Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2002 Forsætisráðuneytið

Frá Norðurlandaskrifstofu

20. ágúst 2002

Ræða möguleikana á að efla
samstarf við vestnorræn grannsvæði
Fréttatilkynning


Samstarfsráðherrar Norðurlanda hittast á fundi í Kristiansand í Noregi á miðvikudag, 21. ágúst, en Siv Friðleifsdóttir samstarfsráðherra sækir fundinn fyrir Íslands hönd. Ráðherrarnir munu meðal annars fjalla um vestnorræna samstarfið almennt og möguleikana á að efla samstarf við grannsvæðin á vestnorræna svæðinu, svo semHjaltlandseyjar, Orkneyjar, Suðureyjar, Skotland og austurhéruð Kanada. Slíkt samstarf er í samræmi við óskir Íslendinga um þróun grannsvæðasamstarfsins á vettvangi norræns samstarfs, en með væntanlegri aðild Eystrasaltsríkjanna að ESB og NATO er gert ráð fyrir að einhverjar breytingar verði á samstarfinu við grannsvæðin í austri.

Ráðherrarnir munu einnig fjalla um eftirfylgni við skýrslu þá er kynnt var á þemaþingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í apríl síðastliðnum en hún fjallaði um möguleika Norðurlandabúa á að njóta ýmissa þeirra réttinda sem þeim hafa verið fengin samkvæmt norrænum samningum. Má þar nefna atriði eins og frjálsa för innan Norðurlanda, sameiginlegan vinnumarkað og félagslegt öryggi. Umrædd skýrsla leiðir í ljós að í þessum efnum er pottur víða brotinn og fólk er að reka sig á margvíslegar hindranir í stjórnkerfinu sem má meðal annars rekja til kunnáttuleysis starfsmanna um inntak norrænu samninganna. Samstarfsráðherrarnir leggja ríka áherslu á að ryðja sem fyrst úr vegi slíkum óþarfa hindrunum sem heft geta frjálsa för og hreyfanleika fólks innan þeirrar einingar sem Norðurlöndin eru. Á fundinum munu ráðherrarnir vinna áfram að mótun tillagna um lausn á þessum vanda.

Af öðrum umfjöllunarefnum fundarins má nefna málefni innflytjenda og aðlögun þeirra að norrænum samfélögum. Undanfarin 20-30 ár hafa norrænu löndin tekið við miklum fjölda innflytjenda frá löndum utan Vestur-Evrópu. Hefur aðlögun þeirra á stundum ekki verið þrautalaus og í kjölfarið hafa umræður vaknað um grundvallarhugtök eins og lýðræði, jafnræði og mannréttindi. Samstarfsráðherrarnir munu á fundi sínum ræða um aðgerðir til þess að auðvelda aðlögun innflytjenda en á næsta ári er áformað að halda þverfaglega ráðherraráðstefnu um málefni innflytjenda á Norðurlöndum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum