Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2002 Forsætisráðuneytið

Vestnorrænt samstarf innsiglað

16. apríl 2002

Fréttatilkynning:

Vestnorrænt samstarf innsiglað


Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Íslands, landsstjórna Færeyja og Grænlands og Vestnorræna ráðsins hefur verið undirrituð en það var gert í tengslum við þemaráðstefnu Norðurlandaráðs um lýðræði. Með samstarfsyfirlýsingunni er stigið mikilvægt skref í þá átt að formfesta og innsigla samstarf ráðsins við stjórnvöld í viðkomandi löndum.

Siv Friðleifsdóttir samstarfsráðherra undirritaði yfirlýsinguna fyrir Íslands hönd, en Lise Lennert, samstarfsráðherra Grænlendinga hafði þá þegar undirritað hana á Grænlandi. Samstarfsráðherra Færeyinga, Høgni Hoydal gerði hlé á kosningabaráttu sinni og kom sérstaklega til Íslands vegna undirritunarinnar, en Hjálmar Árnason formaður Vestnorræna ráðsins undirritaði yfirlýsinguna fyrir þess hönd.

Í samstarfsyfirlýsingunni segir að samstarf ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Grænlands og Færeyja við Vestnorræna ráðið muni fara fram með gagnkvæmri upplýsingagjöf á árlegum fundi aðila í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Þá munu samstarfsráðherrarnir taka þátt í ársfundi Vestnorræna ráðsins, þegar tök eru á og sömuleiðis munu hlutaðeigandi ráðherrar taka þátt í þemafundum þess. Þá lýsa samstarfsráðherrarnir því yfir að þeir muni árlega gefa Vestnorræna ráðinu skýrslu um viðbrögð landanna við tilmælum þess og um samstarf landanna.

Vestnorræna þingmannaráðið var stofnað í Nuuk á Grænlandi árið 1985 sem samstarfsvettvangur Lögþings Færeyja, landsþings Grænlands og Alþingis. Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið, en í því sitja 18 þingmenn, 6 frá hverju landi. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfis- og auðlindamál, aukið menningarsamstarf landanna og skóla- og íþróttasamvinnu, svo fátt eitt sé nefnt. Ályktanir Vestnorræna ráðsins eru lagðar fram á Alþingi í formi þingsályktunartillagna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum