Hoppa yfir valmynd
25. september 2002 Forsætisráðuneytið

Nýr forstöðumaður Þjóðmenningarhúss

Frétt nr.: 37

Nýr forstöðumaður Þjóðmenningarhúss - settur ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneyti

Forsætisráðherra hefur í dag falið Guðríði Sigurðardóttur, ráðuneytisstjóra, að gegna embætti forstöðumanns Þjóðmenningarhúss frá 27. september til 15. mars nk. Jafnframt hefur forsætisráðuneytið gefið út hjálagða reglugerð um Þjóðmenningarhúsið.

Embætti forstöðumanns Þjóðmenningarhúss hefur verið laust frá því að Sveinn Einarsson, fyrrv. þjóðleikhússtjóri, lét af því um miðjan ágúst sl. Ný reglugerð fyrir Þjóðmenningarhús gerir ráð fyrir nokkrum breytingum á tilhögun þeirrar starfsemi, sem fram fer í húsinu, og hefur Guðríði verið falið að fylgja þeim breytingum eftir, en starfsemi Þjóðmenningarhúss tengist mjög stofnunum menntamálaráðuneytis.

Þá hefur menntamálaráðherra sett Guðmund Árnason, skrifstofustjóra í forsætisráðuneyti, til að gegna embætti ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneyti í fjarveru Guðríðar. Guðmundur er stjórnmálafræðingur að mennt. Hann var skipaður deildarstjóri í forsætisráðuneytinu árið 1991 og skrifstofustjóri í sama ráðuneyti árið 1996. Árin 1998-2000 starfaði hann hjá Norræna þróunarsjóðnum í Helsinki.

Reykjavík, 25. september 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum