrirtækjum og í opinberum rekstri. Einnig þarf að bæta aðstæður svo ný fyrirtæki geti vaxið innanlands og skapað ný og áhugaverð störf sem ungt og velmenntað fólk sækir í.

Aðgerðaáætlunin sem nú hefur verið samþykkt felur í sér  21 aðgerð sem eru lykill að því að efla rannsóknir og nýsköpun hér á landi. Ábyrgð á aðgerðunum er sett í hendur ráðuneyta eða stofnana og kostnaður við hverja aðgerð er metinn.  Áætlunin felur m.a. í sér stóraukið framlag í samkeppnissjóði og ráðstafanir til að auðvelda atvinnulífinu að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun en einnig að gera afrakstur fjárfestinga á þessu sviði betur ljósan með sérstöku upplýsingakerfi, efla nýliðun og gera gangverk opinbera kerfisins liprara og skilvirkara. Þessum aðgerðum er ætlað að styðja við nútímalega atvinnustefnu og framsækna menntastefnu í samræmi við áætlun stjórnvalda. 

Það er nýmæli í starfi Vísinda- og tækniráðs að unnin sé sérstök aðgerðaáætlun með tilgreindum ábyrgðaraðilum, hún kostnaðargreind og tímasett. Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti samþykkt að beita sér fyrir fjármögnun áætlunarinnar með fyrirvara um fjárlagaferlið og afgreiðslu Alþingis. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum