Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2002 Forsætisráðuneytið

Samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara

Frétt nr.: 45/2002

Í dag, þriðjudaginn 19. nóvember, var undirrituð í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands og Landssambands eldri borgara um stefnumótun og aðgerðir ríkisvaldsins í málefnum aldraðra sem koma til framkvæmda næstu tvö til þrjú árin. Yfirlýsinguna undirrituðu Davíð Oddsson, forsætisráðherra, Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Guðni Ágústsson, settur félagsmálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og Benedikt Davíðsson og Ólafur Ólafsson fyrir hönd Landssambands eldri borgara.

Yfirlýsingin er undirrituð með hliðsjón af tillögum sérstaks starfshóps sem fjallað hefur um brýn úrlausnarefni í málefnum aldraðra. Starfshópurinn, undir formennsku Þórarins V. Þórarinssonar, skilaði í dag tillögum um margþættar aðgerðir sem bæði snúa að aðbúnaði og skipulagi öldrunarmála og hækkun á greiðslum almannatrygginga.

Ríkisstjórnin hefur þegar fjallað um tillögur starfshópsins að stefnumótun og aðgerðum og samþykkt að beita sér fyrir því að þær nái fram. Samtals er talið að árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna aðgerðanna verði um 5 milljarðar króna þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda árið 2005, þar af er helmingur vegna meiri greiðslna almannatrygginga.


Í Reykjavík 19. nóvember 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum