Hoppa yfir valmynd
4. október 2004 Forsætisráðuneytið

Yfirlýsing vegna stefnuræðu forsætisráðherra

Vegna fréttar í DV í dag um stefnuræðu forsætisráðherra sem flutt verður í kvöld á Alþingi vill forsætisráðuneytið taka fram eftirfarandi:

Forsætisráðuneytið harmar það að annað árið í röð skuli brotinn trúnaður á efni stefnuræðu forsætisráðherra og um hana fjallað í fjölmiðlum fyrir flutning og umræður um hana á Alþingi.

Stefnuræða forsætisráðherra var afhent alþingismönnum síðdegis á föstudag. Var hún merkt sem trúnaðarmál. Í bréfi frá ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins sem fylgdi afriti ræðunnar, sagði:

„Hér með afhendist alþingismönnum eftirrit af stefnuræðu forsætisráðherra, sem flutt verður mánudaginn 4. október n.k., sbr. 73. gr. laga nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis þar sem segir: „Innan fimm daga frá setningu Alþingis skal forsætisráðherra flytja stefnuræðu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, en eftirrit af ræðunni skal afhent þingmönnum sem trúnaðarmál eigi síðar en þremur dögum áður en hún er flutt“.“

Ljóst er að með fréttaflutningi af efni stefnuræðunnar hefur trúnaðarskylda sem kveðið er á um í lögum verið brotin.

Forsætisráðherra mun óska eftir viðræðum um málið við forseta Alþingis.

 

Í Reykjavík, 4. október 2004.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum