Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2004 Forsætisráðuneytið

Útgáfa á Sögu Stjórnarráðs Íslands

Saga stjórnarráðsins
Saga Stjórnarráðs Íslands


Árið 1969 kom út á vegum Sögufélagsins rit Agnars Kl. Jónssonar Stjórnarráð Íslands 1904–1964 sem fjallaði um stofnun þess og störf.

Í tengslum við 95 ára afmæli stjórnarráðsins árið 1999 var tekin ákvörðun um að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið og gefa út sögu næstu fjörutíu ára á aldarafmæli stjórnarráðsins 1. febrúar 2004. Í því skyni var skipuð ritstjórn undir forystu Björns Bjarnasonar ráðherra, en ásamt honum áttu í henni sæti Heimir Þorleifsson sagnfræðingur og Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður.

Forsætisráðherra og ritnefndin kynntu á blaðamannafundi í nóvember árið 2000 væntanlega ritun sögu Stjórnarráðs Íslands. Þar kom fram að Sumarliði Ísleifsson, sagnfræðingur, hefði verið ráðinn til að ritstýra verkinu og að sex fræðimenn hefðu verið ráðnir til að fjalla um einstaka þætti verksins. Einnig kom fram að áætlaður kostnaður við söguritunina fram að útgáfu bókanna væri áætlaður 40 milljónir króna. Frá upphafi var áhersla lögð á vandaða útgáfu og höfundum verksins ætlað að leggja á sig ítarlegar rannsóknir í þeim tilgangi.

Í fjárlögum 2000 –2004 hafa verið veittar 59,6 m.kr. til ritunar og útgáfu verksins. Nú liggur fyrir að kostnaðurinn verður nokkru minni, eða um 54 m.kr. Kostnaður við verkið fram að útgáfu er 40 m.kr. líkt og áætlað var í upphafi. Af þeirri fjárhæð eru 37,5 m.kr. launagreiðslur til höfunda, ritstjórnar og ritnefndar, 1,5 m.kr. vegna ljósmynda og 1,0 m.kr. ýmis kostnaður. Kostnaður við umbrot, prentun og bókband er áætlaður um 14 m.kr. Í framangreindum fjárhæðum er ekki tekið tillit til sölutekna, en á þessari stundu er ekki unnt að áætla þær með neinni vissu.

Fyrstu eintök Sögu Stjórnarráðsins verða kynnt og afhent Davíð Oddssyni forsætisráðherra í Þjóðmenningarhúsinu sunnudaginn 1. febrúar nk.

Í Reykjavík, 26. janúar 2004

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum