Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2002 Forsætisráðuneytið

Endurskoðun laga um Rannsóknarráð Íslands

Frétt nr.: 3/2002

Endurskoðun laga um Rannsóknarráð Íslands

Endurskoðun laga um Rannsóknarráð Íslands hefur staðið yfir að undanförnu í samráði við ýmsa þá, sem þekkja vel til starfsemi þess og þeirra breytinga, sem orðið hafa á rannsóknaumhverfinu á síðustu árum. Niðurstaða þessarar endurskoðunar er sú, að samin hafa verið þrjú lagafrumvörp, sem fela í sér verulegar breytingar á stjórnskipulagi rannsóknarráðs og tengdra aðila. Í fyrsta lagi er um að ræða frumvarp til laga um Vísinda- og tækniráð, sem lagt er fram af forsætisráðherra, í öðru lagi frumvarp til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, sem lagt er fram af menntamálaráðherra, og í þriðja lagi frumvarp til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, sem lagt er fram af iðnaðarráðherra.

Frumvarp til laga um Vísinda- og tækniráð
Frumvörpin gera ráð fyrir að stefnumótun í málefnum vísindarannsókna og tækniþróunar fari fram í Vísinda- og tækniráði. Vægi málaflokksins er aukið með því að stefnumótun fer fram í ráði sem fjórir ráðherrar eiga sæti í og starfar undir stjórn forsætisráðherra. Þar koma ráðherrar auk vísindamanna og fulltrúa atvinnulífs saman til stefnumótunar í málefnum rannsókna og þróunar. Er þetta nýlunda á hér á landi, en oft hefur verið bent á að það hafi staðið málaflokknum fyrir þrifum, að heyra ekki undir eina yfirstjórn.

Markmið þessa frumvarps er að finna hentugt fyrirkomulag til að samhæfa starfsemi hins opinbera og sameina þá þætti sem hagkvæmt virðist. Einnig þarf að samræma sjónarmið opinberra aðila og einkaaðila varðandi stefnu í mennta-, vísinda- og tæknimálum.

Við gerð frumvarpsins var víða leitað fanga og var skipulag rannsóknarmála í Finnlandi að nokkru haft til hliðsjónar. Finnar hafa náð góðum árangri á þessu sviði á skömmum tíma og er talið að þann árangur megi rekja til þess vægis sem þessum málaflokki hefur verið gefið og einnig til skipulags vísinda- og tæknimála þar í landi.

Auk forsætisráðherra er gert ráð fyrir að fjármálaráðherra, menntamálaráðherra og iðnaðarráðherra eigi sæti í vísinda- og tækniráði ásamt 14 fulltrúum tilnefndum af þeim svo og af sjávarútvegsráðherra, landbúnaðarráðherra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og umhverfisráðherra og af aðilum vinnumarkaðarins og háskólunum. Þá er gert ráð fyrir að hinir tilnefndu fulltrúar eigi jafnframt sæti í tveimur nefndum, sem undirúa stefnumótun ráðsins á hvoru sviði um sig, þ.e. vísindanefnd, sem menntamálaráðherra skipar, annars vegar og tækninefnd, sem iðnaðarráðherra skipar, hins vegar.

Frumvarp til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir
Frumvarp þetta fjallar um opinberan stuðning við vísindarannsóknir í samræmi við þá skiptingu að vísindarannsóknir heyri undir menntamálaráðherra en tækniþróun undir iðnaðarráðherra, sem frumvarp til laga um Vísinda- og tækniráð byggist á. Lagt er til að nýr sjóður, Rannsóknasjóður taki við hlutverki Vísindasjóðs og Tæknisjóðs skv. núgildandi lögum um Rannsóknarráð Íslands nr. 61/1994. Stjórn Rannsóknasjóðs tekur við hlutverki því sem úthlutunarnefndir höfðu áður. Þá er lagt til að Tækjasjóður taki við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs skv. sömu lögum. Einnig er lagt til að Þjónustumiðstöð vísindarannsókna taki við meginhluta þeirrar starfsemi, sem nú er unnin af skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands skv. sömu lögum. Hins vegar er lagt til að Rannsóknanámssjóður starfi áfram.

Rannsóknasjóður mun gegna lykilhlutverki varðandi styrkveitingar til vísindarannsókna, bæði grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna. Sjóðurinn mun styrkja rannsóknir samkvæmt skýrum kröfum um vísindalegan framgang, birtingu og skil á vísindalegum niðurstöðum, hvort sem tilgangur er hagnýtur eða ekki. Hin óþörfu mörk milli sjóðanna sem hindrað hafa samanburð umsókna vegna mismunandi uppruna þeirra munu hverfa. Áhersla verður lögð á að rannsóknir séu styrktar eftir gæðum, sem metin verða samkvæmt faglegum kröfum á viðkomandi sviði. Með þessu er verið að tryggja að sambærileg viðmið gildi við mat á umsóknum um styrki, hvort sem um er að ræða grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir.

Gert ráð fyrir að Tækjasjóður taki við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs. Lagt er til að hlutverk Tækjasjóðs verði að veita rannsóknastofnunum styrki til kaupa á dýrum tækjum og búnaði vegna rannsókna. Það er nýlunda í þessu frumvarpi að sömu aðilar sitji í stjórn Rannsóknasjóðs og stjórn Tækjasjóðs og úthluti styrkjum á þann hátt sem hér er lagt til. Með því að hafa sömu stjórn í báðum sjóðunum er leitast við að samþætta úthlutanir Tækjasjóðs við úthlutanir úr Rannsóknasjóði.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Rannsóknanámssjóður styrki rannsóknatengt framhaldsnám til meistara- eða doktorsgráðu við íslenska skóla á háskólastigi sem bjóða framhaldsnám og stunda vísindalegar rannsóknir. Gert er ráð fyrir að einungis nemendur sem stunda framhaldsnám við íslenska háskóla geti fengið styrk úr sjóðnum. Þetta er nýlunda. Í núverandi reglum um Rannsóknanámssjóð nr. 974/2000 er unnt fyrir nemanda að fá styrk úr sjóðnum þó að hann stundi nám í erlendum háskóla, svo framarlega sem rannsóknarverkefnið fjalli um íslenskt viðfangsefni. Framboð framhaldsnáms í háskólum hefur aukist mjög frá því að Rannsóknanámssjóðurinn var settur á fót árið 1995 og mun fleiri stunda framhaldsnám hérlendis en áður. Mikilvægt er að styrkir Rannsóknanámssjóðs nýtist til að efla framhaldsnám á Íslandi. Þessi skilyrði hindra ekki að nemendur geti tekið hluta af námi sínu við erlenda háskóla, enda sé nemandinn skráður í háskóla hér á landi.

Samkvæmt frumvarpinu tekur Þjónustumiðstöð vísindarannsókna að mestu leyti við hlutverki núverandi skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands, en tekur þó ekki þátt í stefnumótunarstarfi Vísinda- og tækniráðs á annan hátt en að veita ráðgjöf og upplýsingar, sé eftir því óskað. Er það í samræmi við markmið endurskoðunar á lögum nr. 61/1994, sem byggist á því að skýrari mörk verði dregin á milli stefnumótunar á sviði rannsókna annars vegar og úthlutunar styrkja og þjónustu við rannsóknaaðila hins vegar. Munu menntamálaráðuneytið og iðnaðarráðuneytið því annast umsýslu fyrir vísindanefnd og tækninefnd, svo sem að annast undirbúning og boðun funda og ritun fundargerða.

Frumvarp til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í atvinnulífinu
Frumvarp til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins hefur að markmiði að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Því markmiði verði náð með því að byggja upp tæknilega getu fyrirtækja og frumkvöðla til að takast á við tækniþróun sem leitt getur til nýsköpunar í atvinnulífinu. Frumvarpið fjallar um þær aðgerðir sem beita þarf til þess að vísindaleg þekking geti orðið að söluhæfum afurðum, vörum eða þjónustu, og þannig skilað fjárfestingum í vísindarannsóknum aftur út í efnahagslífið. Farvegur þessara aðgerða er annars vegar nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og hins vegar Tækniþróunarjóður.

Nýsköpunarmiðstöðin verður vettvangur miðlunar þekkingar til fyrirtækja og frumkvöðla þar sem m.a. verður veitt leiðsögn um stofnun og rekstur fyrirtækja, tæknileg úrlausnarefni leyst og nýrri þekkingu miðlað til atvinnulífsins, sem er forsenda þess að það geti fylgst með alþjóðlegri þróun og staðist aukna samkeppni á alþjóðamarkaði. Að auki er nýsköpunarmiðstöðinni ætlað að hafa frumkvæði um gagnvirkt samstarf á milli vísindamanna, stofnana og fyrirtækja um málefni er lúta að nýsköpun atvinnulífsins.

Tækniþróunarsjóði er ætlað að koma að fjármögnun tækniþróunar nýsköpunarverkefna og rannsókna er tengist henni, í samræmi við meginstefnu Vísinda- og tækniráðs. Nýsköpunarstigið hefst við lok hagnýtra rannsókna og tekur m.a. til markvissrar þróunar og rannsóknarvinnu með markaðs- og notendatengdum áherslum. Það er á þessu stigi sem reynir á hvort hin vísindalega þekking getur orðið að söluhæfri vöru.

Í Reykjavík, 8. febrúar 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum