Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2004 Forsætisráðuneytið

Viðhorfskönnun um jafnréttismál

Í árslok 2003 var lögð fyrir starfsmenn Stjórnarráðs Íslands könnun um viðhorf þeirra til jafnréttismála. Könnunin var liður í gerð jafnréttisáætlana og markmiðasetningar í jafnréttismálum ráðuneyta. IMG Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar í samvinnu við jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. IMG Gallup hefur nú lokið úrvinnslu svara og niðurstöður hafa verið kynntar yfirstjórn ráðuneyta. Alls svöruðu 432 af 635 eða 68% starfsmanna.

Helstu niðurstöður

Víða er munur á svörum karla og kvenna. Í flestum tilvikum eru karlar ánægðari með stöðu jafnréttismála en konur og telja að markvissar sé unnið að því að jafna stöðu kynjanna. Rétt tæp 60% karla eru ánægðir með stöðu jafnréttismála en rétt rúmur fjórðungur kvenna.

Mat á jafnrétti er jákvæðast þegar spurt er um viðhorf starfsmanna til þess hvort gerðar séu sömu kröfur til kynjanna, en þar segir 81% að gerðar séu sömu kröfur til karla og kvenna hjá ráðuneytunum. Matið er lakast þegar kemur að jafnrétti í launum og hlunnindum, en hvað varðar jafnrétti launa þá telja 45% að karlar og konur fái greidd sömu laun fyrir sambærileg störf og vinnutíma og 52% telja að karlar og konur fái sömu hlunnindi fyrir sambærileg störf og vinnutíma.

Um 77% telja að þeirra eigin kynferði skipti ekki máli varðandi starfsframa, en 57% telja að kynferði þeirra skipti ekki máli varðandi launakjör. Um 9% karla telja kynferði sitt hindri starfsframa en 26% kvenna. Tæp 4% karla telja að kynferði sitt sé til hindrunar varðandi launakjör en rúm 60% kvenna.

Vinnuálag starfsmanna virðist nokkuð mikið og meira en almennt meðal starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu. Þannig telja tæp 82% starfsmanna stjórnarráðsins að vinnuálag þeirra sé mjög eða frekar mikið en rúm 70% starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt könnun Gallup frá 2003. Mat fólks á vinnuálagi getur mótast af ýmsum þáttum í starfsumhverfi starfsmanna, þó þar séu vinnutími fólks og ábyrgð í starfi án efa mikilvægustu þættirnir.

Tæp 53% telja vinnutímann of langan, þar af tæp 14% alltof langan. Ríflega 62% segjast mjög eða frekar oft taka verkefni með heim til að vinna þau þar og er það algengara en meðal ríkisstarfsmanna almennt samkvæmt könnun fjármálaráðuneytisins frá 1999 en þar sögðust 19% nær alltaf eða oft taka verkefni með heim til að vinna þau þar.

Mikið vinnuálag endurspeglast líka í því að mat fólks á jafnvægi vinnu og einkalífs er lakara en gengur og gerist í samanburði við gagnabanka IMG Gallup. Einnig er mat starfsmanna stjórnarráðsins lakara en meðal starfandi fólks almennt, samkvæmt könnun Gallup frá 2000, hvað varðar það hvort fólk skortir orku til að gera eitthvað með fjölskyldunni eða mikilvægum aðilum í lífi þess. Ekki er munur á mati karla og kvenna á jafnvægi vinnu og einkalífs og skorti fólks á orku til að gera eitthvað með fjölskyldunni, en mat fólks er mun neikvæðara eftir því sem vinnutími lengist. Matið er einnig neikvæðara meðal háskólamenntaðra en starfsmanna með aðra menntun.

Ánægja fólks með starfið og vinnuveitandann er almennt notað sem heildarmat fólks á starfsumhverfi sínu. Ánægjan er heldur lakari en hjá fyrirtækjum í gagnabanka IMG Gallup, en áþekkari ánægju ríkisstarfsmanna, sbr. fyrrnefnda könnun fjármálaráðuneytis. Ánægja karla er heldur meiri en kvenna, ánægja eldra fólks er heldur meiri en yngra fólks. Ánægja vex einnig með starfsaldri og vinnutíma.

Mat starfsmanna á því hvort álit þeirra skipti máli í vinnunni er áþekkt eða heldur hærra hjá stjórnaráðinu en í gagnabankanum og umboð til athafna og sveigjanleiki er áþekkur eða heldur meiri hjá stjórnarráðinu en hjá starfandi fólki almennt. Yfir 69% svarenda telja mjög eða frekar líklegt að þeir myndu nýta sér aukinn sveigjanleika í starfi ef hann stæði þeim til boða. Þessi áhugi vex með aukinni fjölskylduábyrgð, er lítið eitt meiri hjá konum, enda telja þær sveigjanleika sinn lítið eitt minni en karlar gera. Mat fólks á því hvort álit þess skipti máli vex með aukinni menntun og er hæst hjá starfshópum undir kjaranefnd, en lægst hjá fólki í félögum innan BSRB. Karlar telja frekar að álit þeirra skipti máli en konur.

Mat fólks á vinnuaðstöðu er jákvæðara en í gagnabanka IMG Gallup en mat á upplýsingastreymi um mikilvægar ákvarðanir og breytingar lakara en hjá fyrirtækjum í gagnabanka IMG Gallup. Mat karla er í báðum tilvikum heldur jákvæðara en mat kvenna.

Hvatning til að þróast er áþekk því sem er í gagnabanka IMG Gallup. Mat á tækifærum til endurmenntunar er betra en hjá ríkisstarfsmönnum almennt, sé miðað við könnun fjármálaráðuneytisins. Ríflega helmingur (54%) starfsmanna hefur sóst eftir aukinni ábyrgð og/eða stöðuhækkun á sl. 5 árum og ríflega 57% hafa fengið stöðuhækkun eða aukna ábyrgð á sl. 5 árum.

Ekki virðist vanta á skilning yfirmanna þegar starfsmenn þurfa að sinna fjölskyldu- og einkamálum en tæp 87% starfsmanna voru mjög eða frekar sammála. Starfsmenn telja það þó heldur erfiðara fyrir karla en konur, en mat kynjanna á þessu er ólíkt og telja konur það auðveldara fyrir karla en karlar telja það auðveldara fyrir konur.

Um 79% starfsmanna telja töku fæðingarorlofs hvorki til hindrunar eða framdráttar fyrir karla (77% karla og 79% kvenna). Heldur færri, eða 75%, telja að taka fæðingarorlofs sé hvorki til hindrunar eða framdráttar fyrir konur (85% karla og 68% kvenna). Mat starfsmanna stjórnarráðsins er jákvæðara hvað varðar áhrif fæðingarorlofsins fyrir karla en neikvæðara hvað varðar konur, þegar niðurstaðan er borin saman við könnun IMG Gallup frá 2003.

Á næstu vikum verða niðurstöður kynntar öllum starfsmönnum ráðuneytanna. Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta og jafnréttisnefndir munu síðan í framhaldinu nýta niðurstöður könnunarinnar til að vinna aðgerðaráætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna þar sem þörf er á og uppfæra jafnréttisáætlanir ráðuneytanna gefi þær tilefni til þess.

                                                                                                                    Í Reykjavík, 23. febrúar 2004.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum