Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2002 Forsætisráðuneytið

Menningarhátíð í Berlín

Frétt nr.: 13/2002

Íslensk menningarhátíð í Berlín

Dagana 23. til 26. apríl nk. verður íslenska menningarhátíðin Island Hoch haldin í Berlín. Kynntar verða bókmenntir, kvikmyndir og tónlist. Margir íslenskir listamenn taka þátt í hátíðinni sem fram fer víða í Berlín.

Davíð Oddsson forsætisráðherra og Gerhard Schröder kanslari Þýskalands opna menningarvikuna við hátíðlega athöfn í Berliner Festspiele þriðjudagskvöldið 23. apríl nk. Við opnunina mun Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur halda erindi um störf nóbelsskáldsins Halldórs Laxness og Gunnar Guðbjörnsson tenórsöngvari syngja íslensk lög.

Hátíðin er haldin þegar 50 ár eru liðin frá stofnun stjórnmálatengsla Íslands og Þýskalands, en þeirra tímamóta verður minnst með ýmsum hætti bæði í Þýskalandi og á Íslandi. Er Island Hoch hátíðin einn stærsti viðburðurinn sem haldinn er af þessu tilefni.

Jafnframt er þess sérstaklega minnst að á árinu 2002 eru hundrað ár liðin frá fæðingu Halldórs Laxness. Er hátíðin sett á afmælisdegi nóbelsskáldsins, sem er þekktastur merkisberi íslenskrar menningar í Þýskalandi eins og víða annars staðar.

Yfirlitssýning um ævi og störf Laxness verður í sameiginlegri byggingu norrænu sendiráðanna til 31. maí nk. Þar verður lesið daglega úr Brekkukotsannál á þýsku. Sams konar yfirlitssýning verður einnig opnuð í háskólanum í Erlangen 23. apríl nk. Sá dagur er árlegur dagur bókarinnar samkvæmt ákvörðun Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1995. Bókmenntaþátturinn verður þungamiðja Island Hoch í Berlín, en auk kynningar á Halldóri Laxness munu íslenskir rithöfundar lesa úr verkum sínum 23., 24. og 25. apríl á ýmsum stöðum í borginni.

Þrettán íslenskar kvikmyndir verða sýndar í kvikmyndahúsinu Babylon dagana 23. til 27. apríl. Í sömu viku verður kvikmyndin Óskabörn þjóðarinnar frumsýnd í Berlín í öðru kvikmyndahúsi. Margir íslenskir tónlistarmenn munu koma fram í Berlín þessa viku.

Hátíðin er skipulögð af sendiráði Íslands í Berlín, Steidl bókaútgáfunni í Göttingen, sem gefið hefur út verk Laxness, og Berliner Festspiele, í samvinnu við ýmsa aðila, m.a. Kvikmyndasjóð Íslands, kvikmyndadreifingarfyrirtækið Amuse, Bókmenntakynningarsjóð, Literarisches Colloquium Berlin, Arena sýningarhúsið og Flugleiðir hf.

Forsætisráðherra mun jafnframt eiga fund með þýsk-íslenska verslunarráðinu í hádeginu 24. apríl nk. og lesa upp úr bók sinni Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar í boði sendiráðs Íslands og Steidl bókaútgáfunnar, sem gefur bókina út í Þýskalandi, síðdegis þann sama dag.

Í Reykjavík, 18. apríl 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum