Fréttasafn

Forsætisráðherra tekur þátt í HeForShe viðburði hjá Alþjóðabankanum í Washington

9.3.2017

Forsætisráðherra ásamt Jim Yong Kim, Phumzile og Edgar Ramirez
Forsætisráðherra ásamt Jim Yong Kim, Phumzile og Edgar Ramirez

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók í dag þátt í viðburði á vegum UN Women og Alþjóðabankans í Washington, þar sem forseti Alþjóðabankans, Jim Yong Kim, var boðinn velkominn í hóp HeForShe leiðtoga á vegum alþjóðastofnana.

Forsætisráðherra, ásamt leikaranum og góðgerðarsendiherranum Edgar Ramirez og framkvæmdastýru UN Women, Phumzile, fluttu ávörp og buðu forsetann velkominn í hóp jafnréttisleiðtoga.

Í ávarpi forsætisráðherra var lögð áhersla á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og að kynjajafnrétti væri mikilvægur hlekkur við að þeim yrði náð. Alþjóðabankinn hefði mikilvægu hlutverki að gegna. Þá fjallaði hann um stöðu jafnréttismála á Íslandi og mikilvægi þess að gera enn betur. Forsætisráðherra vék að þátttöku sinni í viðburðum í gær í New York á alþjóðlegum baráttudegi kvenna og sagði að sér væri heiður að vera einn af tíu málsvörum HeForShe átaks UN Women úr hópi þjóðarleiðtoga – slíkt væri fyrst og fremst viðurkenning á þeim árangri sem Ísland hefur náð á sviði jafnréttismála.

Forsætisráðherra átti tvíhliða fund með Kim forseta Alþjóðabankans, þar sem farið var yfir gott samstarf, áherslur og stöðu mála. Þá var sérstaklega vikið að jafnréttismálum og mikilvægi þess að karlmenn tækju þátt í umræðunni og legðu sitt af mörkum.  Þá átti forsætisráðherra tvíhliða fund með Phumzile framkvæmdastýru UN Women þar sem HeForShe átakið var efst á baugi.

Til baka Senda grein