Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2002 Forsætisráðuneytið

Vísitala neysluverðs

Vísitala neysluverðs


Á fundi ríkisstjórnarinnar 15. janúar sl. var fjallað um hækkun vísitölu neysluverðs í byrjun janúar og hlut opinberra verðhækkanna í hækkun vísitölunnar. Var ákveðið að láta fara sérstaklega yfir hækkanirnar og kanna hvaða leiðir væru til þess að sporna við þeim. Þessi ákvörðun var kynnt fulltrúum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins á fundi daginn eftir.

Hér með fylgir greinargerð um áhrif gjaldskrárhækkananna á neysluverðsvísitölu í janúar. Jafnframt er þar greint frá aðgerðum til þess að áhrif þessi gangi til baka.



Ákvarðanir um lækkun
gjaldskrár í heilbrigðiskerfinu
og lækkun afnotagjalda ríkisútvarpsins


1. Áhrif gjaldskrárhækkana ríkisins á neysluverðsvísitölu í janúar

Um áramótin hækkuðu komugjöld á heilsugæslustöðvum úr 700 í 850 krónur og fastagjald hjá sérfræðilæknum fór úr 1.800 í 2.100 krónur. Auk þess var fyrirkomulagi kostnaðarþátttöku notenda breytt. Áhrif þessara breytinga á janúarvísitölu eru metin um 0,06%.

Afnotagjöld Ríkisútvarpsins hækkuðu um 7% um áramótin. Áhrifin á vísitölu eru 0,04%.

Hækkun skólagjalda í framhaldsskólum kom að hluta til framkvæmda um áramótin og leiddi til 0,01% hækkunar vísitölu.

Vopnaleitargjald var hækkað um áramótin. Áhrif á vísitölu voru 0,01%.

Aukin greiðsluþátttaka í lyfjakostnaði sem kom til framkvæmda um áramótin með 10% hækkun gólfs og þaks er talin hafa leitt til 0,04% hækkunar janúarvísitölu. Heildaráhrif hækkunar á þessum vísitölulið eru hins vegar um 0,12%. Ætla má að mismunurinn stafi af áhrifum gengislækkunar, afnámi eða lækkun á afslætti, hærra innkaupsverði erlendis frá og etv. hækkun álagningar.

Samanlögð áhrif þessara gjaldskrárhækkana á janúarvísitölu eru því 0,16%, eða um 1/6 af heildarhækkuninni.

Einnig er í forsendum fjárlaga fyrir árið 2002 gert ráð fyrir hækkun á áfengisgjaldi. Tímasetning þessarar hækkunar var ekki ákveðin en miðað við að hún skilaði um 400 m.kr. tekjuauka á árinu. Það jafngildir tæplega 7% hækkun gjaldsins m.v. heilt ár. Áætluð verðáhrif m.v. 7% hækkun eru 4% hækkun útsöluverðs og 0,06-0,07% í vísitölu.


2. Verðlagshorfur á næstunni

Flestar spár gera ráð fyrir að verulega dragi úr verðbólgu á næstu mánuðum. Það atriði sem getur vegið hvað þyngst til lækkunar á vísitölunni á næstunni eru áhrif gengishækkunar krónunnar á innflutningsverð, en þau nema um 3S% frá meðaltali síðustu þriggja mánaða og 5S% sé miðað við nóvembermánuð þegar gengið var hvað lægst. Haldist gengið stöðugt munu þessi áhrif geta skilað sér í umtalsverðri lækkun á vísitölunni. Hins vegar er hækkun á mjólkurvörum ekki að öllu leyti komin fram í vísitölunni.

Á næstu mánuðum koma einnig nokkrir árstíðabundnir þættir inn í vísitöluna svo sem hækkun grænmetis í apríl/maí vegna tolla á innflutt grænmeti. Á móti vegur fyrirhuguð tollalækkun þannig að ætla má að þessi hækkun verði óveruleg ef nokkur. Ennfremur er líklegt að mikil hækkun ávaxta og grænmetis í janúar gangi til baka, jafnvel strax í febrúar. Þá má nefna útsöluáhrif sem yfirleitt lækka vísitöluna í janúar og febrúar en ganga síðan að nokkru til baka í mars og apríl. Hækkun skólagjalda í framhaldsskólum mun hins vegar ekki skila sér endanlega inn í vísitöluna fyrr en næsta haust, en talið er að vísitöluáhrifin verði óveruleg.


3. Hugmyndir um lækkun gjaldskrár

Við undirbúning aðgerða var fyrst og fremst fjallað um þær gjaldskrárákvarðanir sem þegar hafa verið teknar og komu til framkvæmda um áramótin. Jafnframt var miðað við að unnt væri að breyta gjaldskránum með reglugerð eða auglýsingu og að tryggt væri að breytingarnar skiluðu sér strax og að fullu inn í næstu vísitölumælingu.

Ennfremur var fremur horft til lækkunar komu- og fastagjalda en að hrófla við þeim breytingum sem gerðar voru á fyrirkomulagi kostnaðarþátttöku í sérfræðilækningum. Þessum gjöldum má breyta með reglugerð og lækkunaráhrifin skila sér strax í vísitölunni. Þá var heldur ekki talið ráðlegt að eiga við gjaldtöku vegna lyfjakostnaðar þar sem engin trygging er fyrir því að lækkunin skili sér í lægra útsöluverði og þar með í lækkun á vísitölu þar sem verðlagning lyfja er frjáls.


4. AÐGERÐIR

Komugjald á dagvinnutíma á heilsugæslustöðvum lækkar úr 850 í 400 krónur og úr 350 í 200 krónur fyrir lífeyrisþega og börn. Jafnframt verður hækkun komugjalda utan dagvinnutíma dregin til baka - Vísitöluáhrif 0,08%.
Fastagjald til sérfræðilækna lækkar úr 2.100 í 1.600 krónur og verður því 200 krónum lægra en það var fyrir áramót. Eftir sem áður greiða notendur 40% af því sem umfram er - Vísitöluáhrif 0,02%.
Hækkun á afnotagjöldum ríkisútvarpsins um 7% verður dregin til baka - Vísitöluáhrif 0,04%.
Samanlagt munu þessar aðgerðir lækka vísitölu neysluverðs í febrúar um 0,14%.
Jafnframt verður fallið frá hækkun áfengisgjalds og heildaráhrif af þessum aðgerðum nema þannig amk. 0,2% til lækkunar á vísitölu.
Þessar aðgerðir kosta ríkissjóð um 750 m.kr. m.v. heilt ár.


Í forsætisráðuneytinu, 31. janúar 2002.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum