Hoppa yfir valmynd
3. september 2004 Forsætisráðuneytið

Gljúfrasteinn - hús skáldsins opnar

GLJÚFRASTEINN – HÚS SKÁLDSINS OPNAR

Davíð Oddsson forsætisráðherra ásamt frú Auði Laxness mun opna formlega Gljúfrastein – hús skáldsins sem safn laugardaginn 4. september kl. 14.00 að Gljúfrasteini.

Safnið opnar síðan fyrir almenningi sunnudaginn 5. september kl. 10.00 og verður það opið í vetur alla daga nema mánudaga frá kl. 10 – 17. Aðgengi að húsinu er skipulagt þannig að einungis 20 manns verður hleypt inn í einu á hálftíma fresti. Er það gert bæði út af öryggis- og forvörslu sjónarmiðum.

Reynt hefur verið að halda öllu innanstokks á Gljúfrasteini nánast óbreyttu til að gestir nái að upplifa það andrúmsloft sem ríkti í tíð Halldórs Laxness og fjölskyldu hans. Bryddað er upp á því nýnæmi að bjóða upp á hljóðleiðsögn um húsið til að auka á upplifunina af heimsókninni í safnið. Möguleikar hljóðs hafa verið nýttir til hins ýtrasta og má heyra í rödd Auðar Laxness í bland við leiðsögn, rödd Halldórs Laxness og fleiri hljóð. Þorsteinn J. Vilhjálmsson sá um samsetningu og vinnslu hljóðleiðsagnarinnar.

Dagskrá opnunar

Kl. 14.00

  • Þórarinn Eldjárn formaður stjórnar Gljúfrasteins flytur ávarp
  • Frú Auður Laxness segir nokkur orð
  • Sigrún Hjálmtýsdóttir og Hljómskálakvintettinn flytja eitt lag
  • Forsætisráðherra Davíð Oddsson ásamt frú Auði Laxness opnar Gljúfrastein formlega sem safn Halldórs Laxness.
  • Halldóra Lena Christians yngsta barnabarn Halldórs og Auðar Laxness opnar margmiðlunarsýningu í móttökuhúsi
  • Matthías Johannessen skáld opnar vef safnsins á slóðinni www.gljufrasteinn.is

Jagúar bifreið Halldórs Laxness, árg. 1968 mun standa í hlaðinu á Gljúfrasteini við opnunina og sunnudaginn 5. september. Forsætisráðuneytið festi kaup á Jagúarnum um það leyti sem gengið var frá kaupunum á Gljúfrasteini árið 2002. Jagúarinn er í góðu ásigkomulagi og mun eflaust mörgum finnast forvitnilegt að sjá þessa glæsikerru.

Margmiðlunarsýning helguð ævi og verkum Halldórs Laxness

Unnin hefur verið margmiðlunarsýning sem verður í móttökuhúsi í gamla bílskúrnum á Gljúfrasteini. Handrit að margmiðlunarsýningunni skrifuðu þeir Heimir Pálsson og Kristinn Jóhannesson en fyrirtækið Gagarín bar ábyrgð á framleiðslunni, sá um hönnun og uppsetningu margmiðlunarefnisins. Sýningin gerir ævi og verkum Halldórs Laxness góð skil í máli og myndum á lifandi hátt.

Heimasíða í samvinnu við Morgunblaðið

Á laugardaginn mun Matthías Johannesson skáld opna vef safnsins á Gljúfrasteini á slóðinni www.gljufrasteinn.is Vefurinn hefur verið unninn í samstarfi við Morgunblaðið sem hefur haldið úti fróðlegum vef um skáldið um nokkurt skeið. Á vefnum eru upplýsingar um safnið á íslensku, ensku, dönsku, þýsku og sænsku. Ítarlegar upplýsingar um Halldór Laxness og verk hans eru á íslensku auk margra góðra greina sem ritaðar hafa verið um skáldið. Þess má geta að Skeggræður Matthíasar Johannessen og Halldórs Laxness verða birtar í heild sinni á vefnum. Fjöldi mynda prýða vefinn og bera þar hæst ljósmyndir Einars Fals Kristjánssonar sem hann tók inni á Gljúfrasteini eftir að Halldór lést 1998.

Garðurinn og nánasta umhverfi

Umhverfi Gljúfrasteins hefur að hluta til verið endurskipulagt með það fyrir augum að auðvelda gestum aðgang að húsinu. Þannig hafa fatlaðir bundnir hjólastól aðgengi að fyrstu hæð hússins og móttökuhúsi. Svo skemmtilega vill til að Reynir Vilhjálmsson sem hannaði lóðina við Gljúfrastein árið 1956 hannaði einnig þær endurbætur sem gerðar hafa verið á lóðinni umhverfis húsið. Sundlaugin sem byggð var í kringum 1960 hefur verið endurgerð og verður hún til sýnis.

Frekari upplýsingar veita:

Guðný Dóra Gestsdóttir framkvæmdastjóri Gljúfrasteins, s. 586 8066 eða 863 0685, og Þórarinn Eldjárn formaður stjórnar Gljúfrasteins, s. 899 3336.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum