Hoppa yfir valmynd
19. september 2002 Forsætisráðuneytið

Opinber heimsókn forsætisráðherra Víetnams

Frétt nr.: 33/2002

Opinber heimsókn forsætisráðherra Víetnams

Í kvöld hefst opinber heimsókn forsætisráðherra Víetnams, Phan Van Kai, hingað til lands í boði Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra. Í för með forsætisráðherranum eru þrír ráðherrar úr ríkisstjórn Víetnams, aðstoðarráðherrar, embættismenn og sérstök viðskiptasendinefnd.

Á dagskrá heimsóknarinnar eru fundir með forsætisráðherra, sjávarútvegsráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra og forseta Íslands, auk heimsókna í Ráðhús Reykjavíkur og fyrirtæki. Á laugardag fara forsætisráðherrann og fylgdarlið í hefðbundna skoðunarferð um Suðurland; til Nesjavalla, Þingvalla, og að Gullfossi og Geysi. Haldið verður af landi brott snemma sunnudagsmorguns.

Með þessari heimsókn er endurgoldin heimsókn Davíðs Oddssonar til Víetnams í apríl sl. Með í þeirri för var fjölmenn sendinefnd íslenskra fyrirtækja á vegum Útflutningsráðs Íslands. Í tengslum við heimsóknina nú mun verða efnt til sérstaks hádegisverðarfundar á morgun, föstudag, sem að standa Útflutningsráð og sjávarútvegsráðuneytið, þar sem forsætisráðherra Víetnams mun kynna land sitt sem samstarfsland í viðskiptum. Til þess fundar er boðið öllum þeim sem hafa hug á að eiga viðskipti við víetnömsk fyrirtæki og gefst þeim kostur á tvíhliða fundum með fulltrúum úr hinni víetnömsku viðskiptasendinefnd.

Á meðan heimsókninni stendur verður undirritaður samningur milli Íslands og Víetnams um vernd fjárfestinga, en í heimsókn forsætisráðherra til Víetnams fyrr á árinu var m.a. undirritaður tvísköttunarsamningur milli landanna.

Boðað er til blaðamannafundar með forsætisráðherrum Íslands og Víetnams í Þjóðmenningarhúsinu á morgun, föstudaginn 20. september, kl. 11:15. Jafnframt gefst fjölmiðlum tækifæri á að mynda upphaf viðræðna forsætisráðherranna kl. 10:00 á morgun og undirritun samnings um vernd fjárfestinga kl. 11:00.

Dagskrá heimsóknarinnar er hjálögð. Utanríkisráðuneyti mun annast fyrirgreiðslu við fjölmiðla að öðru leyti.

Í Reykjavík 19. september 2002.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum