Hoppa yfir valmynd
23. mars 2001 Forsætisráðuneytið

Gengið til samninga við Búnaðarbanka Íslands hf. og PriceWaterhouseCoopers

Reykjavík
23. mars 2001

Fréttatilkynning

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu, f.h. samgönguráðuneytisins, hefur ákveðið að ganga til samninga við Búnaðarbanka Íslands hf. og PriceWaterhouseCoopers í London og Reykjavík um þjónustu vegna fyrirhugaðrar sölu á hlutabréfum ríkisins í Landssíma Íslands.

Ákvörðun nefndarinnar byggir á mati á tilboðum vegna verkefnisins. Um er að ræða ráðgjöf við 1. og 2. áfanga sölunnar í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 26. janúar 2001 þ.e. sölu til almennings, starfsmanna og fjárfesta á 24% hlutafjár í fyrirtækinu og sölu á 25% hlutafjár til kjölfestufjárfestis. Ráðgjöfinni er skipt í þrjá eftirfarandi verkþætti:

1. Verðmat
2. Skráningu og sölu hlutabréfa innanlands
3. Sölu til kjölfestufjárfestis

Samkvæmt einkunnagjöf við mat á tilboðum var tilboð PriceWaterhouseCoopers hagstæðast í áfanga 1 og 3 en tilboð Búnaðarbanka Íslands hf. í áfanga 2.
Mikill áhugi var á verkefninu og alls stóðu 17 fjármálastofnanir og ráðgjafafyrirtæki, innlend og erlend, að 14 tilboðum.

Á næstu dögum mun nefndin ganga frá samningum um ráðgjöfina með fyrirvara um samþykkt Alþingis á sölu hlutabréfanna en frumvarp um heimild til sölu á hlutafé ríkisins í Landssíma Íslands hf. mun verða lagt fram í ríkisstjórn n.k. þriðjudag.

Nánari upplýsingar veitir Skarphéðinn Berg Steinarsson í síma 861-8305.

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum