Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2001 Forsætisráðuneytið

Að loknu Norðurlandaráðsþingi

2. nóvember 2001

Að loknu Norðurlandaráðsþingi

Norðurlandaráðsþingi, hinu 53. í röðinni, lauk síðastliðinn miðvikudag. Þingið samþykkti meðal annars ,,Nýja norræna dagskrá", en hún hefur að geyma tillögur að nýju skipulagi á starfsemi Norðurlandaráðs og framtíðarverksviði þess, auk nýrrar stefnumótunar fyrir Norrænu ráðherranefndina. Ný norræn dagskrá byggir að verulegu leyti á þeim tillögum sem fram komu í skýrslu aldamótanefndarinnar, ,,Norðurlönd 2000 - umleikin vindum veraldar".

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra og norrænn samstarfsráðherra tók þátt í almennum umræðum eftir ávörp norrænu forsætisráðherranna. Þá mælti hún fyrir tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar um nýja samstarfsáætlun fyrir Norðurheimsskautssvæðið auk þess sem hún tók til máls í umræðum þingsins um sjálfbæra þróun. Í fjarveru Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra sat Siv Friðleifsdóttir fund norrænna utanríkisráðherra og utanríkisviðskiptaráðherra, auk þess sem hún átti fund með norrænum samstarfsráðherrum.

Siv Friðleifsdóttir sat og fund norrænna umhverfisráðherra þar sem meðal annars var rætt um kjarnorkuendurvinnsluverið Sellafield í Englandi og áhrif umhverfismengunar sem af þeirri starfsemi hlýst. Umhverfisráðherrarnir áttu nýlega fund í Lúxemborg með breskum ráðherrum þar sem málefni Sellafield voru rædd, og var þeirri umræðu framhaldið á nýafstöðnu þingi Norðurlandaráðs. Á sameiginlegum fréttamannafundi lýstu norrænu umhverfisráðherrarnir yfir þungum áhyggjum af ástandi mála við Sellafield, en mengunar frá verinu hefur nýlega orðið vart í Barentshafi og í hafinu umhverfis Svalbarða. Mun lengri tíma tekur fyrir mengandi efni frá verinu að berast til hafsvæðanna kringum Ísland. Norrænir umhverfisráðherrar hafa margoft krafist þess að Bretar geri allt sem hægt er til þess að draga úr þeirri mengun sem nú kemur frá Sellafield.

Siv Friðleifsdóttir tók virkan þátt í þeirri umræðu um umhverfismál og sjálfbæra þróun sem oftsinnis bar á góma á þinginu og svaraði fyrirspurnum þar að lútandi varðandi Ísland sérstaklega og norræna samstarfið almennt.

Um næstkomandi áramót munu Finnar láta af formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og Norðmenn taka við. Í stefnuræðu Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, kom fram að Norðmenn munu einkum leggja áherslu á málefni barna og ungmenna á formennskuári sínu, auk matvælaöryggis og sjálfbærrar þróunar á Norðurlöndum og grannsvæðunum. Finnski þingmaðurinn Outi Ojala var kjörin nýr forseti Norðurlandaráðs en 54. þing þess verður haldið í Helsinki í lok október 2002.
Norðurlandaskrifstofa

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum