Hoppa yfir valmynd
24. júní 2004 Forsætisráðuneytið

Endurútgáfa á ritinu Stjórnarráð Íslands 1904-1964

Forsætisráðuneytið hefur í tilefni af aldarafmæli Stjórnarráðs Íslands og heimastjórnar endurútgefið rit Agnars Klemensar Jónssonar Stjórnarráð Íslands 1904–1964 sem kom fyrst út árið 1969.

Í tilefni sextíu ára afmælis Stjórnarráðsins árið 1964 hafði Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, farið þess á leit við Agnar Kl. Jónsson að hann tæki saman rit um sögu Stjórnarráðsins. Vann Agnar að skriftunum næstu árin til viðbótar annasömum embættisskyldum sínum sem ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu.

Á þeim 35 árum sem liðin eru frá útkomu verksins hefur það reynst einkar gagnlegt þeim sem starfa í stjórnsýslunni, ekki síst stjórnmálamönnum sem og almenningi, fræðimönnum og fjölmiðlum. Í reynd hefur ritið verið grundvallarrit um sögu íslensku stjórnsýslunnar og stjórnmálaþróun á Íslandi. Um árabil hefur það verið algerlega ófáanlegt, en jafnframt verið meðal mest lánuðu rita úr safnakosti Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Verkið er nú endurútgefið nánast óbreytt frá fyrri útgáfu og hafði Ólafur Rastrick sagnfræðingur umsjón með endurútgáfunni. Textaflöturinn er óbreyttur frá upphaflegu útgáfunni, þótt smávægilegar leiðréttingar hafi verið gerðar á stöku stað, þar sem orð höfðu fallið niður o. þ. h. Myndir hafa flestar verið endurnýjaðar, myndatextar bættir og ritinu fylgir nú myndaskrá sem ekki var í fyrri útgáfu. Þá hefur verið bætt við „áhugavökum“ á spássíum, lesendum til hægðarauka. Brotið hefur verið stækkað til samræmis við brot Stjórnarráðs Íslands 1964–2004.

Með endurútgáfunni er saga Stjórnarráðsins gerð aðgengileg frá því að framkvæmdavaldið fluttist frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur árið 1904 og til samtímans.

Sögufélag Íslands mun hafa umsjón með sölu og dreifingu ritsins.

Í Reykjavík, 24. júní 2004.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum