Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2002 Forsætisráðuneytið

Leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna

26. ágúst 2002
Frétt nr.: 30

Leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun hefst í dag, 26. ágúst, í Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Fundurinn stendur í 10 daga og lýkur 4. september. Von er á fjölmörgum þjóðarleiðtogum á fundinn, en þeir munu ávarpa hann dagana 2.-4. september.

Davíð Oddsson forsætisráðherra leiðir íslensku sendinefndina á fundinum, en einnig mun Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra sækja fundinn. Forsætisráðherra mun halda ávarp 2. september.

Fyrir fundinum liggja drög að pólitískri yfirlýsingu og framkvæmdaáætlun um áherslur ríkja heims á sviði sjálfbærrar þróunar. Einnig verða lagðar fram á fundinum hugmyndir að samstarfsverkefnum á ýmsum sviðum til að hrinda markmiðum hinna pólitísku samþykkta í framkvæmd. Fundurinn er haldinn í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá því að Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun var haldin í Ríó de Janeiro í Brasilíu, en sá fundur er talinn hafa markað straumhvörf í alþjóðasamstarfi á sviði þróunar- og umhverfismála. Á leiðtogafundinum verður farið yfir árangur síðustu tíu ára og reynt að marka helstu áherslur næsta áratugar.

Íslensk stjórnvöld hafa undirbúið þátttöku sína á leiðtogafundinum á undanförnum misserum og tekið þátt í fjórum undirbúningsfundum sem haldnir hafa verið. Stjórnvöld munu kynna á fundinum nýja stefnumörkun Íslands um sjálfbæra þróun, Velferð til framtíðar, sem samþykkt var í ríkisstjórn fyrir skömmu og er aðgengileg á vef stjórnarráðsins, www.stjr.is. Þá hafa Sameinuðu þjóðirnar tekið saman skýrslu um framkvæmd Íslands á Dagskrá 21, sem samþykkt var í Ríó árið 1992, sem byggð er á upplýsingum frá íslenskum stjórnvöldum. Sú úttekt er birt á slóðinni: http://www.un.org/esa/agenda21/natlinfo/wssd/iceland.pdf

Með ráðherrunum sem fara fyrir sendinefnd Íslands sækja ráðstefnuna sendiherra Íslands í Suður Afríku með aðsetur í Maputo, 8 fulltrúar fjögurra ráðuneyta, 4 alþingismenn, 2 fulltrúar frá Reykjavíkurborg og 2 fulltrúar félagasamtaka.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum